Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor heldur því fram að til séu þeir Íslendingar sem noti hvert tækifæri sem gefst til að „gera lítið úr þjóð sinni”. Slíkir menn séu ólíkir Hannesi Hafstein sem sagðist aldrei vera flokksmaður þegar hann er í öðrum löndum heldur „aðeins Íslendingur”.

Í grein sem Hannes Hólmsteinn birti í Morgunblaðinu og á Pressunni bendir hann Þorvald Gylfason hagfræðiprófessor sem dæmi um mann sem geri lítið úr Íslendingum gefist til þess tækifæri. Þessu séu öfugt farið með felsta Íslendinga sem reyni að „bera höfuðið hátt erlendis þrátt fyrir smæð okkar”.

Dæmið sem Hannes Hólmsteinn dregur fram er grein eftir Þorvald um íslenska bankahrunið í ritröð þýskrar háskólastofnunar í janúar 2014. Þar er rauði þráðurinn að Íslendingar séu spilltir. Eitt dæmi Þorvaldar er þetta:

„Eftir endurteknar tilraunir afla nálægt sumum þeirra, sem sæta rannsókn, til að flæma úr starfi glæpamannahrellinn (crime-buster) Gunnar Andersen, forstjóra fjármálaeftirlitsins eftir bankahrun, tókst það 2012.“

Hannes Hólmsteinn dregur hins vegar fram staðreyndi málsins:

  • Þriggja manna stjórn Fjármálaeftirlitsins sagði Gunnari upp störfum.
  • Tveir stjórnarmanna (Aðalsteinn Leifsson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir) voru skipuð af ráðherra úr Samfylkingunni. Sá þriðji (Arnór Sighvatsson) var tilnefndur af Seðlabanka Más Guðmundssonar.
  • Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármála- og efnahagsmálaráðherra, studdi ákvörðun stjórnarinnar um uppsögn.

Í greininni segir Hannes Hólmsteinn að menn þurfi fjörugt ímyndunarafl „til að telja þessa fjóra einstaklinga alla handbendi fjármálamanna, sem sættu rannsókn”. Þá bendir hann einnig á eftirfarandi:

„Þorvaldur nefnir ekki heldur, að stjórnin sagði Gunnari upp vegna upplýsinga um, að hann hefði, þegar hann starfaði í Landsbankanum, verið virkur í að stofna og reka aflandsfélög á Guernsey, en með rekstri þeirra mátti fara í kringum reglur um fjármálafyrirtæki. Þegar fjármálaeftirlitið spurði Landsbankann árið 2001 um erlend umsvif, sá Gunnar um svör og lét þessara aflandsfélaga ógetið.

Við bættist, að Gunnar hafði orðið uppvís að því 2012 að láta lauma í DV upplýsingum um einkahagi alþingismanns. Þegar Þorvaldur skrifaði grein sína í janúar 2014, hafði Gunnar þegar verið sakfelldur í héraðsdómi fyrir þetta brot á bankaleynd. Þess gat prófessorinn ekki einu orði. Skömmu síðar var Gunnar dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir brot sitt. Ef Gunnar var glæpamannahrellir, þá er Þorvaldur Íslendingahrellir, ekki síst þegar hann er kominn út fyrir landsteinana.”