Utanríkisráðherra er ekki bundinn af því að Alþingi samþykki afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu [ESB]. Þess vegna getur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra send einfalt bréf til ESB og tilkynnt um að viðræðum sé hætt – umsóknin sé kölluð aftur.
Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í dagbókarfærslu síðastliðinn þriðjudag. Með því að senda bréfið komist ráðherra hjá því kalla „eld og brennistein” yfir Alþingi líkt og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi hótað í samtali við Fréttablaðið í byrjun vikunnar, ef lögð verði fram tillaga á þingi um afköllun umsóknarinnar.
Björn segir að þetta séu „óvenjulegar hótanir ráðherrans sem stóð fyrir ESB-umsókninni og forklúðraði síðan málinu á þann veg að í ársbyrjun 2013 lagði hann til að viðræðum við ESB yrði slegið á frest”. Frá því í mars 2011 hafi Össur reynt án árangurs að blása lífi við viðræðurnar. Þá skrifar Björn:
„Á árinu 2012 gekk hann fyrir hvern erlenda stórhöfðingjann eftir annan til að knýja á um framhald viðræðna um sjávarútvegsmál innan ramma aðildarviðræðnanna. Allt kom fyrir ekki og háðuglegast fór Alain Juppé, þáverandi utanríkisráðherra Frakka, með íslenska ráðherrann.

ESB-viðræðunum verður ekki fram haldið nema utanríkismálanefnd alþingis breyti umboðinu sem þáverandi meirihluti utanríkismálanefndar veitti í áliti sínum vegna umsóknarinnar sumarið 2009. Það verður að slá af kröfum í sjávarútvegsmálum, vegna þeirra stöðvaði ESB viðræðurnar. Í meirihlutaálitinu um sjávarútvegsmál sá ESB ekki neina aðlögunarglufu. Að Íslendingar breyti sáttmálum eða sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB verður ekki – tímabundin aðlögun er hið eina sem kemur til greina. Hún er ekki einu sinni í boði nema Íslendingar breyti samningsumboðinu.”

Þetta viti Össur og helli úr skálum reiði sinnar í stað þess að flytja tillögu um nýtt samningsumboð í sjávarútvegsmálum.