Stjórnmálamenn eru gjarnir á að vera gjafmildir. Að vísu er gjafmildin fremur fyrir annarra manna fé en þeirra eigið. Á stundum vilja þeir sýna víðsýni sína og umburðarlyndi með örlæti sínu en oft eru þeir aðeins að afla sér stuðnings ákveðinna hópa kjósenda með rausnarskap þótt reikningurinn sé greiddur af skattgreiðendum.

Örlæti stjórnmálamanna leiðir oftar en ekki til ófarnaðar hvort heldur er í fjármálum sveitarfélaga eða ríkisins. Gjafmildi alþingismanna hefur þannig orðið til þess að við höfum misst sjónar á því hvert raunverulegt hlutverk ríkisins eigi að vera í samfélaginu. Afleiðingin er sú að umsvif ríkisins aukast stöðugt en um leið er dregið úr bolmagni þess til að sinna grunnhlutverki sínu.

Öfugsnúinn rausnarskapur

Það er, í besta falli, öfugsnúið að þeir sem hæst tala um öflugt heilbrigðiskerfi skuli um leið grafa undan því með gjafmildi sinni í eitthvað allt annað á sama tíma og barist er við fjárskort. Með svipuðum hætti veikja þeir, sem í ræðu og riti berjast fyrir öflugu almannatryggingakerfi, þegar þeir telja nauðsynlegt að verja takmörkuðum fjármunum ríkisins í ýmislegt annað en grunnstoðirnar. Þannig má lengi telja.

Fémildi þingmanna hefur orðið til þess að æ stærri hluti sameiginlegra fjármuna ríkisins rennur til annarra verkefna en þeirra sem almenn sátt er um að skuli vera grunnskylda sameiginlegs sjóðs landsmanna; heilbrigðisþjónusta, almannatryggingar, samgöngur, löggæsla, dómstólar (innra og ytra öryggi þjóðarinnar) og menntun. Fyrir utan þungar vaxtagreiðslur af skuldum fer fimmta hver króna sem greidd er úr ríkiskassanum í annað en grunnstoðir samfélagsins. Þetta jafngildir því að á fimm ára fresti sé ákveðið að verja öllum tekjum ríkissjóðs í önnur verkefni en þau sem eru mikilvægust.

Í rausnarskap sínum og löngun til að staðfesta víðsýni og umburðarlyndi – í samræmi við pólitískan rétttrúnað – hafa stjórnmálamenn gripið til tveggja ráða. Annars vegar seilast þeir dýpra í vasa skattgreiðenda og hins vegar senda þeir reikninginn til komandi kynslóða.

En jafnvel vasar skattgreiðenda eru ekki ótæmandi auðlind þótt einhverjir standi í þeirri trú og telji rétt að láta skattgreiðendur greiða allt að 80% skatt af tekjum sínum. Og æ fleiri gera sér grein fyrir siðleysi þess að gefa út víxla sem afkomendum er ætlað að greiða.

Kjarkur til að andmæla

Í andrúmslofti örlætis á annarra manna fé og í samkeppni um hylli einhverra kjósenda koma þingmenn saman og etja kappi hver við annan. Fáir skorast undan – en þeir eru þó til sem betur fer.

Alþingi samþykkti á sérstökum hátíðarfundi 19. júní að stofna Jafnréttissjóð Íslands í tilefni af því að öld var liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Allir þingmenn, fyrir utan einn, voru sammála um að láta árlega 100 milljónir króna næstu fimm árin renna til sjóðsins frá skattgreiðendum.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stóð ein gegn tillögunni sem var flutt sameiginlega af formönnum allra stjórnmálaflokka á þingi.

