Óli Björn Kárason

Allir þurfa aðhald. Stjórnmálamenn þurfa aðhald. Ríkiskerfið þarf aðhald og það þurfa fjölmiðlar einnig. Atvinnurekendur jafnt sem forysta verkalýðshreyfingarinnar þurfa aðhald. Gagnrýni, opin umræða, upplýsingafrelsi og valfrelsi borgaranna er besta trygging þess að allar helstu stofnanir samfélagsins búi við nauðsynlegt aðhald.

Stjórnmálamenn fá það oft óþvegið á opinberum vettvangi. Líki okkur ekki við stjórnmálamanninn getum við barist gegn honum og við látum hann finna fyrir því næst þegar gengið er að kjörborði. Við getum lýst vanþóknun okkar á stjórnmálaflokkunum og flokkakerfinu öllu með því stofna nýja stjórnmálahreyfingu eða leggja nýju þjóðmálaafli lið. Við getum sagt stjórnmálamönnunum upp og vísað flokkunum út í hafsauga.

Atkvæði greitt á hverjum degi

Í lýðfrjálsu landi greiða borgararnir atkvæði á hverjum einasta degi. Þeir sýna gremju sína þegar þjónusta matvörubúðarinnar er léleg og færa viðskiptin annað. Frjáls borgari beinir viðskiptum sínum þangað sem hann fær góða þjónustu á sanngjörnu verði. Hann velur dekkjaverkstæðið þar sem þjónustan er lipur, snögg og örugg. Hann kemur aftur í tölvubúðina þar sem ungur snillingur snerist í kringum hann og sýndi fram á að ekki væri alltaf best að kaupa það dýrasta.

Með atkvæði sínu veitir borgarinn viðskiptalífinu aðhald. Valfrelsi hans er forsenda samkeppninnar sem aftur leiðir til betri þjónustu, meiri gæða vöru og hagstæðara verðs.

Fáir kostir

Fjölmiðlar þurfa aðhald. Ef okkur mislíkar við frjálsa fjölmiðla þá segjum við upp áskriftinni, hættum að horfa eða hlusta og miðlarnir missa tekjur. En ef við erum ósátt við það sem Ríkisútvarpið ber á borð fyrir okkur eigum við fárra kosta völ. Við neyðumst til að greiða útvarpsgjaldið hvað sem tautar og raular. Innheimtumaður ríkissjóðs sér til þess.

Þegar stjórnmálamenn eru gagnrýndir er tekið undir. Þeim er ætlað að hlusta og taka mark á því sem sagt er. Sama á við um forystumenn í atvinnulífinu, forstöðumenn ríkisstofnana, sveitarstjórnarmenn og forstjóra fyrirtækja. Gagnrýni á vinnubrögð ríkismiðils er hins vegar litin hornauga. Hún er kæfð og sögð til marks um að reynt sé að „koma böndum“ á fjölmiðil sem segist vera „okkar allra“.

Ádeila á ríkisrekinn fjölmiðil lýtur sérstökum lögmálum. Sá sem er ósáttur er áhrifalaus. Gagnrýni hans skiptir litlu, hefur engin áhrif og ekki getur hann sagt upp viðskiptasambandi sínu við ríkismiðilinn með því að hætta að greiða áskriftina. Afleiðingin er sú að fáar ef nokkrar stofnanir samfélagsins búa við minna aðhald en Ríkisútvarpið. Í aðhaldsleysinu hefur myndast þjóðfélagslegt tómarúm um húsið í Efstaleiti þar sem starfsemin lifir sjálfstæðu lífi óháð því sem gerist utan tómsins.

Engin gúrka

Ekki var hægt að kvarta undan fréttaleysi á Íslandi síðastliðinn föstudag. Engin gúrka þann daginn. Verkföllum 65 þúsund landsmanna var afstýrt með kjarasamningum. Atvinnurekendur féllust á helstu kröfu launafólks um 300 þúsund króna lágmarkslaun í lok samningstímans.

