„Í mínum huga er löngu ágreiningslaust að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign sem beri að nýta á sjálfbæran hátt landsmönnum öllum til hagsbóta,” skrifar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag 20. maí. Bjarni segir einnig að tímabært sé að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur:

„Slíkt ákvæði ætti að taka til samþykktra laga og jafnvel ákveðinna þingsályktana Alþingis sem fela í sér bindandi ákvörðun, einkum þingsályktana um fullgildingu milliríkjasamninga.”

Í greininni bendir Bjarni á að í lok síðasta kjörtímabils hafi verið samþykkt stjórnlagabreyting sem gerir breytingar á stjórnarskránni á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu mögulegar innan þessa kjörtímabils:

„Ég tel að nú séu fyrir hendi allar forsendur til þess að bæta við stjórnarskrá lýðveldisins ákvæðum sem taka á umhverfis- og auðlindamálum, þjóðaratkvæðagreiðslu og takmörkuðu framsali valdheimilda, sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.”