Óli Björn Kárason

„Gengið fellt um 9% í kjölfar nýs fiskverðs,“ sagði í forsíðuuppslætti Tímans 4. janúar 1983 um leið og tilkynnt var að gjaldeyrisafgreiðslur bankanna yrðu lokaðar. Gengið var fellt til að bæta fiskvinnslunni upp hækkun fiskverðs sem hafði verið ákveðin nokkrum dögum áður. Tíminn hafði það eftir Steingrími Hermannssyni, sjávarútvegsráðherra og formanni Framsóknarflokksins, að erfitt væri að bæta fiskvinnslunni „skaðann“ af verðhækkuninni „nema til komi gengisfelling eða gengissig“. Um leið var tilkynnt að niðurgreiðsla á olíu til fiskiskipa yrði aukin úr 22% í 35%. Niðurgreiðslan var fjármögnuð með hækkun á útflutningsgjöldum á sjávarafurðum.Skattgreiðslur sjávarútvegs-grein

Gengisfellingar, gengissig og það sem stjórnmálamenn kölluðu á fallegu máli gengisaðlögun voru fastur hluti af íslenskum veruleika fram að síðasta áratug liðinnar aldar. Helsta stjórntæki efnahagsmála var gengi íslensku krónunnar, sem var fellt eftir þörfum sjávarútvegsins. Með gengisfellingu var erfiðleikum í útgerð og fiskvinnslu velt yfir á almenning og önnur fyrirtæki. Óhagkvæmni sjávarútvegsins var baggi sem launafólk varð að bera. Töfralausn á öllum vanda var gengisfelling – komist var hjá því að stokka upp spilin í sjávarútvegi og taka á óreiðu í fjármálum hins opinbera.

Tæpu ári áður en Tíminn sló upp 9% gengisfellingu á forsíðu greindi Morgunblaðið frá því að gjaldeyrisdeildir bankanna hefðu verið lokaðar í átta daga og að aðeins „nauðsynlegar yfirfærslur hafa fengist, gegn því að viðkomandi hafi greitt 15% aukagjald ofan á hina raunverulegu upphæð, sem síðan verður gert upp þegar nýtt gengið verður skráð“. Þá hafði gengi ekki verið skráð í 12 daga.

1.000% hækkun verðlags

Í ágúst 1982 gaf ríkisstjórnin út bráðabirgðalög um aðgerðir í efnahagsmálum en vegna „samdráttar þjóðartekna og í þeim tilgangi að draga úr víxlverkun kaupgjalds og verðlags, skal frá 1. desember 1982 fella niður helming af þeirri verðbótahækkun launa er ella hefði orðið“. Jafnframt var gengið fellt um 13%. Þá var ákveðið að sá „gengismunur sem kann að myndast vegna sölu á útfluttum sjávarafurðum skuli lagður inn á sérstakan gengismunarsjóð“. Skyldi sjóðnum varið til að styrkja sjávarútveginn. Þá átti að draga úr innflutningi meðal annars með því „takmarka lán til vörukaupa og kaupa á vélum og tækjum“.

Ragnar Arnalds fjármálaráðherra sagði af þessu tilefni:

„Með þessum bráðabirgðalögum er byrðunum dreift vítt og breitt. Flestir verða að taka eitthvað á sig, bæði launamenn og atvinnurekstur.“

Frá ársbyrjun 1980 til loka árs 1980 hækkaði gengi dollars um liðlega 160% og á sex árum frá 1980 til 1986 féll krónan um nær 600% gagnvart dollar. Verðbólga var krónísk. Árin 1980, 1981 og 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og árið 1983 var verðbólga 84% og fór upp fyrir 100% á tímabili. Á sex árum frá 1980 til loka árs 1985 liðlega ellefufaldaðist verðlag á Íslandi – hækkaði um meira en 1.000%.

