„Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra um fundarstjórn forseta Alþingis 2. desember 2009. Þá var Icesave-samningur enn á ný á dagskrá þingsins og þótti stjórnarþingmönnum sem stjórnarandstaðan væri með málþóf. Steingrímur bendir sjálfstæðismönnum vinsamlegast á að þeir yrðu að „horfast í augu við þá staðreynd“ að þeir hafi verið kosnir „frá völdum af þjóðinni sl. vor“.

Í ríkisstjórn kvörtuðu ráðherrar og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna mjög undan málþófi þáverandi stjórnarandstöðuflokka – Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Var stjórnarandstaðan sökuð um að reyna að koma í veg fyrir að meiri hluti þingsins næði fram málum.

Það er merkilegt að rifja upp nokkur ummæli í tilefni af stöðugum ræðum núverandi stjórnarandstöðu um fundarstjórn vegna rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Samkvæmni er ekki lýsingin sem hér á við.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var greinilega búinn að fá sig fullsaddan af umræðum um Icesave 27. nóvember 2009. Í umræðu um fundarstjórn sagði hann:

„Málþóf er tvíeggjað sverð. Menn mega að sjálfsögðu tala eins og þeir vilja. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til þess, en það er stundum hættulegt og nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í þessu máli, orðinn hræddur um sína stöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skynjar að hann hefur engan stuðning úti í samfélaginu fyrir því að halda öllum brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu til að tala sig hásan um Icesave án þess að það komi nokkru sinni neitt nýtt fram í þeim ræðum.  Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að skammast sín til þess að hætta málþófi ef hann er hræddur við sína eigin þátttöku í því.”

Ólína Þorvarðardóttir samherji Össurar sagði við sama tækifæri:

„Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meiri hluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meiri hluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins.“

Nokkrum dögum síðar talaði Steingrímur J. Sigfússon á svipuðum nótum og Ólína Þorvarðardóttir og sagði meðal annars 2. desember 2009:

„Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. En það er einu sinni þannig að minni hluti er minni hluti og meiri hluti er meiri hluti. Það er ein af staðreyndum lífsins og þetta verða menn að horfast í augu við. Sjálfstæðisflokkurinn verður m.a. að horfast í augu við þá staðreynd að hann var kosinn frá völdum af þjóðinni sl. vor. Hann var kosinn frá völdum.“

Össur Skarphéðinsson tók einnig til máls í umræðu um Icesave 2. desember:

„Í annan stað vil ég segja að ég hef hlustað hér á margar ræður. Þetta er skipulagt málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem menn setja á vaktir og eru bara að reyna að tefja tímann og skemma fyrir ríkisstjórninni. Það verða menn að eiga við sjálfa sig. Hér eru mjög fáar málefnalegar ræður fluttar.“

Árni Páll Árnason, þá félagsmálaráðherra, var einnig óhress með stjórnarandstöðuna og sagði um fundarstjórn forseta:

„Þessi stjórnarandstaða hér er svo smá í sniðum að hún reynir að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái að koma skoðun sinni á framfæri.“