„Ég skrifa þér þetta bréf vegna frétta um að til standi að loka Nýju Fréttastofunni, NFS. Og bið þig um að gera það ekki. Tjáningarfrelsið tryggir öllum rétt til þess að tjá skoðanir sínar; láta rödd sína heyrast, mér, þér og þjóðinni allri…

Okkur var sagt að við fengjum tvö til þrjú ár til þess að láta NFS sanna sig. Gefðu okkur tvö. Nú um mánaðamótin stóð til að við færum í dreifingu um allt suðvesturhornið. Ekki loka sjoppunni áður en búið er að opna hana til fulls. Í fullri opinni dreifingu er þetta viðskiptahugmynd sem gengur upp. En það tekur meiri tíma en 10 mánuði að sýna það. Þetta vita nágrannar okkar í Danmörku og Noregi sem undirbúa nú sambærilega miðla en ætla þeim að skila hagnaði eftir þrjú ár.
Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur.

Róbert Marshall, forstöðumaður NFS fréttasjónvarsstöðvarinnar, í opnu bréfi til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Morgunblaðinu 18. september 2006. Tilefnið voru fréttir um að loka ætti NFS í sparnaðarskyni.