Óli Björn Kárason

Almenn samstaða er um að tryggja með sem bestum hætti fjárhagslega afkomu allra – að allir geti lifað með mannlegri reisn óháð aldri, starfsgetu eða erfiðra félagslegra aðstæðna. Þess vegna höfum við komið upp víðtæku öryggisneti með almannatryggingum, félagsaðstoð sveitarfélaga og ekki síst með þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Fjárhagsleg aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur má hins vegar ekki refsa líkt og nú er t.d. gert með fyrirkomulagi örorkubóta, þar sem jafnvel hið minnsta sjálfsaflafé er gert upptækt með skerðingu bóta. Með sama hætti má opinber fjárhagsstuðningur ekki verða til þess að beina einstaklingum og fjölskyldum inn í félagsleg búsetuúrræði, þar sem þeim er refsað fjárhagslega fyrir að leggja mikið á sig við að eignast eigið húsnæði. Með því er grafið undan séreignastefnunni og þar með fjárhagslegu sjálfstæði til frambúðar. Versta tegund opinberrar aðstoðar er þegar dregið er úr hvata einstaklingsins til að afla sér lífsviðurværis – standa á eigin fótum og komast í bjargálnir.

Verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur samþykkt sem lög frá Alþingi, verður stigið enn eitt skrefið í að umbylta íslensku húsnæðiskerfi. Með því færist nær draumsýn margra vinstrimanna um félagslegt íbúðakerfi þar sem séreignastefnan er gerð hornreka. Með fjárhagslegum hvötum mun ríkið beina launafólki inn í félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir og letja almenning við að eignast eigið húsnæði.

Falleinkunn

Sjaldan hefur skrifstofa opinberra fjármála, sem lögum samkvæmt ber að veita umsögn og leggja mat á kostnað stjórnarfrumvarpa, fellt þyngri dóm en yfir frumvarpi um húsnæðisbætur. Enginn sem les þá umsögn getur af góðum hug unnið að því að frumvarpið verði að lögum.

Athugasemdir skrifstofu opinberra fjármála eru alvarlegar og meðal annars þessar:

  • Framkvæmd almennra húsaleigubóta verður færð til ríkisins en með því móti yrði framkvæmd á húsnæðisstyrkjum til leigjenda eftirleiðis á tveimur stjórnsýslustigum með auknum rekstrarkostnaði og flóknara ferli fyrir hluta bótaþega. Rekstrarkostnaður Tryggingastofnunar mun aukast um 80 milljónir á ári.
  • Hlutfallslega verður aukning á niðurgreiðslu húsaleigu meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri sem gengur þvert á markmið frumvarpsins um að auka stuðning við efnaminni einstaklinga og fjölskyldur.
  • Meðalhlutfall niðurgreidds húsaleigukostnaðar með húsaleigubótum hækkar í ríflega 31%. Styrkhlutfallið yrði að meðaltali nokkru hærra en í vaxtabótakerfinu.
  • Aukinn ríkisstuðningur við leigjendur, við ríkjandi aðstæður á leigumarkaði, er líklegur til að leiða til hækkunar á leiguverði. Með því verður ábati leigusala meiri en leigjenda, sem þó var ætlunin að styrkja.

Hugmyndafræði og lífssýn

Þingmenn standa alltaf frammi fyrir þeirri spurningu hvernig best sé og skynsamlegast að verja takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs. Þegar þeir taka ákvörðun hljóta þeir að byggja á pólitískri sannfæringu – hugmyndafræði og lífssýn.

Það er djúpstæð sannfæring mín að gera eigi sem flestum kleift að verða eignamenn og tryggja þannig fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Fáar skyldur stjórnmálamanna eru mikilvægari en að stuðla að fjárhagslegu öryggi einstaklinga og fjölskyldna.

