Íslensk utanríkisstefna og -þjónusta er á villigötum. Hvernig má annað vera? Þegar ríkisstjórn gengur þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar getur gott starfsfólk ekki annað en villst af leið. Þegar annar stjórnarflokkurinn, samþykkir eitt á landsfundum, framkvæmdir annað í ríkisstjórn og talar tungum tveim er nær útilokað að embættismenn geti sinnt starfi sínu.

Þegar litið er til utanríkisráðuneytisins undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að alla framtíðarsýn vanti við mótun utanríkisstefnu landsins. Aðeins eitt mál kemst að; innganga Íslands í Evrópusambandið. Allt annað – smátt og stórt – er lagt til hliðar eða mætir afgangi.

Ákvörðun Össurar Skarphéðinssonar að halda á málum með þessum hætti er meðvituð enda hluti af pólitík Samfylkingarinnar. Össur gerir sér grein fyrir því að eina raunhæfa leiðin til að komast undir vald Brussel er að stilla Íslendingum upp við vegg. Koma málum þannig fyrir að landsmenn telji sig eiga fáa og helst enga kosti aðra en að ganga inn í Evrópusambandið.

Nöturleg örlög

Það eru nöturleg örlög stjórnmálamanns og stjórnmálaflokks að verða svo úrkula vonar um að ná fram helsta (og eina) stefnumálinu að talið sé nauðsynlegt að stilla umbjóðendum sínum upp við vegg. Hlutverk stjórnmálamannsins er að fjölga valkostum þjóðar en ekki fækka þeim með skipulegum hætti. Í blindri ofurtrú á að lausn allra vandamála Íslands, liggi í gegnum Evrópusambandið og evruna, skilur Samfylkingin ekki þessu einföldu sannindi.

Eins máls stjórnmálaflokkur er líkt og þreyttur dráttarklár sem sér ekkert annað en vegspottann fyrir framan sig. Hann skynjar ekki umhverfi sitt og sér ekki hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Hann heldur því þreytulega áfram göngu sinni í þeirri von að komast á leiðarenda að lokum. Hann er blindur á grösuga haga til beggja hliða og veit ekki um vötnin þar sem hægt er að slökkva þorstann.

Undirritaður hefur ítrekað lagt til að íslensk stjórnvöld kanni möguleika þess að stofna fríverslunarbandalag með löndum í Norðurhöfum; Noregi, Grænlandi, Færeyjum, Kanada og Bandaríkjunum. Enginn áhugi er á slíku enda stefnir þreytti dráttarklárinn beint til Brussel.

Í grein hér í síðustu viku var einnig vakin athygli á nauðsyn þess að gerð verði úttekt á reynslunni af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES. Áhrif Evrópusambandsins á íslenska laga- og reglugerðarsetningu í gegnum EES-samninginn er mikil og bent hefur verið á að slíkt kunni í mörgum tilfellum að ganga gegn stjórnarskrá. Svo virðist sem þingmenn afgreiði frumvörp og þingsályktunartillögur vegna EES-tilskipana á færibandi og án mikillar umræðu. Upplýsingum er jafnvel haldið leyndum til að tryggja hraðferð mála í gegnum löggjafann. Alþingi hefur misst eða gefið frá sér lagasetningarvaldið að stórum hluta. En um það er lítil umræða og alls ekki að frumkvæði stjórnvalda. Sá sem stefnir að því að ganga inn í Evrópusambandið hefur lítinn sem engan áhuga á því að kanna áhrif EES á íslenskt samfélag – efnahagslega og pólitískt.

Utanríkisstefna í herkví

Eins máls stjórnmálaflokkurinn hefur sett íslenska utanríkisstefnu í herkví. Komandi alþingiskosningar snúast ekki síst um að losa utanríkisstefnuna og utanríkisráðuneytið úr umsátrinu.

Engum á að koma á óvart að skipulag utanríkisþjónustunnar sé úrelt, þegar utanríkisstefna þjóðar ratar á villigötur eða miðast fyrst og fremst við að fækka þeim kostum sem fyrir hendi er. Utanríkisráðherra sem berst fyrir einu máli hefur lítinn áhuga á því að skera upp kerfið, brjóta það upp og endurskipuleggja.

Íslendingar reka hvorki fleiri né færri en 15 sendiráð víða um heim – allt frá höfuðborg Bandaríkjanna, til Japans og Nýju-Dehlí á Indlandi. Þá eru þrjár fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og jafnmargar aðalræðisskrifstofur. Samkvæmt fjárlögum þessa árs kostar þessi útgerð íslenska skattgreiðendur 2,8 milljarða króna.

Frá aldamótaárinu 2000 hefur rekstur sendiráða kostað liðlega 38,1 milljarð króna á verðlagi ársins 2011. Þetta jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi greitt liðlega 477 þúsund krónur til sendiráða Íslands víða um heim.

Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða. Fáir gagnrýna og þeir sem spyrja spurninga eru afgreiddir sem afdalamenn eða nánasir sem skilja ekki eðli samskipta þjóða. Ef Íslendingar væru hins vegar spurðir að því hvort þeim fyndist 477 þúsund krónum vel varið í rekstur sendiráða, er nær öruggt að margir ef ekki flestir myndu svara þeirri spurningu neitandi.

Staðreyndin er sú að yfirbygging íslenska stjórnkerfisins er orðin allt of mikil og of dýr. Ekki bara í utanríkisráðuneytinu heldur í stjórnkerfinu í heild sinni. Umfangsmikill niðurskurður og endurskipulagning er því óhjákvæmileg. En utanríkisráðuneytið er hrópandi dæmi um vitleysuna. Með nútímasamgöngum og fjarskiptum er engin þörf á að reka sendiráð í öllum heimshornum. Sendiráð eru leifar gamalla tíma.

Glöggt er gests augað

Carl Hahn, stjórnarformaður Volkswagen 1982 til 1993, lagði grunninn að velgengni fyrirtækisins. Hann er mikill Evrópusinni en þrátt fyrir það skilur hann ekki af hverju Ísland sækist eftir aðild að Evrópusambandinu. »Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum,« sagði Hahn í viðtali við Sunnudagsmoggann 24. júní sl. En það er fleira sem hann skilur ekki:

“Þess utan furða ég mig á því hvernig land með 320 þúsund íbúum fer að því að reka öll þessi sendiráð, eiga alla þessa stjórnmálamenn, vera með ríkisstjórn, hvort sem hún er talin góð eða slæm, um það get ég ekki dæmt, en landið gengur, viðskiptalífið virkar og fólkið er vel menntað.”

Auðvitað er þetta rétt hjá fyrrverandi stjórnarformanni eins stærsta fyrirtækis Evrópu. Þrátt fyrir allt virkar viðskiptalífið og þjóðin er vel menntuð. En einmitt þess vegna eigum við reka skynsamlegt og lítið stjórnkerfi. Móta stefnu í utanríkismálum sem fjölgar en fækkar ekki möguleikum lands og þjóðar. Í því liggur framtíðin en ekki í sendiráðum í öllum hornum heims.