Óli Björn Kárason

Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn eru gjarnir á að halda því fram að þrepaskipt tekjuskattskerfi – stighækkandi skattheimta – sé skynsamleg og réttlát leið til að auka jöfnuð í samfélaginu. Samkvæmt þessu eru tíu þrep réttlátari en þrjú og 25 fela í sér meiri jöfnuð en fimm þrep. Flókið margþrepa skattkerfi með tilheyrandi jaðarsköttum er draumsýn vinstri manna og engu er líkara en að margir þeirra séu uppteknari af því að jafna kjör landsmanna niður á við í stað þess að bæta stöðu þeirra sem lægstu launin hafa.

Baráttan fyrir flóknu þrepaskiptu skattkerfi virðist hins vegar aðeins vera bundin við tekjuskatt ríkisins en ekki við útsvar sveitarfélaga. Þannig sætta vinstri menn sig ágætlega við flata útsvarsprósentu (sem samkvæmt kokkabókum þeirra hlýtur að fela í sér óréttlæti). Það er með öðrum orðum í góðu lagi að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög leggi á flatan skatt á tekjur launafólks en það er óverjandi í nafni jöfnuðar að ríkið geri slíkt hið sama.

Öfugsnúið réttlæti

Allt er þetta öfugsnúið. Fyrir launafólk skiptir útsvarsprósentan miklu meira máli en skatthlutfall ríkisins. Á síðasta ári nam álagt útsvar á einstaklinga (vegna tekjuársins 2013) um 149 milljörðum króna en tekjuskattur var 112 milljarðar. Alls greiddu einstaklingar 261 milljarð í skatta af launatekjum og þar af tóku sveitarfélögin til sín 57%. Launafólk greiddi 36 milljörðum meira í útsvar en tekjuskatt!

Þeir sem berjast fyrir stighækkandi skattheimtu undir gunnfána jöfnuðar eru hvorki sannfærandi né samkvæmir sjálfum sér fyrr en þeir setja þrepaskipt útsvar á stefnuskrá sína. Raunar ættu þeir fremur að sætta sig við flatan tekjuskatt ríkisins og stighækkandi útsvar en það fyrirkomulag sem nú er við lýði við beina skattheimtu af tekjum einstaklinga.

Fyrir almenning skipta ráðstöfunartekjur – það sem eftir er í launaumslaginu eftir skatta og gjöld – meira máli en krónutala í launataxta eða heildarlaun. Það er því ekki óeðlilegt þegar gengið er til kjarasamninga að horft sé til þess hvort og með hvaða hætti hægt er að lækka álögur og auka þar með ráðstöfunartekjur launafólks. Eins og venjulega er alltaf horft til ríkisins en lítið hugað að álögum sveitarfélaga og þá ekki síst þeirra sem lengst ganga og þyngstar álögur leggja á íbúana.

Hugsanleg lækkun skatta dregur þó með engum hætti úr ábyrgð atvinnurekenda á að tryggja að hægt sé að hækka laun þeirra sem lökust hafa kjörin, líkt og Bjarni Benediktssonar fjármálaráðherra hefur undirstrikað.

Skýr stefna – flatur skattur

Auðvitað þarf ekki kjarasamninga til að lækka skatta. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að minnsta kosti skýr í þessum efnum. Landsfundur 2013 ítrekaði í ályktun að „mesta kjarabót Íslendinga felist í lækkun skatta“ sem stuðlar að „meiri fjárfestingu og aukinni verðmætasköpun“. Ekki síst þess vegna samþykkti landsfundur að lækka beri tekjuskatt einstaklinga „sem jafnframt verði í einu þrepi“ og einfalda skattkerfið til muna.

Kjörtímabil ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er hálfnað. Síðari hálfleikur er hafinn og eftir er að klára stór verkefni en grunnurinn sem lagður hefur verið er traustur. Afnám fjármagnshafta samhliða uppgjöri þrotabúa bankanna skiptir miklu en uppskurður á skattkerfinu er ekki síður mikilvægur.

Samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var samkvæm hugsjónum vinstri manna um að besta skattkerfið sé flókið með stighækkandi skattprósentu. Hagsmunir þeirra lægst launuðu voru fyrir borð bornir en harðast gengið að millistéttinni. Frá ársbyrjun 2009 og fram að kosningum 2013 var lögum um tekjuskatt breytt 28 sinnum og flækjustigið aukið. Staðgreiðsla sem var 35,72% árið 2008 hækkaði í 37,32% til 46,22%. Staðgreiðsla á millitekjur fór úr 35,72% í 40,22% – líklega í nafni réttlætis.

Þannig var stöðugt þrengt að heimilunum. Ráðstöfunartekjur lækkuðu vegna hækkunar opinberra gjalda, minni vinnu og lægri launa. Fjárhagslegir erfiðleikar urðu meiri og fleiri þurftu að reiða sig á bætur og aðra aðstoð. Flókið og umsvifamikið bótakerfi er fylgifiskur fjölþrepa tekjuskatts.

Tvö ár eftir

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur tvö ár til að snúa við blaðinu og hverfa frá stefnu vinstri manna í skattamálum. Skynsamlegt fyrsta skref er að afnema milliþrep í tekjuskatti og hækka krónutölu í efsta skattþrepi. Kerfislæg villa í lögum kemur í veg fyrir að hækkun persónuafsláttar nýtist þeim sem lægstu launin hafa þar sem sveitarfélögin éta upp ávinninginn. Vegna tekjuársins 2013 nam fjárhæðin 10,4 milljörðum króna.

Verkefnið í síðari hálfleik liggur fyrir. Innleiða þarf einfalt og gegnsætt tekjuskattskerfi, sem hvetur en letur ekki einstaklinga. Í stað flókins millifærslukerfisins þar sem fólk er neytt inn í félagsleg úrræði í húsnæðismálum á að leggja áherslu á raunverulegt valfrelsi þar sem byggt er undir séreignastefnuna. Niðurgreiðslur í formi vaxtabóta eða húsaleigubóta ganga þvert á valfrelsi, sem borgaralegir stjórnmálaflokkar eiga að standa fyrir, og þjónar fremur hagsmunum fjármálastofnana og leigusala en launafólks.

Samhliða því að afnema skattheimtukerfi vinstri stjórnar gerði ríkisstjórnin vel í því að skera upp rekstur ríkisins og breyta vinnubrögðum við gerð fjárlaga. Sá er þetta skrifar hefur oft áður bent á þá staðreynd að tæplega fjórar krónur af hverjum tíu sem fara úr ríkiskassanum renna í annað en það sem skiptir landsmenn mestu.

Við getum sagt þetta með öðrum hætti:

Fjórar krónur af hverjum tíu sem einstaklingar og fyrirtæki þurfa að greiða í formi skatta og gjalda til ríkisins renna ekki til heilbrigðiskerfisins, í almannatryggingar, í menntakerfið, löggæslu, dómskerfið eða vegakerfið. Þær fara í eitthvað annað en það sem almenningur telur mestu skipta. Kannski allt undir hatti jafnaðar og réttlætis.