Menntun er hverrar krónu virði, en er það svo? Við eigum mjög vel menntað fólk sem kann að nýta sér sína menntun og verkkunnáttu. En of stór hópur kann það ekki, sem sagt lífsgreind og verklag skortir. Við skulum sjá. Hafa ekki menntaðir stýrt landinu, og hvar erum við stödd, í borgarstjórn sitja menntaðir kjánar, í ríkisfyrirtækjum og hjá sveitarfélögum sitja víða menntaðir kjánar. Hvernig er svo allt þetta batterí rekið? Allt í skuldum og illa farið með almannafé. Ekkert stenst hjá kaupleigubyggingafélögum, en um að gera að ná nú í elstu kynslóðina til að leigja og kaupa. Illa farið með fólk og það leyfist. Í nafni menntunar er verið að gera landið að ruslahaug. Þið erum svo menntuð að þið getið ekki fundið út hvernig á að varðveita auðlindir okkar og taka gjald af ferðamönnum. Fleira er hægt að telja upp. En það sem þið kunnið og hafið getu til er að heimta og láta ríki og sveitarfélög borga sem mest fyrir ykkur, en hvað látið þið á móti? Ríki og sveitarfélög eru bara við sjálf. Að fólk sem er með yfir 500 þúsund króna mánaðarlaun sé í verkfalli er til skammar, þið eruð tilbúin til að eyðileggja þá uppbyggingu sem er í gangi. Þið menntaða fólk beitið ofbeldi: „Ég lækna, og kem ekki heim nema ég fái svo og svo há laun.“ Allt hefur verið gert til þess að þið getið menntað ykkur. Það mætti segja mér að þið hafið ekki haft það mjög slæmt menntunarárin ykkar. Og að grenja yfir námslánum, sem ég ætla að þið hafið tekið, meðvituð um að þyrfti að borga, er engin afsökun. Ég get ekki séð að neitt af þessu og ástand þjóðmála sé verkafólki að kenna, fólki sem fær 170 þúsund krónur á mánuði eftir skatta.

Stefanía Jónasdóttir í aðsendi grein í Morgunblaðinu 19. maí 2015.