„Lögreglumenn eru ekki síður þreyttir á því að þurfa sí og æ að vera að réttlæta kaup á nauðsynlegum búnaði fyrir misvitrum mönnum, sem vitna í tölvuleiki til þess að fá einhverja innsýn í mál, sem verið er að fjalla um hverju sinni,” sagði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í viðtali við Morgunblaðið 16. janúar og vísar þar til umræðu um vopnabúnað lögreglunnar. Þreyttir

Í viðtalinu segir Snorri að lögreglumenn hafi í gegnum árin talað fyrir því að að lögreglan á Íslandi hefði sambærilegar lagaheimildir og lögreglan á hinum löndunum á Norðurlöndunum hefur, til þess að afla upplýsinga ef vá steðjar að, vara við vánni og bregðast við. En það hafi verið talað fyrir daufum eyrum. Fyrirheit um að efla lögregluna hafi ekki gengið eftir og”lögreglan er og hefur alltaf verið keyrð á lágmarksmannskap”:

„Lögreglumenn eru orðnir langþreyttir á því að vera alltaf að tala fyrir daufum eyrum um þessi mál. Þessu verður kannski best lýst með þeim orðum að það sé með hreinum ólíkindum að lögreglan þurfi sífellt að vera að réttlæta tilvist sína innan samfélagsins til þess að sjá um þessi öryggismál sem varða borgarana og landið í heild sinni.“

Morgunblaðið hefur það eftir Snorra að ef vá steðjar að séu viðbrögð lögreglunnar eina úrræðið sem þjóðin geti stólað á. Hér sé engu þjóðvarðliði til að dreifa, eins og á hinum löndunum á Norðurlöndum, sem hægt sé að kalla út, ef lögreglan ein ræður ekki við ástandið.

Snorri segir að eðlilegt sé að umræða um að auka eftirlit hafi farið af stað í kjölfar voðaverkanna í París og að þá umræðu þurfi að taka af fullum þunga hér á landi.