Hvernig í ósköpunum fórum við Íslendingar að því að koma upp kerfi þar sem fámennur hópur í þjónustu ríkisstofnunar hefur möguleika á því að lama stóran hluta matvælaframleiðslunnar? Slíkt kerfi tryggir a.m.k. ekki matvælaöryggi þjóðar en er dæmi um hvernig opinbert eftirlitsbákn hefur vaxið sér yfir höfuð. Kerfið hefur snúist í andhverfu sína og lifir sjálfstæðu lífi.

Verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun, sem lamaði mikilvægan hluta innlendrar matvælaframleiðslu, ætti að vera áminning til löggjafans um að endurskoða eftirlitskerfið allt – hugsa upp á nýtt þær forsendur sem liggja þar að baki. Það er eitthvað rangt við að fámenn stétt geti stöðvað matvælaframleiðslu, stefnt rekstri bænda í hættu og jafnvel komið í veg fyrir innflutning á blómum og kartöflum, sem þó hafa verið stimpluð og vottuð í bak og fyrir hjá þar til gerðum stofnunum í ríkjum Evrópusambandsins.

20 milljarða kostnaður

Ég hef áður fært rök fyrir því, hér á síðum Morgunblaðsins, að beinn kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna opinbers eftirlits sé 15-20 milljarðar króna á hverju ári. Þetta mat byggist meðal annars á skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004. Samkvæmt skýrslunni var kostnaður íslenskra fyrirtækja árið 2003 við að framfylgja margvíslegum eftirlitsreglum talinn nema 7,2 milljörðum króna. Á meðalverðlagi liðins árs jafngildir þetta um 13,3 milljörðum króna.

Allt bendir til þess að kostnaðurinn hafi aukist verulega á undanförnum árum enda hefur reglum verið fjölgað, þær hertar og eftirlitsbáknið þanið út með tilheyrandi kostnaði. Nú er svo komið að árlegur beinn eftirlitskostnaður jafngildir 180-240 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Við þetta bætist óbeinn kostnaður atvinnulífsins í formi minni framleiðni og lakari samkeppnisstöðu. Um leið eru möguleikar fyrirtækja til að greiða starfsfólki sínu hærri laun eða lækka vöru- og þjónustuverð til neytenda skertir.

Ekki er deilt um nauðsyn þess að setja ákveðnar leikreglur og að skynsamlegt sé að hafa eftirlit með að þeim reglum sé fylgt (og það er ekki náttúrulögmál að allt slíkt eftirlit sé á vegum opinberrar stofnunar – ekki frekar en skoðun bifreiða). En að eftirlitsbáknið sogi til sín ígildi 240 þúsund króna frá hverri fjölskyldu á hverju einasta ári getur vart talist eðlilegt eða sanngjarnt – heldur merki um sjúkleika og sóun. Til að kóróna vitleysuna getur kerfið tekið heilu atvinnugreinarnar í gíslingu og kippt stoðunum undan rekstri.

Þjónar hinum stóru

Fyrir utan sóun sem fylgir ofvöxnu og flóknu bákni opinbers eftirlits er dregið úr virkni markaðarins, – dregið úr samkeppni. Þar með er unnið gegn nýjungum og framförum. Síbreytileg og flóknari lög og reglur koma í veg fyrir að framtaksmenn nái að hasla sér völl á mörkuðum þar sem stórir aðilar sitja fyrir á fleti. Í sinni verstu mynd kemur eftirlitsiðnaðurinn í veg fyrir samkeppni og verndar þá stóru.

Fyrir stórfyrirtæki er það ekki endilega vont eða neikvætt að það sem ég hef kallað teknókratisma sé ráðandi. Kjörlendi teknókrata eru öflugar eftirlitsstofnanir og flóknar margbreytilegar reglur. Starfsumhverfi stórfyrirtækja er á margan hátt þægilegt við slíkar aðstæður enda dregið úr líkum á því að nýir aðilar reyni að ryðjast inn á markaðinn með ódýrari og betri vöru og þjónustu.

Og það sem meira er: Hið verndaða umhverfi leiðir til þess að þeir sem fyrir eru vilja oft ekki rugga bátnum. Þannig verður samkeppnin í besta lagi kurteisleg – næstum því fyrir siðasakir með reglulegum tilboðum og afsláttum, án þess að nokkur hætta sé á að staðan á markaði riðlist. Neytandinn situr eftir með sárt ennið og ber kostnaðinn. Afleiðingin er frábreytni og stöðnun.

Gegn framtaksmanninum

Þannig hefur eftirlitsbáknið snúist upp í andhverfu sína. Í stað þess að stuðla að virkri samkeppni og verja hag neytenda er dregið úr framtakssemi með íþyngjandi reglum og eftirliti. Framtaksmaðurinn er sendur á milli Pílatusar og Heródesar til að afla sér tilskilinna leyfa fyrir atvinnurekstri. Báknið hefur sannfærst um að það skuli vera vandasamara og erfiðara verk að uppfylla kröfur hins opinbera en að sinna þörfum og óskum væntanlegra viðskiptavina. Margir gefast upp.

Það eru gömul sannindi og ný að framtaksmaðurinn hefur verið drifkraftur framfara og bættra lífskjara. Hann kemur auga á tækifærin, býður nýja vöru og þjónustu, skapar ný störf og eykur þannig lífsgæði samferðamanna sinna. Framtaksmaðurinn ógnar hinum stóru með nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Hann er aflvaki framfara og breytinga.

Engu er líkara en að báknið sé með einbeittan vilja til að koma böndum á slíka menn. Í stað þess að ýta undir sjálfstæðan atvinnurekstur er komið upp hindrunum í formi hárra skatta og opinbers eftirlits með tilheyrandi gjöldum.

Allt er þetta öfugsnúið. Eftirlitsbáknið lifir fyrir sig sjálft í stað þess að sjá til þess að einföldum reglum sé fylgt, samkeppni sé virk og hagur neytenda og launafólks tryggður. Þannig eru höfð endaskipti á hlutunum líkt og í dægurþrasi stjórnmálanna, þar sem þeir sem eru dugmestir við að kenna sig við frjálslyndi, eru helstu talsmenn báknsins. Hinir umburðarlyndu sem hæst tala um málfrelsi og réttinn til að láta skoðanir sínar í ljós telja nauðsynlegt að koma upp öflugum eftirlitsstofnunum með fjölmiðlum.

Sá sem efast um eftirlitskerfið er hins vegar sagður ganga erinda stórfyrirtækja og auðvalds, sem þó nýtur verndar flókins regluverks og umsvifamikils eftirlitsbákns. Efasemdamaðurinn vill brjóta upp kerfið en til varnar bákninu eru hinir „frjálslyndu“ og „víðsýnu umbótamenn“.