Rotið kerfiSkattgreiðslur sjávarútvegs heild-grein

Efnahagslífið og allt kerfið var að rotna. Fjármálakerfið var í heljargreipum opinberra afskipta og að stórum hluta í ríkiseigu og undir pólitískri stjórn. Sérstakur úreldingarsjóður fyrir fiskiskip var starfræktur til að hvetja útgerðarmenn til að leggja skipum enda hafði sóknarkerfi og pólitísk miðstýring leitt til offjárfestingar. Afurðalán voru veitt til að styðja við útflytjendur og olíusjóður greiddi niður olíukostnað fiskiskipa. Framkvæmdastofnun ríkisins var ætlað að hlaupa undir bagga með sérstakri fjárhagsaðstoð við útgerðarfyrirtæki, ekki síst bæjarútgerðir, sem voru á barmi gjaldþrots. Sjávarútvegurinn var þurfalingur sem haldið var við hungurmörk með millifærslum og gengisfellingum. Auðlindum hafsins var sóað. Dugnaðarforkunum haldið niðri – útsjónarsemi í útgerð og fiskvinnslu var bönnuð – allt á kostnað almennings.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að allt snérist um að viðhalda rotnu kerfi millifærslna og tryggja rekstur óhagkvæms sjávarútvegs. Nú rífast menn ekki lengur um gengisfellingar, millifærslur eða hversu mikið beinn og óbeinn opinber fjárstuðningur við veiðar og vinnslu skuli vera. Nú er tekist á um hversu miklar álögur skuli leggja á sjávarútveginn. Svo tala menn af mikilli léttúð um að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða sem hefur verið forsenda þess að sjávarútvegur hefur náð að blómstra. Þurfamaðurinn hefur komist í álnir og helsta auðlind þjóðarinnar er nýtt með arðbærum hætti.

Jafnræðisregla brotin

Frá 2009 til 2013 greiddi sjávarútvegurinn alls 79,3 milljarða króna í veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjöld. Sjávarútvegurinn greiddi hærri gjöld til ríkissjóðs en nokkur önnur atvinnugrein og er eina atvinnugreinin sem þarf að bera sérstök auðlindagjöld.

Það gengur gegn jafnræðissjónarmiðum að leggja sérstök auðlindagjöld (veiðigjöld) á útgerð en láta aðrar atvinnugreinar sem nýta „sameiginlegar auðlindir“ komast hjá greiðslu. Það er bæði rétt og skynsamlegt að ákvörðun um auðlindagjald á útgerð sé skoðuð í samhengi við auðlindagjöld fyrirtækja í öðrum atvinnurekstri. Við álagningu skatta og opinberra gjalda er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt á milli atvinnugreina. Misjöfn skattlagning brenglar efnahagslífið og sú hætta skapast að fjármunum sé beint í óarðbærari atvinnugreinar.

Það er því fráleitt að einblína á veiðigjöld án þess að ræða einnig um hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að leggja auðlindagjöld á aðrar atvinnugreinar. Þetta á jafnt við um raforkuframleiðslu sem önnur fyrirtæki sem nýta auðlindir sem eru í almannaeigu – eru ekki í einkaeigu. Þannig þarf ekki aðeins að gæta jafnræðis milli atvinnugreina heldur einnig virða eignarréttinn.Ríkisstyrkir í sjávarútvegi-grein

Skattlagning og samkeppni

Á síðasta aldarfjórðungi hafa orðið algjör umskipti í íslenskum sjávarútvegi og Ísland er eina land innan OECD sem ekki heldur úti umfangsmiklu styrkjakerfi fyrir fiskveiðar og vinnslu. Á meðan aðrar þjóðir eru með sjávarútveg á opinberu framfæri greiða íslensk fyrirtæki skatta og gjöld til ríkissjóðs.

Skattlagning fyrirtækja, sem er umfram það sem gengur og gerist í helstu samkeppnislöndum, veikir stöðu samkeppnisgreina, hvort heldur er á erlendum mörkuðum eða á heimamarkaði. Um þetta verður ekki deilt enda sannindi sem eiga að vera öllum augljós. Þetta á jafnt við um sjávarútveg sem aðrar atvinnugreinar. Hagkvæmni sjávarútvegsins sem byggir á skynsömu stjórnkerfi fiskveiða – kvótakerfi með framsali – ásamt markvissri markaðssókn, auknum gæðum og nýtingu, hefur gert ríkissjóði kleift að leggja sérstakar byrðar á sjávarútveginn sem keppir við ríkisstyrkta keppinauta.

Þessu vilja pólitískir lukkuriddarar bylta og um leið stórauka álögur á sjávarútveginn. Jafnvel fyrrverandi fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis krefst stórhækkunar á veiðigjaldi. Fyrir kjósendur á landsbyggðinni hlýtur sú krafa að vekja athygli ekki síst þegar haft er í huga að um 72% veiðigjaldsins eru greidd af fyrirtækjum á landsbyggðinni en 28% veiðigjaldsins af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.