Óli Björn Kárason

Engin þjóð getur búið við það öryggisleysi að mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustunnar – sjúkrahúsin – sé lamaður vegna kjaradeilna starfsmanna og ríkisins. En Íslendingum er þó ætlað að sætta sig við stöðuga ógn gagnvart lífi og heilsu. Í harkalegum átökum um kaup og kjör verða þeir fórnarlömb sem síst skyldi. Sjúklingar eiga ekki í önnur hús að venda og aðstandendur standa bjargarlausir hjá.

Íslendingar hafa sammælst um það að reka sameiginlega öflugt heilbrigðiskerfi og þá ekki síst sjúkrahús sem öll eru ríkisrekin. Einkaaðilar gegna hins vegar mikilvægu hlutverki, allt frá heilsugæslu til hjúkrunarheimila, frá tannlæknaþjónustu til margþættrar þjónustu sérfræðilækna, frá endurhæfingu til forvarna. Ég hef verið talsmaður þess að auka hlut einkaaðila í heilbrigðisþjónustunni enda hníga flest rök til þess að þannig verði sameiginlegir fjármunir best nýttir. En um leið og kostir einkarekstrar fá að njóta sín er grunnstefið alltaf að tryggja öllum örugga, góða og öfluga þjónustu óháð efnahag.

Grunnstefið verður falskt

Í fámenninu á Íslandi hefur verið djúpstæður skilningur á nauðsyn þess að ríkið tryggi og annist rekstur sjúkrahúsa. Í milljóna þjóðfélögum eru möguleikar fyrir einkaaðila að hasla sér völl í rekstri sjúkrahúsa. Á Íslandi eru þessir möguleikar ekki fyrir hendi, a.m.k. ekki ef ætlunin er að byggja upp öflugt hátæknisjúkrahús samhliða því að allir hafi aðgang að þjónustunni sem á henni þurfa að halda. Ekki síst vegna þessa er mikilvægt að starfsemi sjúkrahúsa sé órofin og óháð deilum um kaup og kjör.

Grunnstefið – hugsjónin sem liggur að baki íslenska heilbrigðiskerfinu um aðgengi allra óháð efnahag – verður falskt ef þjónusta sjúkrahúsa lamast að hluta eða öllu leyti vegna verkfalla. Þá munu þeir efnameiri leita til annarra landa eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu en meginþorri landsmanna situr eftir í öryggisleysi og ógn. Þannig grafa verkföll undan hugsjónum um að tryggja öllum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Hér er ekki við einstaka starfsmenn eða starfsstéttir sjúkrahúsanna að sakast. Kerfið er rotið og meingallað. Það þjónar ekki hagsmunum starfsmanna og gengur gegn rétti sjúklinga á að fá lífsnauðsynlega þjónustu og umönnun. Á meðan kerfið er ekki brotið upp og samið um nýjar leikreglur þurfa sjúklingar að biðjast vægðar.

Beðist vægðar

Hinrik A. Hansen berst við krabbamein. Hann hefur fengið að kynnast alvarlegum áhrifum verkfallanna á meðferð sjúklinga. Friðrik skrifaði áhrifamikla grein í Fréttablaðið 15. apríl síðastliðinn sem hófst á þessum orðum:

„Neyðarástand ríkir nú á spítölum landsins vegna verkfalla, sjúklingar fá ekki nauðsynlega umönnun og eingöngu bráðatilfellum er sinnt. Krabbameinssjúklingar geta ekki hafið meðferð og hlé þarf að gera á meðferð sem er hafin. Sjúklingar fá ekki nauðsynlega greiningu og verða að bíða í von og óvon um hvort þeir fái náð fyrir augum þeirra sem forgangsraða bráðatilfellum, sem læknar sækja um undanþágu fyrir.“

Hinrik lýkur skrifum sínum með því að biðjast vægðar:

„Í greininni fjalla ég um krabbameinssjúklinga, þar sem ég tek mig sem raunverulegt dæmi, til að benda á þær raunverulegu afleiðingar sem núverandi verkfallsaðgerðir hafa. Aðrir sjúklingahópar verða ekki minna fyrir barðinu. Bráðveikir sjúklingar komast ekki í aðgerð eða eftirlit til að hefja eða halda áfram meðferð. Á meðan horfa aðstandendur á í örvinglan. Er þetta það þjóðfélag sem við viljum lifa í? Er réttlætanlegt að skiptimynt kjarabóta sé minni lífslíkur sjúklinga? Þessu verður að linna. Það getur enginn í hjarta sínu réttlætt þetta ástand. Það eina sem við sjúklingar getum gert er að biðjast vægðar.“

Verkfallsréttur og grunnþjónusta

Verkfallsrétturinn er beitt vopn og oft nauðsynlegt í höndum launamanna í baráttunni við að ná fram bættum kjörum. En vopninu verður af beita af skynsemi, hógværð og af virðingu fyrir þeim sem saklausir verða fyrir barðinu á átökum á vinnumarkaði. Það er einnig tvennt ólíkt að beita verkfallsvopninu á almennum vinnumarkaði og stórum hluta opinbera kerfisins eða lama grunnþjónustu ríkisins.

Íslendingar hafa sammælst um að rekstur og þjónusta sjúkrahúsa séu hluti af grunnskyldum ríkisins með svipuðum hætti og löggæsla, varnir landsins og almennt öryggi borgaranna. Ef þessi fullyrðing er rétt þá þýðir það um leið að enginn getur sætt sig við að starfsemi sjúkrahúsa sé lömuð vegna kjaradeilna.

Ég hef sannfærst um nauðsyn þess að ríkisvaldið hefji viðræður við samtök heilbrigðisstarfsmanna – allt frá læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum og geislafræðingum til náttúrufræðinga, sjúkraþjálfara, sjúkraliða og annarra starfsmanna sjúkrahúsa – um að „kaupa“ af þeim verkfallsréttinn. Slík „kaup“ eiga að vera hluti af þeim kjarasamningum sem allir vita að nauðsynlegt er að gera.

Forsenda þess að starfsmenn sjúkrahúsa séu tilbúnir til að semja um verkfallsréttinn er að hægt sé að semja leikreglur sem tryggja kjör þeirra til framtíðar. Það skal viðurkennt að slíkt er langt í frá einfalt en líklega er skynsamlegt að breyta lögum um kjararáð sem meðal annars ákvarðar laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna, laun ráðherra, hæstaréttardómara, héraðsdómara og „annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu“, eins og segir í 1. grein laganna.

Samkvæmt lögum „skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum“ og að þau séu „í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar“ en einnig að taka ætíð „tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“.

Reynsla síðustu mánuði hefur hins vegar sýnt hve nauðsynlegt það er að tryggja samkeppnishæfni íslenska heilbrigðiskerfisins gagnvart öðrum löndum þegar kemur að launum og aðbúnaði heilbrigðisstarfsmanna. Það væri því rétt og skynsamlegt að setja þá kvöð á kjararáð að við ákvörðun um laun starfsmanna sjúkrahúsa verði gætt að samkeppnisstöðu landsins.

Auðvitað er hægt að beita öðrum aðferðum en hér er lagt til. Hvernig sem höggvið verður á þann erfiða hnút sem lamar eina af grunnstoðum velferðarkerfisins og ógnar öryggi landsmanna er ljóst að við óbreytt ástand verður ekki búið.