Eignamyndun millistéttarinnar og þeirra sem lægri laun hafa byggist á tveimur meginstoðum; annars vegar á lífeyrisréttindum og hins vegar á verðmæti eigin húsnæðis. Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur, grefur undan síðari stoðinni – séreignastefnunni. Með fjárhagslegum hvötum eða refsingum á að beina stórum hluta landsmanna inn á leigumarkaðinn – inn í félagslegt leiguhúsnæði og á almennan leigumarkað. Þegar almenningur er þvingaður í auknum mæli inn á leigumarkað er grafið undan eignamyndun á komandi áratugum. Afleiðingin verður sú að margir festast í gildru fátæktar undir lok starfsævinnar.

1.100 fjölskyldur

Margir hafa lítinn eða engan áhuga á því að eignast eigið húsnæði – þeir kjósa fremur að leigja. Enginn hefur rétt til þess að neyða þá til að ráðast út í kaup á íbúð. En með sama hætti getur ríkisvaldið eða einstaka ráðherrar og embættismenn, aldrei tekið að sér það vald í hendur að beita fjárhagslegum þvingunum í húsnæðismálum – og beina einstaklingum og fjölskyldum inn á leigumarkað í stað þess að fjárfesta í húsnæði. Raunverulegt valfrelsi er ekkert ef hið opinbera grefur skipulega undan séreignastefnunni með afskiptum sínum og umsvifamiklum bótagreiðslum sem brengla alla ákvarðanir.

Fjármálaráðuneytið reiknar með að kostnaður ríkissjóðs vegna húsnæðisbóta verði 6,6 milljarðar króna á ári og aukist um 44% frá því sem nú er. Þetta jafngildir því að ríkissjóður leggi fram 20% eigið fé í 30 milljóna króna íbúðakaup 1.100 fjölskyldna á hverju einasta ári um ókomna tíð. Í stað þess að leigja væri byggt undir eignamyndun sem annars á sér aldrei stað.

Þingmenn hljóta að spyrja sig hvort fjármununum sem setja á í húsnæðisbætur sé öllum vel varið en þeir nýtast a.m.k. ekki til að auka eignamyndun launafólks.

Margir þurfa fjárhagslega aðstoð úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Mestu skiptir að stuðningurinn nýtist þeim sem þurfa á honum að halda og sé ekki étinn upp af öðrum eins og hætta er á að gerist ef frumvarp um húsnæðisbætur nær fram að ganga. Að óreyndu verður því ekki trúað að nokkur þingmaður styðji lagasetningu um bótagreiðslur úr ríkissjóði sem aðrir, en þeir sem þurfa á að halda, njóta að mestu.

Sterk efnahagsleg staða

Það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, að við Íslendingur höfum sjaldan verið í jafn sterkri efnahagslegri stöðu og nú. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar við afnám hafta, sem kynntar voru í byrjun vikunnar, auka bjartsýni enn frekar og ættu að öðru óbreyttu að bæta hag allra, jafnt heimila og fyrirtækja. Umfang verkefnisins er án fordæma í efnahagssögu heimsins en greinilegt er að undirbúningurinn er sérstaklega vandaður og undir styrkri verkstjórn.

Með festu og af sannfæringu um að ætíð skuli standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar, hafa Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sýnt hvernig standa á að verki gagnvart erlendu fjármálavaldi. Um leið verður landsmönnum betur ljóst hve ríkisstjórn „norrænnar velferðar“ voru mislagðar hendur með linkuhætti og kjarkleysi við að gæta íslenskra hagsmuna.

Á næstu misserum gjörbreytist skuldastaða ríkissjóðs til hins betra og fjárfestingar í atvinnulífinu aukast. Ríkið fær svigrúm til að byggja upp innviði samfélagsins og aukin umsvif í efnahagslífinu gefur aukin tækifæri til að stokka upp og einfalda skattkerfið. Afnám vörugjalda var mikilvægt skref og ríkisstjórnin hefur einnig kynnt fyrsta áfangann við endurreisn tekjuskattskerfsins. Lægsta þrep tekjuskatts einstaklinga verður lækkað og milliþrepið (millistéttarskatturinn) lagt niður.

Þannig hefur ríkisstjórnin rutt brautina til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði íslenskra heimila á komandi árum. Með frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur er lagður steinn á þá braut. Varla hefur það verið markmiðið!