Óli Björn Kárason

Hægt en örugglega er verið að koma í veg fyrir eignamyndun íslenskrar millistéttar. Búið er að gera fólki með lágar tekjur ókleift að eignast eigið húsnæði. Ungt fólk sér takmarkaða möguleika til að eignast eigin íbúð.

Frá árinu 2000 hefur ríkissjóður sett um 242 þúsund milljónir króna (á verðlagi 2014) í húsnæðismál, fyrst og fremst í formi vaxtabóta og til að koma í veg fyrir gjaldþrot Íbúðalánasjóðs. Við þetta bætast nær 80 þúsund milljónir króna sem varið verður í skuldaleiðréttingu á næstu árum.

Þrátt fyrir alla þessa fjármuni sem skattgreiðendur hafa samþykkt að séu millifærðir með tilstilli ríkissjóðs og skattkerfisins glíma þúsundir við fjárhagslega erfiðleika. Mörg hundruð fjölskyldur hafa misst heimili sín á undanförnum árum og enn fleiri berjast í bökkum. Ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði á litla möguleika á að láta draum sinn rætast um að eignast eigið húsnæði. Ekki hjálpa vitlaus neytendalög dugmiklu fólki að eignast húsnæði – reikniregla neytendalaga segir að það geti fremur greitt hærri húsaleigu en afborgun af húsnæðisláni. Afleiðingin er sú að aðeins ungt fólk sem á efnaða foreldra getur leyft sér að dreyma.

Séreignastefnan á undir högg að sækja. Sósíalistar og aðrir vinstrimenn hafa alla tíð haft horn í síðu séreignastefnunnar enda er hún einn af hornsteinum borgaralegs samfélags. Í sósíaldemókratísku samfélagi eiga sem flestir að búa í félagslegu leiguhúsnæði. Í stað þess að almennir launamenn verði eignamenn í eigin húsnæði á að gera þá að leiguliðum í nafni „félagslegs réttlætis“. Sömu rök lágu að baki gríðarlegum skattahækkunum í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna. Jafnaðarmennska hins „félagslega réttlætis“ fólst í að jafna tekjur niður á við. Að auka tækifæri þeirra sem hafa lökust kjörin til að afla sér meiri tekna og bæta sinn hag kom ekki til greina. Aukin tækifæri eru hluti af borgaralegu samfélagi sem byggist á frjálsum viðskiptum frjálsra einstaklinga.

Sósíalískar lausnir

Skipuleg aðför að séreignastefnunni hefur skilað árangri. Frá árinu 2007 hefur heimilum í leiguhúsnæði fjölgað umtalsvert. Það ár voru 15,4% heimila í leiguhúsnæði en 24,9% árið 2013. Það þýðir að árið 2013 bjuggu um 31 þúsund heimili í leiguhúsnæði.

Hlutfall heimila á leigumarkaði hefur hækkað í nær öllum tekjubilum en mest hjá þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Árið 2007 voru 9,5% heimila á lægsta tekjubilinu á almennum leigumarkaði en 2,5% heimila á hæsta tekjubilinu. Árið 2013 leigðu hins vegar 29% heimila í lægsta tekjubilinu húsnæði á almennum markaði en 4,7% heimila í því efsta.

Þessi þróun er ekki síst alvarleg í ljósi þeirrar staðreyndar að eignamyndun almennra launamanna er fyrst og fremst fólgin í eigin húsnæði, auk lífeyrisréttinda. Með því að þvinga almenning í auknum mæli inn á leigumarkað er grafið undan eignamyndun á komandi áratugum. Afleiðingin verður sú að margir festast í gildru fátæktar undir lok starfsævinnar. Lakari lífskjör og efnahagur eru birtingarmyndir „félagslega réttlætisins“ sem vinstrimenn hafa barist fyrir.

Af þessu hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ekki áhyggjur. Þvert á móti. Hann vill ryðja brautina og fjölga leiguliðum. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar lofaði hann að byggja allt að þrjú þúsund leiguíbúðir á kjörtímabilinu. Þetta er eitt dýrasta kosningaloforð sem gefið hefur verið. Kostar ekki undir 75 þúsund milljónum króna og jafngildir 2,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík.

Þótt lítið bóli á efnum er hugmyndafræði borgarstjórans skýr. Nota á skatttekjur borgarinnar til að grafa undan séreignastefnunni, byggja upp félagslegt íbúðakerfi og koma þannig í veg fyrir eignamyndun millistéttarinnar og láglaunafólks. Eignamyndun er líka háttur smáborgarans.

Því miður virðist svipuð hugmyndafræði ráða ríkjum hjá ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins. Áherslan er á að byggja upp leigumarkað sem er sérstakt áhugamál félagsmálaráðherra. Lítt eða ekki er hugað að leiðum til að lækka byggingarkostnað s.s. með breytingum á byggingareglugerðum, breyta lögum um neytendalán eða beita nýjum aðferðum við að aðstoða fólk að eignast eigið húsnæði.

40 þúsund íbúðir

Þeim 242 þúsund milljónum sem ríkissjóður hefur sett í húsnæðismál frá árinu 2000 hefur verið illa varið. Vaxtabótakerfið – niðurgreiðsla á vöxtum – hefur gengið sér til húðar. Íbúðalánasjóður er nátttröll sem hefur sogað til sín 62 þúsund milljónir á síðustu árum frá skattgreiðendum.

Þegar fjölskylda ræðst í kaup á sinni fyrstu íbúð skiptir hlutfall eiginfjár og skulda mestu. Eftir því sem eigið fé er hærra því auðveldara er að standa undir fjármagnskostnaði enda höfuðstóll skulda lægri og vaxtastig hagstæðara.

Það hefði því verið skynsamlegra að ríkissjóður hefði nýtt fjármunina í að hjálpa þeim sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn, með því að leggja fram eigið fé. Miðað við 30 milljón króna eign hefði ríkissjóður haft bolmagn til að leggja fram 20% eigið fé (sex milljónir króna) til yfir 40 þúsund íbúðakaupenda.

Með öðrum orðum: Ríkið hefði getað afhent 40 þúsund fjölskyldum sem keyptu sína fyrstu íbúð ígildi 20% eiginfjár. Eignamyndun þessara fjölskyldna hefði orðið hröð og fjárhagsleg staða þeirra allt önnur og sterkari.

Með þessu hefði almenningur orðið að eignafólki en ekki bótaþegum sem bíða eftir vaxtabótum á hverju ári en neyðast síðan til að gerast leiguliðar í nafni „félagslegs réttlætis“.