Óli Björn Kárason

Á hverjum einasta degi liðins árs – frá sunnudegi til laugardags – var A-hluti borgarsjóðs rekinn með tæplega átta milljóna króna halla. Reksturinn var langt frá því sem gengið var út frá í fjárhagsáætlun og um 18 milljónum króna verri á hverjum degi en árið á undan.Reykjavík-fjármál

Það er hægt að lýsa rekstri Reykjavíkurborgar á liðnum árum með einföldum hætti: Tekjur dugðu ekki fyrir rekstrarkostnaði. Í heild nam hallinn á A-hluta borgarsjóðs liðlega 2.800 milljónum króna.

Þegar rýnt er í ársreikning Reykjavíkurborgar getur það varla verið harður dómur að halda því fram að lausatök einkenni stjórnun fjármála í Ráðhúsinu við Tjörnina. Skiptir litlu hvort borin er saman fjárhagsáætlun og niðurstaða ársreiknings eða liðið ár og síðasta ár fyrir valdatöku Dags B. Eggertssonar og Jóns Gnarr fyrir fimm árum.

Kostnaður úr böndum

Árið 2009 – fyrsta árið eftir fall fjármálakerfisins – tókst að skila A-hluta borgarsjóðs með nokkrum afgangi. Á verðlagi liðins árs var niðurstaðan jákvæð um rétt ríflega fjögur þúsund milljónir króna. Afkoman var því tæplega 6.900 milljónum verri á síðasta ári þrátt fyrir að raunhækkun tekna hafi verið um 10.400 milljónir króna. Ástæðan?

Rekstrarkostnaður hefur snarhækkað og dómharðari menn, en sá sem hér heldur um penna, gætu notað sterkari lýsingu en að kostnaðurinn hafi farið úr böndunum. Rekstur A-hluta borgarinnar kostaði 17 þúsund milljónum króna meira á síðasta ári en árið 2009 á föstu verðlagi. Fyrir utan lífeyrisskuldbindingar var launakostnaður rúmlega sjö þúsund milljónum hærri.

Raunvirði launakostnaðar á hvern borgarbúa var 94 þúsund krónum hærri á síðasta ári en áður en Dagur B. og Jón Gnarr tóku við völdum. Hækkunin skýrist ekki aðeins af almennri launahækkun heldur ekki síður af fjölgun starfsmanna. Stöðugildum A-hluta fjölgaði um 528 og á liðnu ári voru 17,8 íbúar á bak við hvern borgarstarfsmann í stað 19 áður. Starfsmönnum fjölgaði um 8,4% á sama tíma og borgarbúum fjölgaði aðeins um 1,4%. Þannig er reksturinn að verða óhagkvæmari og fjölgun starfsmanna eykur ekki ánægju borgarbúa með þá þjónustu sem þeir fá. Borgin fær ítrekað falleinkunn í óháðum þjónustukönnunum og kemur illa út í samanburði við nágrannasveitarfélögin.

Líkur á verri afkomu

Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga í A-hluta var á síðasta ári um eitt þúsund milljónum krónum hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Fjárlagaskrifstofa borgarinnar segir að ástæðuna megi „einkum rekja til mikilla launahækkana opinberra starfsmanna á síðasta ári“. Til að bæta gráu ofan á svart boðar Fjárlagaskrifstofan vondar fréttir í skýrslu um ársreikning borgarinnar: „Líkur eru á vaxandi gjaldfærslum vegna hækkandi aldurs og örorkumats Íslendinga sem lagt er til grundvallar tryggingafræðilegri úttekt.“

Verði ekkert að gert má því búast við að afkoma borgarsjóðs versni á komandi árum.

Verri rekstur hefur eðli máls áhrif á burði borgarinnar til að standa undir afborgunum lána, fjárfestingum í innviðum borgarinnar (skólum, gatnakerfi o.s.frv.) og bæta almennt þjónustu við íbúana.

Aukin vanmáttur

Veltufé frá rekstri nam aðeins 4.500 milljónum króna eða 5,4% af tekjum árið 2014. Fjármálaskrifstofa borgarinnar taldi rétt að vekja sérstaka athygli á lágu veltufjárhlutfalli og segir í skýrslu sinni að æskilegt sé að „hlutfall veltufjár frá rekstri sé hærra vegna skuldastöðu eða sem næst 9% sem hlutfall af tekjum“. (Til samanburðar er vert að hafa í huga að í Garðabæ var hlutfallið 12% á liðnu ári.)

