Kannski var ekki hægt að ætlast til þess að forystumenn stjórnarandstöðunnar tækju gleði sína og fögnuðu yfirlýsingu forsætisráðherra um afnám gjaldeyrishafta og að sérstakur skattur gæti gefið ríkissjóði hundruð milljarða í aðra hönd. Líklega var við of miklu að búast að stjórnarandstæðingar tækju af skarið og tilkynntu að þeir styddu allir að við losun gjaldeyrishafta og uppgjör þrotabúanna, yrði hagsmuna ríkissjóðs (skattgreiðenda) gætt til hins ýtrasta.

Nei. Ef hægt er að finna að einhverju, þá er það gert. Aðalatriði verða að aukaatriðum og aukaatriði verða að aðalatriðum. Í pólitísku naggi gefur ýmislegt eftir en vonandi verða það ekki íslenskir hagsmunir að þessu sinni.

Það fór fyrir brjóstið á stjórnarandstöðunni að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skyldi hafa tekið sér það „bessaleyfi“ að ræða um stöðuleikaskatt samhliða afnámi gjaldeyrishafta, í ítarlegri ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins um liðna helgi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gat vart á sér heilum tekið. Í viðtali við Ríkisútvarpið síðastliðinn laugardag hélt hann því fram að það væri „fyrir löngu síðan orðið vandræðalegt“ hvernig ríkisstjórnin héldi á málum um afnám hafta:

„Nú er talað um einhvern stöðugleikaskatt. Fyrir jól var talað um útgönguskatt. Þannig að menn eru alltaf að leika sér með einhverjar nýjar og nýjar leiðir til að leysa þennan alvarlega vanda…“

Kurteisi og „æpandi þögn“

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, sagðist „bara svolítið hissa“ því hún hefði ekki heyrt áður rætt um stöðugleikaskatt. Hvorki Árna Páli eða Birgittu datt í hug að stöðugleikaskattur gæti verið annað nafn eða útfærsla á útgönguskatti – jafnvel pínulítið jákvæðara heiti þótt erfitt sé að tala um jákvæða skatta. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali við Fréttablaðið, það furðulegt að forsætisráðherra skyldi boða frumvarp um afnám hafta á flokksþingi Framsóknarflokksins!

Össur Skarphéðinsson, forveri Árna Páls í formannsstóli Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra ríkisstjórnar sem festi gjaldeyrishöftin kirfilega í sessi, var fljótur í pólitískan skotgrafahernað. Hann skrifaði fjálglega á fésbókarsíðu sinni um „æpandi þögn“ Bjarna Benediktssonar, sem hafði ekki tjáð sig opinberlega um ræðu forsætisráðherra. Auðvitað hvarflaði það ekki að Össuri að það væri almenn kurteisi hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að halda sig til hlés í fjölmiðlum þegar samstarfsflokkur í ríkisstjórn heldur flokksþing. Kurteisi af þessu tagi er ef til vill óþekkt í herbúðum Samfylkingarinnar.

Samkvæmt forskrift var „upphlaup“ á Alþingi í upphafi þingfundar á mánudag, þar sem haldið var áfram með farsakennda leikfærslu, þar sem tvinnuðust saman óttinn við að ríkisstjórnin væri að ná árangri og óttinn við að þurfa að „eyða“ sumrinu í þingsal við afgreiðslu mikilvægra mála – ekki síst losun gjaldeyrishafta.

Höftin fest í sessi

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sat að völdum í 52 mánuði. Á þeim tíma var lítið gert til að afnema höftin, þvert á móti voru þau frekar hert og framlengd. Össur og Katrín voru ráðherrar frá upphafi til enda. Árni Páll sat sem ráðherra í 32 mánuði og helming þess tíma sem efnahags- og viðskiptaráðherra. Honum varð ekkert ágengt í viðleitni sinni við að losa höftin. Undir lok mars 2011 tilkynnti Árni Páll að höftin yrðu framlengd til loka árs 2015, en þau hefðu að óbreyttu átt að falla niður þá um sumarið. Í framhaldinu lagði efnahagsráðherra fram frumvarp á grunni fálmkenndrar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta sem ríkisstjórnin hafði samþykkt.

Dómur Vilhjálms Egilssonar, sem þá var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var skýr: Áætlunin er metnaðarlítil. „Afnám gjaldeyrishafta væri yfirlýsing um að stjórnvöld hefðu trú á hagkerfinu og íslensku hagkerfi en að höftin vari lengur vitnar um hið gagnstæða,“ sagði Vilhjálmur í viðtali við Morgunblaðið.

