Óli Björn Kárason

Í erfiðum kjaradeilum birtast oftar en ekki þversagnir. Í átökum og verkföllum síðustu vikna eru þversagnirnar um margt óvenjulegar.

Á sama tíma og flestir virðast sammála um að lægstu laun séu vart sæmandi er verkfallsvopninu beitt til að ná fram hærri launum fyrir þá sem betur eru settir. Krafa opinberra starfsmanna um að menntun skuli metin til launa, er krafa um að auka launamun. Þar tala þeir hæst sem lengi hafa í orði barist fyrir auknum jöfnuði.

Allir vita (þótt margir þegi „hátt“) að ekki verður hægt að fallast á kröfur verkalýðsfélaga um 300 þúsund króna lágmarkslaun og samþykkja um leið kröfur opinberra starfsmanna. Það þarf enga sérfræðinga í hagfræði til að leggjast yfir flókin reiknilíkön til að spá fyrir um hvað þá gerist. Við Íslendingar vitum af biturri reynslu hvernig efnahagur mun þróast til verri vegar. Allir bera skarðan hlut frá borði en lágtekjufólk og millistéttin greiða hlutfallslega stærsta hluta kostnaðarins, eins og oftast áður.

Endaskipti á hlutunum

Flestir segjast sammála um að almenni vinnumarkaðurinn eigi að móta stefnuna í kjaramálum, ekki hið opinbera. Nauðsynlegt sé að kjarasamningar taki mið af getu samkeppnisgreina á hverjum tíma til að greiða hærri laun. Aðrar stéttir þurfi að taka mið af þeim. Þannig á að tryggja efnahagslegan stöðugleika og a.m.k. ekki gera samkeppnisstöðu landsins og þar með lífskjörin lakari en áður.

Í kjaradeilum árið 2015 hafa verið höfð endaskipti á hlutunum. Opinberir starfsmenn hafa tekið forystuna. Stefnan í kjaramálum skal ekki miðast við möguleika atvinnulífsins til að greiða hærri laun. Nú skal ríkið meta menntun til launa og auka þar með launamuninn milli háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins og þeirra sem lægstu launin hafa á almennum vinnumarkaði.

Hér er ekki dregið í efa réttmæti þess að laun endurspegli menntun, þótt auðvitað komi þar fleiri þættir inn í s.s. ábyrgð, dugnaður, starfsöryggi og ýmis önnur réttindi. En laun margra velmenntaðra opinberra starfsmanna, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins, verða seint talin til ofurlauna.

Kjarabarátta háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna snýst því ekki um að auka launajöfnuð eða bæta kjör þeirra sem lakast standa. Þvert á móti. Háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins telja nauðsynlegt og réttlætanlegt að auka launamun, sem um leið dregur úr möguleikum á að hækka lægstu launin þannig að kaupmáttur verði meiri.

Enginn kannast við króann

Ari Skúlason var lengi hagfræðingur Alþýðusambands Íslands. Hann hefur betri skilning á samspili launakjara og efnahagslífsins en gengur og gerist. Í viðtali við Spegil Ríkisútvarpsins síðastliðinn mánudag, benti Ari á að engin samstaða væri á vinnumarkaði um að „leiða okkur fram veginn“. Enginn, hvorki forystumenn launafólks né atvinnurekenda, vilji kannast við kjarasamning á almennum vinnumarkaði sem gerður var í desember 2013. Ari er sannfærður um að sjaldan eða aldrei hafi náðst „betri árangur í nokkrum einasta samningi“ hvorki hvað varðar kaupmátt launa né verðbólgu.

Skoðanir Ara eru ekki án innistæðu. Vísitala launa hækkaði um 6,6% á síðasta ári sem var töluvert meira en kjarasamningarnir gerðu ráð fyrir. Frá desember 2013 til sama mánaðar á liðnu ári jókst kaupmáttur launa um 5,7%. Á síðasta ári var verðbólga að meðaltali 2% sem er undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Frá febrúar á síðasta ári hefur 12 mánaða verðbólga alltaf verið undir markmiði Seðlabankans.

Það er sérkennilegt að enginn kannist við kjarasamninga sem óumdeilanlega lögðu góðan grunn að miklum vexti kaupmáttar á síðasta ári. Lítill vilji virðist vera til þess að byggja á þeim grunni. Þversögnin liggur í því að forskriftin að bættum lífskjörum liggur fyrir en leiðin hefur verið mörkuð í átt að efnahagslegu hengiflugi.

Ekki komist hjá lagasetningu

Með réttu hefur verið kallað eftir því að ríkisstjórnin komi að lausn erfiðra deilna á vinnumarkaði. En hendur ríkisstjórnarinnar eru fjötraðar fyrir aftan bak á meðan opinberir starfsmenn eru sannfærðir um réttmæti þess að ryðja brautina með verkföllum.

„Opinberir starfsmenn eru læstir í verkfalli,“ sagði Gylfi Dalmann dósent í vinnumarkaðsfræðum við Háskóla Íslands í viðtali við Spegil Ríkisútvarpsins í upphafi vikunnar. Gylfi er á því að hugsanlega sé „best í stöðunni að setja lög á verkfall opinberra starfsmanna“ og með því væri „hægt að hjálpa opinberum starfsmönnum þannig úr snörunni“. Undir þetta tók Lára V. Júlíusdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, sem telur að verkfall BHM „sé rekið með hertæknilegum sjónarmiðum“.

Flugmönnum og Samtökum atvinnulífsins var „bjargað“ úr sjálfheldu í maí á liðnu ári með lagasetningu. Í greinargerð frumvarps ríkisstjórnarinnar var lagasetningin réttlætt með því að „að gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir eru í húfi“ að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu.

Hafi staðið rök til þess að stöðva verkfall sem lamaði flugsamgöngur eru öll skynsamleg rök sem réttlæta að sett verði lög á verkföll opinberra starfsmanna, a.m.k. þeirra sem sinna grunnskyldum ríkisins.

Ekkert þjóðfélag getur látið bjóða sér að starfsemi heilbrigðiskerfisins sé lömuð meira eða minna með verkfallsaðgerðum líkt og gert hefur verið. Kjaradeilu starfsmanna sem sinna lífsnauðsynlegri þjónustu er ekki hægt að leysa með verkföllum.

Mannsæmandi laun

Með lagasetningu á verkföll opinberra starfsmanna opnast að nýju möguleikar til að móta ramma í kjaramálum á almennum vinnumarkaði og ríkisvaldinu gefst svigrúm til að leggja þar sitt af mörkum m.a. með lækkun tryggingagjalds, lækkun tekjuskatts og einnig öðrum skattalegum aðgerðum sem koma láglaunafólki best s.s. lækkun virðisauka á föt.

Aðkoma ríkisins að almennum kjarasamningum leysir atvinnurekendur hins vegar ekki undan þeirri skyldu að borga mannsæmandi laun. Á þessi einföldu sannindi hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra bent:

„Það hlýtur að koma að því á einhverjum tímapunkti að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun þeim sem eru í lægstu tekjuhópunum. Það getur ekki bara verið vandamál ríkisins.“

Með samningum á almennum vinnumarkaði skapast forsendur til að móta skynsamlega stefnu í launamálum opinberra starfsmanna, þar sem horft er til langs tíma og komið í veg fyrir að grunnþjónusta ríkisins sé lömuð. Þar skiptir ekki bara máli að horft verði til menntunar og ábyrgðar, heldur einnig til þess að ríkið „kaupi“ verkfallsréttinn af þeim sem tekið hafa að sér að veita þá opinberu þjónustu sem ekkert þjóðfélag getur verið án.