Milli áranna 2009 og 2014 lækkaði veltufé frá rekstri á hvern íbúa um 31 þúsund krónur að raungildi.

Fjárfesting borgarinnar á liðnu ári var aðeins liðlega átta þúsund milljónir króna – tæplega fimm þúsund milljónum króna lægri en ef Reykjavík hefði fjárfest fyrir svipaða fjárhæð á hvern íbúa og Garðabær. Holur í götum borgarinnar eru ein birtingarmynd takmarkaðrar fjárfestingar og furðulegrar forgangsröðunar.

Sú einfalda staðreynd blasir við að rekstur A-hluta borgarinnar – þ.e. sú þjónusta sem skatttekjur eiga að standa undir – gengur ekki upp. Og það þrátt fyrir að lítillar hófsemdar gæti þegar kemur að álögum á íbúa. Útsvarið er í hæstu hæðum og það tekur meðallaunamanninn í Reykjavík um viku lengur að vinna inn fyrir útsvarinu en ef hann hefði búsetu þar sem álögur eru lægstar.

Afleiðingin er veikari borgarsjóður og aukin vanmáttur borgarinnar til að veita borgarbúum þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Fyrir hönd borgarbúa hafa skuldir verið auknar. Í lok liðins árs skuldaði hver Reykvíkingur 530 þúsund krónur vegna A-hluta eða 180 þúsund krónum meira á föstu verðlagi en fyrir fimm árum.

Háðari afkomu fyrirtækja

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um rekstur og efnahag á liðnu ári var lögð áhersla á jákvæða rekstrarniðurstöðu í samstæðureikningi þ.e. A- og B-hluta. Afkoman var betri en áætlun gerði ráð fyrir og þá fyrst og fremst vegna lægri vaxtagreiðslna Orkuveitu Reykjavíkur og endurmats á eignum Félagsbústaða.

Öllum má vera ljóst að ágætlega hefur tekist til við að rétta við rekstur Orkuveitunnar og styrkja fjárhagsstöðuna með lækkun skulda. Borgarbúar og aðrir viðskiptavinir lögðu einnig sitt af mörkum við endurreisnina og greiddu hærra verð fyrir þjónustuna.

Litlar eða engar líkur eru á því að Reykvíkingar fái að njóta bættrar stöðu Orkuveitunnar í formi lækkunar á gjaldskrá. Til þess er A-hluti borgarsjóðs of háður góðri afkomu borgarfyrirtækja að minnsta kosti á meðan skatttekjur duga ekki fyrir rekstrarkostnaði. Þess utan liggur fyrir aukin þörf á fjárfestingum við Hellisheiðavirkjun „til að viðhalda rafmagnsframleiðslunni og uppfylla strangari staðla um loftgæði“, eins og segir í skýrslu Fjárlagaskrifstofunnar. Leigjendur hjá Félagsbústöðum geta ekki reiknað með hagstæðari leigu á komandi misserum og árum. Þvert á móti segir Fjárlagaskrifstofan að vegna hærra íbúðaverðs og samþykktar borgarstjórnar um að auka framboð á félagslegum leigueignum kalli það „á hærra leiguverð til notenda félagsins, að öðru óbreyttu“.

Geta glaðst yfir einu

Niðurstaðan er því þessi:

Að óbreyttum rekstri verða álögur á borgarbúa ekki lækkaðar á komandi árum – hvorki skattar né gjaldskrár borgarfyrirtækja. Reykvíkingar njóta í engu hagkvæmni stærðarinnar eins og glögglega sést þegar rekstur nágrannasveitarfélaganna er tekinn til samanburðar. Miðað við þróun síðustu ár og lausatökin í rekstri A-hluta borgarsjóðs eru mestar líkur á að álögur og þjónustugjöld á heimili og fyrirtæki í höfuðborginni hækki.

Borgarbúar geta þó glaðst yfir einu: Borgarfulltrúum hefur tekist þokkalega að verja eigin kjör. Þannig var launakostnaður á síðasta ári vegna borgarráðs og borgarstjórnar um 24 milljónum krónum hærri á föstu verðlagi en árið 2009.