Þegar einstaklingar sem gegna trúnaðarstöðum í stjórnmálaflokkum eru staðnir að ósannindum eða setja fram hálfsannleika og villandi upplýsingar, eiga þeir um þrennt að velja. Þeir geta í fyrsta lagi viðurkennt af hreinskilni að viljandi eða óviljandi hafi þeir ekki gengið fram í takt við sannleikann og beðist afsökunar. Í annan stað geta þeir þagað þunnu hljóði í þeirri von að málið gleymist – það fenni yfir. Í þriðja lagi geta þeir farið í hlutverk sakleysingjans, látið sem þeir hafi ekkert rangt gert heldur aðeins sá sem benti á ósannindin. Sumir þeirra sem velja þriðju leiðina forherðast eftir því sem þeir festast meira í net ósanninda, skáldskapar og hálfsannleika.

Kristbjörg Þórisdóttir, stjórnarmaður í Samstöðu, ákvað að fara þriðju leiðina. Í pistli hér á T24 var bent á að Kristbjörg hefði farið með ósannindi – skáldað staðreyndir – í viðleitni sinni til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Stjórnarmaður Samstöðu taldi rétt að „svara” skrifunum á bloggsíðu sinni á Eyjunni, eins og hægt er að lesa hér.

Tilefni skrifanna hér á T24 var staðhæfing sem Kristbjörg setti fram á bloggsíðu sinni, en þar sagði hún meðal annars:

„Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gefa ekki upp eða birta nöfn þeirra sem sitja í miðstjórn/landsstjórnum flokkanna sem fara með valdið á milli flokksþinga/Landsfunda.

Þessa staðhæfingu notaði Kristbjörg síðan til að draga ályktanir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum fremur en hin skáldaða staðhæfing. Á þetta var bent og því til rökstuðnings var vísað á heimasíður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks þar sem upplýsingar eru veittar hverjir sitja í miðstjórn eða landstjórn. Rétt er að endurtaka það.

Hér eru upplýsingar um þá sem sitja í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Hér eru upplýsingar um þá sem sitja í landstjórn Framsóknarflokksins.

Þá var dregin fram sú staðreynd að þeir sem hafa boðið sig fram til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins gera það opinberlega og upplýsingar um viðkomandi frambjóðanda eru birtar á heimasíðu flokksins og eru öllum aðgengilegar.

Í svari sínu víkur Kristbjörg í engu að því að fullyrðing hennar, sem vitnað er til, er hreinn skáldskapur.

Kristbjörg hefur tekið að sér trúnaðarstörf fyrir nýjan flokk sem virðist meðal annars leggja áherslu á gagnsæi. Baráttan fyrir auknu gagnsæi er virðingarverð og stuðlaðar að betra þjóðfélagi. En gagnsæi er til lítils ef trúnaðarmenn og valdamenn í stjórnmálaflokkum fara fram með blekkingum.

Kristbjörg er ekki fyrsti valdamaðurinn í stjórnmálaflokki sem hefur verið staðinn að því að setja fram fullyrðingar sem eiga sér enga stoð. Flestir hafa gert það vegna þess að þeir vissu ekki betur. Þeir biðjast afsökunar og leggja sig fram um að leiðrétta það sem missagt var. En þeir eru til sem í ófyrirleitni sinni, telja að hreinn skáldskapur henti málstaðnum.

Í „svari” sínu beinir Kristbjörg spurningum til þess er hér heldur um pennann, meðal annars er varðar beint lýðræði og hvort ekki eigi að gefa öllum flokksbundnum Sjálfstæðismönnum tækifæri á því að kjósa formann flokksins. Það kann vel að vera að ég svari slíkum spurningum við annað tækifæri en ég er sammála Bjarna Benediktssyni sem hefur viðrað slíkar hugmyndir. En kannski ætti Kristbjörg að beina spurningum um beint lýðræði til síns eigin flokksformanns, Lilju Mósesdóttur. Það væri ekki óeðlilegt að Kristbjörg, sem áhugamaður um beint lýðræði, færi fram á að formaðurinn skýri út ástæður þess að hún greiddi atkvæði gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.