„Eigum við ekki að taka mið af reynslunni af Hofsvallagötu? Er bara ætlast til að við hlustum á sömu rök og við gerð slysagildrunnar Borgartúns? Gatan ber alla þá umferð sem um hana fer! Jafnvel þó hún sé lokuð! Einhvern veginn detta mér tvær samlíkingar helst í hug. Þar sem fasteignir borgarinnar eru helsta eign hennar þá er þetta eins og húseigandi, þakið lekur og allt liggur undir skemmdun en ákveðið er að byggja sólpall af því það er meira gaman. Staðsetningin valin norðan við húsið þar sem ekki nýtur sólar!“

Þannig skrifar Einar Kristján Haraldsson byggingatæknifræðingur í Morgunblaðið

Einar Kristján Haraldsson byggingatæknifræðingur líkir fyrirhuguðum breytingum á Grensásvegi við að eigandi húsnæðis þar sem þakið lekur og allt liggur undir skemmdum, ákveði að smíða sólpall „norðan við húsið þar sem ekki nýtur sólar!“.

Í grein sem Einar Kristján skrifar í Morgunblaðið segir hann að meirihluti borgarstjórnar sé í „ruglinu“. Ef hugmyndafræðin sé að „bæta lífgæði íbúanna“ með því að þrengja Grensásveg, þá takist illa til:

„Þetta er einfaldlega verra fyrir alla. Óskiljanlegt hvernig komist er að þessari niðurstöðu. Byrjum á gangandi vegfarendum. Nær væri að laga núverandi gangstéttir og setja gönguljós eða jafnvel brú en nemar á unglingastigi grunnskóla þurfa að þvera götuna eftir breytingar eða sameiningu grunnskóla í hverfinu. Núverandi hugmynd sem meðal annars miðar að því að snarminnka lýsingu á gangstéttum með því að setja lága staura á miðeyjur í stað núverandi ljósastaura, er ekki alveg til þess fallin að auka öryggi! Enn verra verður að moka snjó en gatan verður í þremur mismunandi hæðarplönum. Hvað varðar hjólaleið, þá er ég einn af þeim sem hjóla gjarnan í vinnuna á sumrin. Viðhald og mokstur eru með þeim hætti að hjól er ekki samgöngutæki á vetrum nema fyrir þá sem líta á hjól sem lífsstíl.“

Einar Kristján segir að helsti galli Gensásvegar fyrir hjólreiðamenn sé að leiðin er „ein hæsta leið sem hægt er að komast vestan Elliðaáa“:

„Hitt er vel ef borgarsjóður stendur svo vel að hægt sé að splæsa í hjólastíg, má þá ekki biðja um að hafa hann tvöfaldan og einungis öðrumegin götunnar, og ekki setja aðreinar, strætóstoppistöðvar og þessháttar á stíginn! Útfærsla svipuð og er á efsta hluta Laugavegarins er fín, a.m.k. mun betri en útfærsla í ætt við Borgartúnið, sem er einfaldlega stórhættuleg, full af slysagildrum. Ég vinn í Borgartúninu og ef ég hjóla þá götu þá hjóla ég á götunni. Við höfum séð mikla aukningu á slysum á hjólafólki í Reykjavík. Þreföldun á seinustu þrem árum. Mest aukning er í slysum vegna kanta, sands og lélegs viðhalds. Það er hægt að forgangsraða mun betur fyrir hjólafólk en með einföldun Grensásvegar.“

Í greininni bendir Einar Krisján á að leiða megi líkur að því að breytingarnar auki hættuna fyrir íbúa þar sem gegnumakstur um Réttarholtsveg, Fossvogsveg, Háaleitisbraut og jafnvel Hlíðar mun aukast. Þá hafi ekki verið unnið hermilíkan eða umferðarlíkan sem sýnir hvert umferðin muni leita:

„Hve mikið mun akstur til dæmis aukast um Háaleitisbraut, þar sem börn eru á leið í skólann, hve mikið mun umferð flytjast upp á Réttarholtsveg við Réttarholtsskóla? Eða eigum við bara að trúa að umferð muni ekki aukast í næstu götum, hvorki vegna þéttingar byggðar, því að fólk þarf að fara lengri leiðir, eða tafa? Eigum við ekki að taka mið af reynslunni af Hofsvallagötu? Er bara ætlast til að við hlustum á sömu rök og við gerð slysagildrunnar Borgartúns?“

Einar Kristján skrifar í lok greinarinnar:

„Einhvern veginn detta mér tvær samlíkingar helst í hug. Þar sem fasteignir borgarinnar eru helsta eign hennar þá er þetta eins og húseigandi, þakið lekur og allt liggur undir skemmdun en ákveðið er að byggja sólpall af því það er meira gaman. Staðsetningin valin norðan við húsið þar sem ekki nýtur sólar!“