Í nefndaráliti um frumvarp Árna Páls, sögðu Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur Blöndal, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd:

„Ef frumvarpið verður gert að lögum er verið að senda skýr skilaboð um að gjaldeyrishöftin séu komin til að vera. Því gæti hér verið um ein alvarlegustu hagstjórnarmistök í gjörvallri Íslandssögunni að ræða.“

Vegna þessa lögðu þeir félagar til að frumvarpið „verði alls ekki samþykkt“. En Árni Páll og ríkisstjórnin náðu sínu fram. Frumvarpið var samþykkt sem lög með atkvæðum stjórnarþingmanna og Hreyfingarinnar (þar á meðal var Birgitta Jónsdóttir, sem nú er „svolítið hissa“), gegn atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Grafið undan

Það átti ekki að koma neinum á óvart að Árna Páli yrði lítið ágengt í verkefni sínu við afnám hafta – nema til að fjölga haftaárunum. Hann hefur alla tíð verið sannfærður um að Ísland sé dæmt til einangrunar og hafta ef töframynt Evrópusambandsins – evran – verður ekki tekin upp. Sem ráðherra efnahagsmála lagði hann sig sérstaklega fram við að grafa undan íslensku krónunni, líkt og fleiri ráðherrar Samfylkingarinnar gerðu, jafnt innanlands sem utan.

Í Fréttablaðsgrein 27. desember 2010, skrifaði efnahags- og viðskiptaráðherra meðal annars:

„Til skamms tíma þarf peningamálastefnan að greiða fyrir varkáru afnámi gjaldeyrishafta og til lengri tíma að auðvelda okkur upptöku evru ef okkur sem þjóð ber gæfu til að samþykkja aðild og losa okkur þar með við tjónið og óvissuna sem fylgir sjálfstæðri mynt. Til skemmri tíma munum við búa við krónu í einhvers konar höftum. Upptaka evru verður ekki einföld, en flest bendir til að valið verði milli hennar eða afturhvarfs til einhæfari viðskiptahátta og viðvarandi haftabúskapar.“

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur starfað í tæpa 23 mánuði – nær sjö mánuðum lengur en Árni Páll sinnti embætti efnahags- og viðskiptaráðherra en níu mánuðum skemur en hann sat sem ráðherra í ríkisstjórn. Sá grunur læðist að manni að ástæða kómískra viðbragða stjórnarandstöðunnar við yfirlýsingum um lok haftaáranna og að hagsmunir skattgreiðenda séu tryggðir, sé einfaldlega sú að nú neyðast margir til horfast í augu við 52ja mánaða verk- og stefnuleysi.

Ekki falla í freistni

Eðli máls samkvæmt hafa áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám hafta og uppgjör eða slit þrotabúa bankanna, ekki verið gerðar opinberar. Slíkt væri fullkomlega óábyrgt og gæti skaðað hagsmuni almennings, íslenskra fyrirtækja og ríkissjóðs. Öllum sem fylgst hafa með hefur hins vegar lengi verið ljóst að undir forystu Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hefur verið staðið skipulega að verki. Ólíkt fyrri ríkisstjórn – sem lengdi aðeins í ólinni – er stefnan skýr og verkstjórinn – fjármálaráðherrann – þekkir og skilur verkefnið, sem er forsenda þess að vel takist til. Og kannski er það enn ein ástæðan að baki hinna kómísku viðbragða stjórnarandstöðunnar.

Stjórnarandstaðan ætti að hafa minni áhyggjur af því hvað hugsanlegur skattur verður kallaður samkvæmt lögum og meiri áhyggjur af því hvernig fjármununum verður varið. Gangi áætlanir ríkisstjórnarinnar um stöðugleika-/útgönguskatt eftir, skiptir mestu að þeir fjármunir sem hugsanlega innheimtast verði nýttir til að greiða niður miklar skuldir. Þannig er búið í haginn fyrir lækkun skatta um leið og grunnur er lagður að því að skila komandi kynslóðum öðru en stórskuldugum ríkissjóði. Hættan er hins vegar sú að stjórnmálamenn falli í freistni og útdeili peningum í fjölmörg verkefni og þá ekki aðeins til að byggja stórhýsi undir því yfirskini að minnast skuli aldarafmælis fullveldis.