Það er varla ofmælt að leiðbeiningar Hæstaréttar til þeirra sem þurfa að gera upp skuldaskipti sín í tengslum við lánasamninga með ólögmætri gengisbindingu eru ómarkvissar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þeim sem úr þessu þurfa að leysa er greinilega mikill vandi á höndum því þeir sitja uppi með það verkefni að lesa úr fyrrgreindum dómum almennar reglur sem telja megi að gildi um þessi uppgjör. Og ruglingurinn í dómsúrlausnunum, sem að minnsta kosti að hluta stafar af því að aðrir dómarar setjast í dóm en áður sátu þar, veitir þeim, sem við þetta þurfa að búa, ekki einu sinni vissu um að dómar í framtíðinni verði í samræmi við fyrir liggjandi úrlausnir.

Jón Steinar Gunnlaugsson