Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill banna fjármálafyrirtækjum að greiða starfsmönnum sínum bónusa. Ekki skal góður tilgangur þingmannsins dreginn í efa, en líklega er hann sannfærður um að andstaða við bónusa sé til vinsælda fallið.

En eins og oft áður, þegar velviljaðir stjórnmálamenn taka til máls, liggur ekki mikil hugsun að baki. Andríki bendir á rökvillu Karls Garðarssonar sem vilji banna litlu eignastýringafélagi að „greiða 800 þúsund krónur í laun og 200 þúsund í bónus ef vel gengur en hins vegar fær það líklega leyfi þingmannsins til að greiða tvær milljónir í laun þótt allt stefni í óefni”.

Í Kastljósi á miðvikudagskvöld rökstuddi Karl bannið meðal annars með því að að bónusgreiðslur hafi „þegar valdið þjóðinni nógu miklum skaða” og að þegar fjármálafyrirtæki færu sér að voða þyrftu skattgreiðendur að bera tjónið.

Andríki segir vegna þessa:

„Hvort ætli hafi nú óæskilegri áhrif á hegðun bankamanna, hinir umtöluðu bónusar eða sú útbreidda trú manna, sem þingmaðurinn elur á, að þegar bankar verði afvelta rétti ríkið þá af?

Það ætti einnig að vera Karli og öðrum ríkisafskiptasinnum umhugsunarefni að þegar bankar lenda í vandræðum eru helstu rökin fyrir að ríkið taki þá upp á arma sína og bæti tjónið einmitt þau að ríkið hafi séð um eftirlitið og sett reglurnar um hvernig bankamenn eigi að hegða sér.

Eru menn búnir að gleyma áróðrinum úr Icesave málinu þar sem reynt var að sannfæra íslenska skattgreiðendur um að þeir bæru ábyrgð á innstæðunum því Landsbankinn hefði starfað eftir íslenskum lögum og undir íslensku eftirliti?”

Hrafnar Óðins – þeir Hugi og Muninn – skjóta á Karl í Viðskiptablaðinu og halda því fram að bónusgreiðslur hafi ekki valdið skaða:

„Skaðinn verður þegar bankar, sem í skjóli ríkisins hafa vaxið hraðar og meira en góðu hófi gegnir, verða gjaldþrota og stjórnmálamenn eins og Karl ákveða að þjóðnýta skuldir þeirra, í meiri eða minni mæli. Karl mætti velta fyrir því sér hvort þingmenn ættu að taka á sig launalækkun við slíkar aðstæður.”

Kraftar Karls Garðarssonar nýttust skattgreiðendur betur ef hann tæki höndum saman við þá sem berjast gegn því að ríkið gangi með beinum eða óbeinum hætti í ábyrgð fyrir fjármálafyrirtæki. Það er ríkisábyrgðin sem leiðir til óábyrgðar hegðunar en ekki bónusar. Þetta á við um alla atvinnustarfsemi ekki aðeins fjármálamarkaðinn.