Sama dag kynnti ríkisstjórnin umfangsmiklar skattalækkanir. Lægsta þrep í tekjuskatti verður lækkað og um leið tryggt að persónuafsláttur fylgi verðlagi. (Í tíð ríkisstjórnar sem kenndi sig við norræna velferð lækkaði persónuafslátturinn um rúm 4% að raunvirði frá 2009 til 2013.) Milliþrep tekjuskattsins verður fellt niður, sem tryggir millistéttinni miklar kjarabætur, en á síðustu árum hefur verið gengið mjög nærri henni.

16 milljarða skattalækkun

Í heild lækkar tekjuskattur einstaklinga um allt að 11 milljarða króna. Þetta þýðir að á kjörtímabilinu mun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lækka tekjuskattinn um 16 milljarða króna. Tollar á fatnað og skó verða felldir niður sem er kjarabót fyrir alla, en ekki síst þá sem ekki hafa ráð á því að ferðast til útlanda.

Ríkisstjórnin tilkynnti einnig að gert yrði átak í húsnæðismálum, húsaleigubætur hækkaðar og félagslegum leiguíbúðum fjölgað (umdeilt en fréttnæmt). Ríkisstjórnin ætlar að gera fleira.

Unnið er að nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að „verja þá sjúklinga sem mest greiða og setja fjárhæðarþak á kostnað þeirra sem þurfa á mikilli þjónustu að halda“. Hér er um mikið réttlætismál að ræða en því miður hafa margir þurft að glíma við óheyrilegan kostnað samhliða baráttu við illvíga sjúkdóma.

Tómarúm ríkismiðils

Í tómarúminu í Efstaleiti þóttu þessar fréttir fremur léttvægar. Að afstýra verkföllum tuga þúsunda með tilheyrandi áföllum fyrir efnahagslífið var talið ómerkilegt. Umfangsmiklar skattalækkanir sem koma þeim tekjulægstu og millistéttinni til góða voru varla í frásögur færandi. Að unnið sé að miklu réttlætismáli um umbyltingu í greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er greinilega ekki á áhugasviði ríkismiðils.

Aðrar „stórfréttir“ voru því fyrst á dagskrá sjónvarpshluta Ríkisútvarpsins síðastliðið föstudagskvöld:

  1. Fyrir níu dögum urðu farþegar í ferju óttaslegnir en skipstjóri sagði enga hættu hafa verið á ferðum.
  2. Viðræðum BHM og hjúkrunarfræðinga slitið.
  3. Einstaklingur bíður eftir rannsóknum vegna alvarlegs sjúkdóms.
  4. Ríkisstjórnin kynnir aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum.
  5. Skrifað var undir kjarasamninga.

Hafi einhver greiðandi útvarpsgjaldsins verið óklár á fréttamati ríkismiðilsins, daginn sem kjarasamningar voru undirritaðir og skattalækkanir boðaðar, var formaður samninganefndar BHM fenginn í beina útsendingu. Enda er hann í verkfalli.

Til þess að tryggja blómlegt líf í Efstaleiti leggja stuðningsmenn tómarúmsins til að aflétt verði milljarða skuldum af ríkismiðlinum og þeim velt yfir á skattgreiðendur, sem fá ekki einu sinni að njóta þess að loforð um örlitla lækkun nauðungargjaldsins – útvarpsgjaldsins – nái fram að ganga.

P.s.

Öllum skattgreiðendum er gert að greiða sérstakan nefskatt til Ríkisútvarpsins. Þar gildir ekki jöfnuður. Þeir tekjulægstu greiða það sama og þeir sem hæstu launin hafa.

Öllum hugmyndum vinstrimanna um að þeir sem mest hafa á milli handanna greiði meira en þeir sem minna bera úr býtum er fórnað. „Tekjujöfnun“ í gegnum skattkerfið kann að vera heilög í huga þeirra sem kenna sig í sífellu við jöfnuð og réttlæti en aðeins svo lengi sem jöfnuðurinn kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að tryggja öflugan rekstur ríkisfjölmiðils. Engum þeirra kemur til hugar að réttlætið sé fólgið í því að lofa einstaklingnum sjálfum að ráða hvernig hann ver takmörkuðum fjármunum.

Getur það verið að valfrelsi einstaklingsins um hvaða fjölmiðlum hann vill vera áskrifandi að gangi gegn hugmyndum um jöfnuð?