MMR-könnunmarsSamkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar MMR yrðu Píratar stærsti stjórnmálaflokkur landsins ef kosið yrði til Alþingis í dag. Fylgi þeirra mælist 23,9%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar og er nú 23,4%. Þótt munurinn sé innan skekkjumarka er ljóst að niðurstaða könnunarinnar er mikið áhyggjuefni fyrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins en meðalfylgi flokksins í alþingiskosningum frá 1963 er 35,3% þrátt fyrir afleita útkomu í tvennum síðustu kosningum.

Sigurður Sigurðarson er einn þeirra sem leitar skýringa á góðu gengi Pírata í skoðanakönnunum og vandræðum Sjálfstæðisflokksins. Skýringar Sigurðar á fylgi Pírata eru:

1. Þeir virðast vera borgaralegir en róttækir
2. Þeir taka afstöðu gegn bákninu
3. Eru gagnrýnir á stjórnvöld
4. Taka afstöðu með einstaklingnum
5. Eru á móti „stóra bróður“ tilburðum stjórnvalda, gæta að litla manninum í þjóðfélaginu
6. Kjósandinn getur auðveldlega samsamað sig við stefnu þeirra
7. Talsmenn þeirra eru venulegt fólk með kostum og göllum

Á bloggsíðu sinni segir Sigurður að einu sinni hafi verið sagt að sjálfstæðismenn væru of latir til að berjast og of feitir til að flýja. Hann heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn eigi „afar auðvelt með að fá fólk upp á móti sér, rétt eins og nýjustu atburði vegna ESB vitna um”.

Og Sigurður setur fram hugsanlegar skýringar á stöðu Sjálfstæðisflokksins:

1. Flokkurinn er almennt þunglyndur og illsýnilegur
2. Talsmenn flokksins hrökkva stöðugt í vörn
3. Stefna landsfundar og stefna einstakra frambjóðenda fer ekki alltaf saman, sbr. ESB samþykktir landsfundarins.
4. Flokkurinn er ósjálfrátt verjandi kerfisins
5. Flokkurinn ver báknið
6. Forystumenn flokksins eru kenndir við annarlega hagsmuni sem erfitt er að hrekja
7. Litli maðurinn í þjóðfélaginu hefur ekki skjól af Sjálfstæðisflokkum
8. Umhverfismál og náttúruvernd mæta afgangi hjá kjörnum fulltrúm á Alþingi