Óli Björn Kárason

Í maí 2010 færði Alþingi fámennum hópi manna völd sem vart á sér fordæmi í síðari tíma sögu landsins. Fimm einstaklingum – svokallaðri dómnefnd – var í raun falið að velja dómara við íslenska dómstóla – velja alla héraðsdómara og hæstaréttardómara. Enginn þessara fimm sækir umboð til kjósenda. Dómnefndin þarf ekki að standa reikningsskil ákvarðana sinna gagnvart almenningi.

Fram að breytingum á lögum um dómstóla var dómsmálaráðherra skylt að leita umsagnar Hæstaréttar áður en ráðherrann tók ákvörðun um skipan hæstaréttardómara. Sérstök dómnefnd lagði hins vegar mat á hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara.

Hæstiréttur hafði ekki leyfi til að leggja huglægt mat á hæfi og hæfni dómaraefna nema þegar kom að tveimur atriðum. Annars vegar hvað varðar kröfur til dómara um að þeir megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að hafa. Og hins vegar gat rétturinn lagt huglægt mat á það að viðkomandi teljist hæfur í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Engin stoð var í lögunum fyrir því að sitjandi hæstaréttardómarar tækju sér vald til að gefa umsækjendunum einhvers konar einkunnir eftir því hver var talinn hæfastur og hver síður hæfur. Án lagaheimildar tók rétturinn sér þetta vald og gekk þar með gegn þeirri grunnreglu réttarríkisins að embættismenn taki sér ekki meiri völd en lög kveða á um.

Með þessu reyndu sitjandi hæstaréttardómarar að taka yfir skipunarvald ráðherra og velja „rétta“ einstaklinga inn í réttinn.

Á bak við luktar dyr

Hitt er rétt að það var fráleitt að fela dómsmálaráðherra einum það mikla vald að ákveða skipun dómara við æðsta dómstól landsins án aðhalds og nauðsynlegrar opinberrar umræðu. Það var þó illskárra en að fela fámennum hópi sérfræðinga slík völd. Ráðherra þarf a.m.k. að sæta pólitískri ábyrgð vegna gjörða sinna og ákvarðana.

Í ágúst 2013 skipaði innanríkisráðherra sérstaka nefnd til að semja reglur um skipan og starfsemi dómstóla, upptöku millidómstigs og fyrirkomulag við skipan dómara. Nefndin skilaði tillögum í liðinni viku. Nái tillögur nefndarinnar fram að ganga verður stigið mikið framfaraskref í íslensku dómskerfi. Mestu skiptir að komið verður á fót sérstöku millidómstigi – Landsrétti – og um leið verður skipulagi Hæstaréttar breytt og hlutverk réttarins sem fordæmisgefandi dómstóls styrkist.

Nefndin leggur til breytingar á því hvernig staðið er að skipan dómara. Áfram verði sérstök dómnefnd starfandi, sem fjalli um hæfni dómaraefna og skili ráðherra skriflegri umsögn og taki afstöðu til þess hvort umsækjandi sé hæfur til að hljóta embættið. Dómnefndin mun ekki hafa rétt til að raða umsækjendum í hæfnisröð. Ráðherra ber síðan að leggja tillögu um skipan í dómaraembætti fyrir Alþingi til samþykktar.

Það er langt í frá auðvelt að finna óumdeilda leið við skipan dómara og þá sérstaklega í Hæstarétt. Tillögur nefndar innanríkisráðherra eru mjög til bóta en þær ganga of skammt.

Heilbrigðari aðferð

Árið 2011 kom út bókin Síðasta vörnin eftir þann sem hér skrifar. Þar var m.a. lögð áhersla á að rjúfa bein áhrif sitjandi dómara á hverjir veljist til starfa við dómstóla:

„Með því verður annars vegar tryggt að ekki myndist eins konar kunningjasamfélag í fámennri en valdamikilli stétt dómara og hins vegar losnar fræðasamfélag lögfræðinga úr „álögum“. Þeir fræðimenn í lögfræði sem hafa hug á því að sækjast eftir skipan sem dómarar við Hæstarétt eiga mikið undir sitjandi dómurum, sem enn í dag geta haft bein áhrif á skipan nýrra dómara. Í fræðastörfum sínum, sem meðal annars hljóta að beinast að dómaframkvæmd og störfum dómstóla, taka viðkomandi fræðimenn óhjákvæmilega, meðvitað eða ómeðvitað, tillit til þessa. Aðhald fræðasamfélagsins að dómstólum er því minna en ella. Hið sama má segja um starfandi málflutningsmenn.

Mestu skiptir að skipan dómara verði fyrir opnum tjöldum. Skynsamlegt er taka upp þá reglu að ráðherra dómsmála tilnefni nýjan dómara. Sérstök dómstólanefnd Alþingis tekur tilnefninguna til efnislegrar meðferðar og heldur fundi í heyrandi hljóði. Sá sem ráðherra tilnefnir kemur fyrir nefndina og svarar spurningum og athugasemdum nefndarmanna. Nefndin tekur afstöðu og mælir annaðhvort með eða gegn skipan viðkomandi. Í störfum sínum hefur dómstólanefnd Alþingis sér til ráðgjafar sérfræðinganefnd á sviði lögfræði. Alþingi greiðir síðan atkvæði og ráðherra getur aðeins skipað [eða lagt til við forseta Íslands] nýjan dómara ef meirihluti þingsins staðfestir tilnefninguna í opinni atkvæðagreiðslu.

Með þessari aðferð skapast mikil umræða um skipan dómara og almenningur gerir sér betur grein fyrir þeim skoðunum sem væntanlegur dómari hefur á grundvallarspurningum – ekki síst þeim er varða borgaraleg réttindi einstaklinga.

Í öllu falli er skipan dómara fyrir opnum tjöldum heilbrigðari aðferð en að afhenda fámennum andlitslausum hópi einstaklinga völd til að ráða skipan þriðju grunnstoðar íslenskrar stjórnskipunar.