Óli Björn Kárason

Frá kosningum 2009 hafa nær sex af hverjum tíu kjósendum Samfylkingarinnar snúið baki við flokknum sem átti að verða sameiningarafl íslenskra vinstrimanna. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup er fylgi Samfylkingarinnar aðeins 12,4%.

Sameiningarflokki vinstrimanna, sem átti að verða „turn“ í íslenskum stjórnmálum, hefur ekki aðeins tekist að eyða öllu fylgi Kvennalistans, Þjóðvaka og þess hluta Alþýðubandalagsins sem gekk í Samfylkinguna, heldur naga af kratafylginu. Stuðningur við Samfylkinguna er töluvert undir 14,3% meðalfylgi Alþýðuflokksins sáluga í tíu kosningum frá 1963 til 1995.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, virðist sannfærður um að vandi flokksins sé ímyndarvandi en ekki hugmyndafræðilegur. Á Sprengisandi Bylgjunnar síðastliðinn sunnudag viðurkenndi formaðurinn að slakt gengi væri áfellisdómur. Flokkurinn hefði ekki orðið „vettvangur“ fólks sem vill „málefnalega nýsköpun á miðju íslenskra stjórnmála“ (hvað svo sem það nú þýðir). Árni Páll taldi að fyrst hefðu nýsköpunarsinnar leitað í raðir Bjartrar framtíðar en horfðu nú til Pírata. Á Sprengisandi hélt formaðurinn því fram að fólkið vildi opnara samfélag, halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram, beint lýðræði og stjórnkerfisbætur. Allt væru þetta málefni sem „Samfylkingin hefur barist fyrir á hæl og hnakka frá því að hún var stofnuð“.

Kokhreysti

Það er mikil kokhreysti að halda því fram að Samfylkingin hafi „barist á hæl og hnakka“ fyrir opnara samfélagi, beinu lýðræði og stjórnkerfisbótum.

Í rúmlega fimm ár leiddi Samfylkingin ríkisstjórn sem gerði flest annað en að opna samfélagið og lagði lykkju á leið sína til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum. Þingmenn flokksins komu í veg fyrir að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu og börðust gegn því að landsmenn greiddu atkvæði um Icesave-samninga ríkisstjórnar sem kenndi sig við norræna velferð en vildi þjóðnýta skuldir einkaaðila og leggja þungar byrðar á launafólk um ókomna framtíð. Stjórnkerfisbætur Samfylkingarinnar fólust í því að þenja út kerfið, setja flóknari reglur, auka eftirlit og fjölga tilraunum til að eyðileggja stjórnarráðið.

Hitt er rétt að Árni Páll og félagar hafa verið staðfastir í baráttunni fyrir aðild að Evrópusambandinu, enda er aðildin sögð allsherjarlausn á vanda Íslendinga.

Umbúðir og innihald

Fyrir flokksformann er þægilegt að skýra út fylgishrun með þeim hætti sem Árni Páll gerði síðastliðinn sunnudag. Samfylkingar þurfi bara að haga „orðræðunni“ með öðrum hætti og koma kjósendum í skilning um að flokkurinn sé ekki kerfisflokkur og alls ekki hluti af fjórflokknum.

Ekki skal dregið í efa að samfylkingum sé nauðsynlegt að haga orðræðunni með öðrum hætti en þeir hafa gert. Þannig væri skynsamlegt að leggja meira upp úr innihaldi en orðskrúði og umbúðum. Það nægir ekki að raða saman fallegum orðum líkt og Árni Páll gerði í pistli á heimasíðu sinni í aðdraganda formannskosninga 2013, þegar hann hafði betur í keppninni við Guðbjart Hannesson:

„Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng. Í þessari blöndu býr ótrúlegur kynngikraftur og á hennar grunni er auðvelt að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma. Spurningin er hvort við kjósum að nýta þetta hreyfiafl, rækta það og sækja fram með það sem höfuðvopn?“

Krafturinn í orðablöndu Árna Páls hefur ekki reynst mikill og ekki hefur Samfylkingunni auðnast að „veita svör við erfiðustu álitamálum“ nema þá það eitt að svörin liggi grafin í Brussel.

Samfylkingin hefur á nokkrum árum sveiflast frá því að vera flokkur sem tók sér stöðu með nokkrum stórfyrirtækjum og umsvifamiklum kaupsýslumönnum yfir í að vera róttækur vinstriflokkur ríkisafskipta og þungrar skattheimtu – frá því að vera flokkur sem boðaði einfalda lausn (Evrópusambandið) á öllum vanda yfir í að vilja vera vettvangur „nýsköpunar“ í stjórnmálum – frá því að vera flokkur með rætur í verkalýðshreyfingunni í sambræðing vinstrisinnaðra menntamanna.

Klofningur til sameiningar

Íslenskir vinstrimenn hafa átt þá ósk heitasta að standa sameinaðir í baráttunni gegn borgaralegum öflum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er styrkasta brjóstvörnin. Í nær níutíu ár hafa þeir aldrei borið gæfu til þess þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Með stofnun Samfylkingarinnar átti draumurinn loks að rætast. Sá draumur er að breytast í martröð. Sundrungarganga íslenskra vinstrimanna heldur því áfram.

Það hefur verið háttur vinstrimanna að efna til klofnings til að ná fram sameiningu. Kannski einhverjir komist að þeirri niðurstöðu að best sé að skapa nýjan vettvang „nýsköpunar“ með enn einum stjórnmálaflokknum. Þá væri hægt að hafa til hliðsjónar stjórnmálaályktun sem samþykkt var á stofnþingi Samtaka vinstri manna og frjálslyndra í nóvember 1969 þar sem sagði meðal annars:

„Samtökin telja það mál mála, að takist að sameina alla íslenzka jafnaðarmenn og samvinnumenn í einum sterkum og vaxandi stjórnmálaflokki, sem reynst geti hæfur til að taka forystu fyrir sóknaröflum þjóðfélagsins.“