Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna vitnar í verklagsreglur um kostnaðarmat lagafrumvarpa:

„Kostnaðarmat skal ávallt liggja fyrir þegar frumvarp er lagt fram í ríkisstjórn. Þegar umsögn fjármálaráðuneytisins berst fær sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar afrit af henni.“

Á bloggsíðu sinni bendir Björn Valur einnig á að í reglunum sé „kveðið á um að meta verði áhrif lagafrumvarps á sveitarfélög og ef athugasemdir eru gerðar við lagafrumvarp skala gera breytingar á því“.

Tilefni skrifanna er framganga Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra vegna frumvarpa um húsnæðismál, sem ekki hefur verið hægt að kostnaðarmeta í fjármálaráðuneytinu. Björn Valur, sem sat í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili, segir það ekkert nýtt að lagafrumvörp tefjist „í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu á meðan verið er að vinna þau betur og meta áhrif þeirra“. Hann segist hins vegar ekki muna eftir því að mál hafi „hreinlega stoppað í [fjármála]ráðuneytinu vegna þess hve illa þau eru unnin“:

„Starfsfólk fjármálaráðuneytisins ber ábyrgð á því að frumvörp séu vel unnin að þessu leytinu til og standist skoðun. Ábyrgð þeirra er því mikil. Því fólki verður ekki mútað með orkustöngum.
Að sama skapi er það ótrúlega óábyrgt af hálfu ráðherra að hóta okkur því að fara fram með lagafrumvörp sem standast ekki skoðun.
Slík vinnubrögð eiga að heyra fortíðinni til.“

Björn Valur er ekki einn um að gagnrýna framgöngu félagsmálaráðherra. Kolbeinn Óttarsson Proppe, blaðamaður Fréttablaðsins er lítt hrifinn þegar hann skrifar Frá degi til dags:

„„Húsnæðismálin fjögur eru hluti af mínum forgangsmálum á þessu þingi,” sagði Eygló Harðardóttir í Fréttablaðinu í gær. Tilefnið var sú sérkennilega staða sem upp er komin varðandi síðari tvö húsnæðisfrumvörpin, sem ekki hafa enn komið fram á þingi. Það er nokkuð sérkennilegur málskilningur hér á ferð. Forgangsmál eru þau mál sem viðkomandi ætlar að leggja mesta áherslu á, ætlar raunar að vinna þau svo þau gangi framar öðrum málum, fái forgang.“

Kolbeinn segir að enn skringilegri verði málskilningurinn þegar ráðherrann segist vona að málin fái „umfjöllun á þinginu fyrir þinglok þótt þingfundadögum fækki stöðugt.” Kolbeinn skrifar:

„Forgangsmál er ekki eitthvað sem maður vonast til að hægt sé að komast í, ef tími vinnst til. Það er eitthvað sem frekar á við um ungling, ef tími vinnst til frá tölvunni mun ég taka til í herberginu mínu.“

Páll Vilhjálmsson er enn harðari í gagnrýni sinni og segir að Eygló Harðardóttir eigi að segja af sér en muni hins vegar ekki gera það. Hann heldur því fram að ráðherrann sé einangraður í ríkisstjórn og í Framsóknarflokknum:

„Eygló starfar eins samfylkingarráðherra og leikur vinstrieinleik hápólitísku máli í miðhægristjórn. Helsti talsmaður hennar er Stefán Ólafsson samfylkingarmaður.“

Síðar skrifar Páll:

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekkert með samfylkingarráðherra að gera. Ekki síst í ljósi þess að brú milli Samfylkingar og Framsóknarflokks er álíka sennileg og brú milli Íslands og Færeyja.“

En þótt Páll telji að Eygló eigi að segja af sér er hann sannfærður um að það muni hún ekki gera enda myndi slíkt aðeins einangra hana:

„Hún er ekki með neina burði til að vera gerandi í pólitík og yrði hornkerling á þingi.“