Óli Björn Kárason

Stóryrðin hafa ekki verið spöruð. Formaður Samfylkingarinnar brigslar ráðherrum um landráð, aðrir stjórnarandstæðingar saka ríkisstjórnina um atlögu að þingræðinu, segja ráðherra kjarklausa og svikula.

Tilefnið er bréf sem utanríkisráðherra sendi Evrópusambandinu þar sem hann ítrekaði stefnu ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist ekki aðili að sambandinu. Sjaldan hefur eitt bréf ráðherra valdið meiri geðshræringu meðal stjórnarandstæðinga.

Bréfið gerir lítið annað en undirstrika stefnu sem öllum er ljós en um leið sýnir bréfið hversu erfitt ríkisstjórninni hefur reynst að hrinda stefnu sinni formlega í framkvæmd. Sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar ekki er gengið hreint til verks í upphafi. Allt frá því að þing kom fyrst saman eftir kosningar 2013 hefur ríkisstjórnin haft tækifæri til tryggja framgang stefnu sinnar gagnvart Evrópusambandinu með skilmerkilegum hætti.

Réttur til að slíta

Eftir því sem árin líða gera æ fleiri sér grein fyrir því hversu óhönduglega – svo ekki séu notuð sterkari orð – ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hélt á Evrópusambandsmálum. Komið var í veg fyrir að aðildarumsóknin yrði borin undir þjóðaratkvæði. Þingsályktun um aðildarviðræður var þvinguð í gegnum þingið í júlí 2009. Þingmenn VG töldu nauðsynlegt að gefa út yfirlýsingu um þeir áskildu sér „rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er“.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, taldi þingmenn því ekki meira bundna af þingsályktuninni en svo að þeir hefðu fulla heimild til að slíta viðræðum hvenær sem er og það án þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu eða leita sérstakar heimildar alþingis.

Nú bregður hins vegar svo við að þingmenn VG taka undir með öðrum stjórnarandstæðingum og Evrópusambandssinnum og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Hér skal það látið liggja á milli hluta hversu oft vinstri grænir komu eða reyndu að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta kjörtímabili, um Evrópusambandið og Icesave. Hitt er augljóst að þeir hafa fallið frá þeim rétti sem fyrrverandi formaður flokksins áskildi sér og þingmönnum VG. Því verður vart trúað að yfirlýsingin hafi aðeins verið til „heimabrúsks“ eftir að hafa brotið skýrt loforð fyrir kosningar um að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur áttað sig á þeim mistökum sem gerð voru þegar komið var í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn. Allir þingmenn Samfylkingarinnar voru samstiga og með þeim í liði var meðal annarra Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Stjórnarflokkarnir voru sannfærðir um að þeir þyrftu ekki pólitískt umboð þjóðarinnar. Í umboðsleysinu var feigðin fólgin.

Vandi ESB-sinna

Því miður hefur Árni Páll ekki áhuga á að leiðrétta það sem miður fór í sölum Alþingis í júlí 2009. Hann vill þess í stað halda vegferðinni áfram – tryggja að Ísland sé umsóknarríki svo viðræður geti hafist að nýju þegar og ef „Evrópusambandssinnuð“ ríkisstjórn kemst til valda.

Til að ná þessu fram er einfalt fyrir Árna Pál og samherja hans að leggja fram tillögu til þingsályktunar um áframhald viðræðna og/eða að boðað skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra. Vandi Evrópusambandssinna er hins vegar a.m.k. tvíþættur:

Annars vegar er ljóst að meirihluti þingsins er andvígur aðildarviðræðum og hins vegar verður slíkri tillögu að fylgja rökstudd greinargerð þar sem meðal annars er lagt til með hvaða hætti breyta eigi þeim skilyrðum sem meirihluti utanríkismálanefndar setti og Alþingi samþykkti eða eins og segir í þingsályktuninni sjálfri:

„Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Þannig verða þeir sem leggja áherslu á að Ísland verði áfram umsóknarríki í skrifborðsskúffum í Brussel að gera landsmönnum skilmerkilega grein fyrir því með hvaða hætti þeir vilja breyta þeim fyrirvörum sem meiri hluti utanríkismálanefndar mótaði þar sem segir meðal annars:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að kröfum Íslendinga um forræði yfir sjávarauðlindinni verði haldið sem og rétti Íslendinga til að stýra sókn í veiðistofna er byggist á sjálfbærri þróun, ráðgjöf sérfræðinga og veiðireynslu.“

Þá segir einnig:

„Meiri hlutinn telur einnig afar mikilvægt að Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum eins og hægt er og tryggi þannig sem best réttindi Íslands til veiða úr þeim, en deilistofnar hafa orðið sífellt mikilvægari í afkomu greinarinnar. Leita þarf leiða til að tryggja hagsmuni Íslands með beinum aðgangi að slíku samningsferli.“

Þessi skilyrði eða fyrirvarar urðu til þess að samningaviðræður við Evrópusambandið sigldu í strand þegar árið 2011. Þá neitaði Evrópusambandið að opna sjávarútvegskafla enda ljós að sambandið gæti aldrei fallist á fyrirvarana. Með réttu hefði þá átt að slíta viðræðunum með formlegum hætti. Það var ekki gert en þess í stað var þeim haldið á lífi í pólitískri öndunarvél og ódælum sjávarútvegsráðherra hent út úr ríkisstjórninni.

Það var ekki fyrr en í janúar 2013 – í aðdraganda kosninga – sem ríkisstjórnin ákvað að gera formlega hlé á viðræðunum (og það án samráðs við utanríkismálanefnd!).

Krafna um framhald viðræðna er innantóm og marklaus án þess að ESB-sinnar geri grein fyrir hvernig þeir vilja breyta fyrirvörum sem meiri hluti utanríkismálanefndar mótaði. Án breytinga eru viðræður tilgangslausar og aðeins hluti af pólitískum blekkingarleik.

Lög um viðræður

Fyrrnefnt bréf utanríkisráðherra er pólitísk yfirlýsing um stefnu ríkisstjórnarinnar en líkt og forseti Alþingis hefur bent á hefur þingsályktunin frá 2009 ekki verið felld úr gildi. Það virðist því undir nokkrum embættismönnum í Brussel komið, hvort Ísland verði flokkað áfram sem umsóknarríki eða ekki. Ákvörðun þeirra mun byggjast á öðru en hagsmunum Íslands.

Til framtíðar er nauðsynlegt að reynt verði að koma í veg fyrir að (ó)leikurinn frá því í júlí 2009 verði endurtekinn. Þess vegna er skynsamlegt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir að Alþingi samþykki lög um hugsanlegar viðræður við Evrópusambandið. Þar verði lagt bann við að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna við Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt verði:

Ertu þú fylgjandi eða andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu?

Góður meirihluti ætti að vera fyrir því að setja lög af þessu tagi. Allir þingmenn stjórnarflokkana geta staðið að baki lagasetningunni sem og þingmenn VG og jafnvel fleiri úr stjórnarandstöðunni.

Með setningu laganna getur ESB-sinnuð ríkisstjórnin ekki hafið viðræður um aðild án þess að meirihluti kjósenda veiti samþykki sitt. Auðvitað getur slík ríkisstjórn afnumið lögin, en það gera varla þeir sem nú eru háværastir í kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu enda um pólitískt feigðarflan að ræða.