Stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu, jafnt þeir sem opinberlega gangast við því sjónarmiði og hinir sem virðast stefna að sama marki, eru iðnir við kolann þessa dagana …
Þeim sem trúa því að aðild að Evrópusambandinu verði sérstök blessun hinum dreifðu byggðum væri hollt að fara um Lapplandshéruðin, norðurhéruð Svíþjóðar og Finnlands. Undirritaður hefur bæði vegna starfa sinna í Norðurlandaráði og í tengslum við Heimskautaráðið ítrekað heimsótt þessi svæði á undanförnum misserum. Ég fullvissa menn um að þar hafa menn ekki orðið varir við þessa miklu blessun frá Brussel. Þvert á móti er mikill kurr t.d. í strjálbýli Finnlands vegna þeirra miklu búsifja sem finnskur landbúnaður, atvinnulíf og byggð hefur orðið fyrir. Brusselsinnar ættu því að finna sér önnur og haldbetri rök máli sínu til framdráttar en þau að það sé einfalt og ódýrt lausnarorð gagnvart byggðavanda að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.

Steingrímur J. Sigfússon um aðild Íslands að Evrópusambandinu í grein í Morgunblaðinu 13. febrúar 2002.