Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor flutti fyrirlestur á ráðstefnu um félagsvísindi á Bifröst föstudaginn 3. maí 2013 og skýrði út hina alþjóðlegu fjármálakreppu og áhrif hennar hér á landi. Hannes var síðan gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils þar sem fjallað var um frjálshyggju og kapítalisma.

The video cannot be shown at the moment. Please try again later.

Á bloggsíðu sinni segir Hannes að í fyrirlestrinum á Bifröst hafi hann vísað á bug fjórum algengum skýringum á bankahruninu:

  1. Bankarnir hefðu verið of stórir. Bankarnir voru ekki of stórir, heldur var Ísland of lítið. Kerfisvillan var, að rekstrarsvæði bankanna var allt Evrópska efnahagssvæðið, EES, en baktryggingarsvæðið Ísland eitt. Lúxemborg og Svissland voru til dæmis með stór bankakerfi eins og Ísland.
  2. Gerð hefði verið frjálshyggjutilraun, sem hefði misheppnast. Þessu hélt meðal annarra Ha-Joon Chang fram í bók sinni, 23 atriðum um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Ég benti á, að regluverk á íslenskum fjármálamarkaði var nákvæmlega hið sama og í öðrum löndum EES.
  3. Bankamennirnir íslensku hefðu verið aular. Ég benti á, að þá væru þeir erlendu bankamenn, sem lánað hefðu Íslendingum stórfé, sömu aular. Rifjaði ég upp nýleg dæmi af HSBC, Danske Bank, Barclays Bank, Royal Bank of Scotland og Deutsche Bank, sem sýna, að erlendir bankamenn fara ekki síður gáleysislega en hinir íslensku.
  4. Seðlabankinn undir forystu Davíðs Oddssonar hefðu gert fjölda mistaka. Þessu hélt meðal annarra prófessor Robert Wade fram í New Left Review og víðar. Ég benti á margar missagnir í máli Wades, til dæmis um gengisstefnu Seðlabankans.