Í fyrri umræðu um þingsályktunina (16. júní) rökstuddi Sigríður afstöðu sína og sagði meðal annars:

„Ég ætla auðvitað ekki að tala fyrir hönd allra kvenna eða nokkurra annarra en bara sjálfrar mín, en það er nú mín skoðun að virðingu kvenna sé enginn sérstakur sómi sýndur með þingsályktunartillögu af þessu tagi sem sendir 500 milljóna króna reikning til skattgreiðenda, sem ég leyfi mér nú að minna á að eru um helmingur konur.“

Sigríður taldi rétt að allir tækju þátt í að fagna tímamótunum en þingsályktunin væri ekki „neitt annað en enn eitt ríkisútgjaldamálið“:

„Í tillögunni er lagt til að verulega háum fjármunum sé deilt út með afar ómarkvissum hætti í ýmis verkefni sem þarna eru talin upp á sama tíma og fé vantar í mörg nauðsynleg verkefni sem ég veit að er jafnvel þverpólitísk samstaða um að ráðast þurfi í.“

Þingmaður þarf sterk pólitísk bein til að andmæla einn tillögu sem formenn allra flokka hafa sameinast um í tilefni af merkum tímamótum.

Hugmyndafræðin sem liggur að baki tillögunni er hugmyndafræði örlætis og raunarskapar á kostnað annarra. Tillagan er birtingarmynd þess rétttrúnaðar sem hefur náð að skjóta rótum innan allra stjórnmálaflokka.

Gert út á skattgreiðendur

Umrædd þingsályktun er langt í frá að vera eina dæmið um hvernig þingmenn og þingflokkar reyna að gera út á skattgreiðendur. Litlu virðist skipta hvort um frumvörp eða þingsályktunartillögur er að ræða. Flest þingmál eru til þess að auka útgjöld, fjölga reglum og herða eftirlit.

Tillaga þingmanna Samfylkingarinnar um „bráðaaðgerðir“ í byggðamálum er tilraun til að ná hylli kjósenda á landsbyggðinni. Þá skiptir kostnaðurinn litlu. Auka á fjármagn til „sóknaráætlana“ (Samfylkingar), innleiða ívilnunarsamninga og útdeila öðrum gæðum. Tillaga um ríkisstuðning með skattaívilnunum með niðurfellingu gjalda á „vistvænt eldsneyti“ er annað dæmi um hvernig samfylkingar slá um sig en auðvitað er það kómískt að nokkur ár eru síðan gjöldin voru felld niður. Með annarri tillögu til þingsályktunar vilja þingmenn Samfylkingar að ríkið hækki húsaleigubætur og niðurgreiði sérstök viðbótarlán til þeirra sem eru með lágar tekjur eða eru að kaupa íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn. Í nafni „bráðaaðgerða“ á einnig að taka upp 20% stofnstyrki til byggingar leiguíbúða.

Þingmenn Pírata vilja ekki síður vera góðir og hafa lagt til að unnið verði að því að „tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og útrýma fátækt“. Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram tillögu um að skipa nefnd um „lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun“. Markmiðið er auka „þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði“. Meðal flutningsmanna eru þingmenn sem komu í veg fyrir að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og börðust hatrammlega gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave. Í þessum anda vill þingmaður Vinstri grænna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að NATO og samherjar hans telja rétt að skipa nefnd um atvinnulýðræði. Svo eru þeir til sem telja nauðsynlegt að seinka klukkunni. Þá má ekki gleyma tillögum um þjóðgarða, skipan umboðsmanna, alþjóðaflugvelli um allt land, eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, kaup ríkisins á jörðum, flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar og um aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði.

Þótt fæstar þingsályktunartillögur nái fram að ganga gefa þær ágæta innsýn í hugmyndafræði þingmanna. Skipa á nefndir, auka útgjöld, setja ný lög og reglugerðir. Fæstar tillögurnar miða að því að draga úr umsvifum ríkisins, einfalda regluverkið og leyfa skattgreiðendum að halda aðeins meiru eftir af því sem þeir afla.

Samþykkt þingsályktunartillögu um stofnun Jafnréttissjóðs Íslands með 500 milljónum frá skattgreiðendum er því í góðu samræmi við þann anda örlætis sem svífur yfir þingsölum.