Hugmyndir og tillögur Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um nýskipan peningamála og afnám brotaforðakerfisins hafa fallið í grýttan jarðveg hjá flestum. Forsætisráðherra skipaði Frosta sem formann nefndar um endurbætur á peningakerfinu en með honum voru Kristrún Frostadóttir og Davíð Stefánsson. Þau sögðu sig úr nefndinni enda ósátt við endanlega skýrslu sem Frosti gekk frá.

En það eru ekki allir sem vilja afgreiða tillögur Frosta Sigurjónssonar út af borðinu. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, segir í pistli á Pressunni, að hugmyndir um afnám brotaforðakerfisins séu gamlar „sem Chicago-hagfræðingarnir, meðal annars Henry C. Simons, en einnig Irving Fisher, settu fram á sínum tíma, og hún hefur sína kosti og galla”.

Hannes Hólmsteinn segir að skýrsla Frosta verðskuldi efnislegar umræður „en fram að þessu hafa þær snúist hér á landi um aukaatriði eins og það, hvort skýrsla Frosta sé á ensku”:

„Það eru engin rök heldur, að þessari leið hafi verið hafnað fyrir áttatíu árum. Getur ekki verið, að menn hafi þá haft rangt fyrir sér? Við sjáum, að bönkum hefur í raun verið afhentur nær ótakmarkaður réttur til að prenta peninga með því að lána út miklu meira en þeir fá sjálfir lánað. Þetta hefur verið eina helsta undirrót hagsveiflna í heiminum. Með því er ég ekki að lýsa yfir stuðningi við tillögur Frosta. Rök eru til gegn þeim. En þær ætti að ræða alvarlega.”