Óli Björn Kárason

Allt ætlaði um koll að keyra þegar fréttir bárust af því að lögreglan og Landhelgisgæslan hefðu fengið vopn frá norska hernum. Látið var í veðri vaka að nú ætti að vopna almenna lögreglumenn og koma sjálfvirkum byssum fyrir í öllum bílum lögreglunnar. Vígbúnaður lögreglunnar væri hafinn. Nokkrir þingmenn höfðu hátt enda einhverjir með „sérþekkingu“ á vopnum eftir áralanga reynslu af tölvuleikjum.

Hávaðinn og moldviðrið skilaði árangri. Vopnunum var skilað og eftir stendur lögregla án nauðsynlegs búnaðar til að sinna hlutverki sínu; að tryggja öryggi borgaranna. Stundum virðist sem Íslendingum sé meinilla við að ræða mál af yfirvegun og án upphrópana. Þetta á ekki síst við um varnar- og öryggismál og uppbyggingu og skipulag löggæslunnar.

Grunnskylda ríkisins

Ein grunnskylda ríkisins er að tryggja innra og ytra öryggi borgaranna. Með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin hafa íslensk stjórnvöld varið landsmenn gagnvart ytri ógnunum. Lögreglan og Landhelgisgæslan hafa sinnt innri vörnum.

Samstarfið við Bandaríkin hefur visnað allt frá því að varnarliðið fór en á sama tíma hafa rússnesk stjórnvöld hafist handa við stórkostlega hernaðaruppbyggingu í Norðurhöfum. Undir forystu Vladimírs Pútíns forseta hafa útgjöld til hermála verið aukin verulega á sama tíma og ríki Atlantshafsbandalagsins hafa dregið saman seglin.

Stríðið í Úkraínu er ein birtingarmynd þess nýja tíma sem runninn er upp í Evrópu. Á sama tíma eflast öfgasinnaðir glæpamenn sem kenna sig við íslam og ógna ekki aðeins löndum múslima heldur vega að grunngildum vestrænnar menningar.

Í öllu þessu umróti er mótuð þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sem byggist á úreltu áhættumati frá árinu 2009. Allir sem fylgjast með fréttum átta sig á að aðstæður í heiminum hafa gjörbreyst og þjóðaröryggisstefna sem byggist á úreltu mati mun ekki ná tilgangi sínum og jafnvel gefa almenningi falska öryggiskennd.

Vakna af værum blundi

Atburðir síðustu vikna ættu að vekja okkur Íslendinga af værum blundi. Við getum ekki leyft okkur að trúa því að svipaðir atburðir og gerðust í París í janúar eða í Kaupmannahöfn um liðna helgi, geti ekki gerst hér á landi. Geta íslensku lögreglunnar til að takast á við slíka atburði er lítil – hún er „ófullnægjandi og óforsvaranleg“ svo vitnað sé til orða Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra.

Í stað þess að ræða efnislega um skipulag, þjálfun og nauðsynlegan búnað lögreglunnar hefur verið reynt að tortryggja allt og slá pólitískar keilur í leiðinni. Þetta kom berlega í ljós í umræðunum um vopnin frá norska hernum. Er nema furða þó að lögreglumenn segist langþreyttir á „því að vera alltaf að tala fyrir daufum eyrum um þessi mál“.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í viðtali við Morgunblaðið í janúar síðastliðnum:

„Þessu verður kannski best lýst með þeim orðum að það sé með hreinum ólíkindum að lögreglan þurfi sífellt að vera að réttlæta tilvist sína innan samfélagsins til þess að sjá um þessi öryggismál sem varða borgarana og landið í heild sinni.“

Og Snorri Magnússon bætti við:

„Lögreglumenn eru ekki síður þreyttir á því að þurfa sí og æ að vera að réttlæta kaup á nauðsynlegum búnaði fyrir misvitrum mönnum, sem vitna í tölvuleiki til þess að fá einhverja innsýn í mál, sem verið er að fjalla um hverju sinni.“

Standast ekki kröfur

Í yfirgripsmiklu erindi sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra hélt á fundi Varðbergs um löggæslu og öryggismál fyrr í þessum mánuði, kom fram hve mikið verk er að vinna svo unnt sé að tryggja öryggi lands og þjóðar. Eitt af því sem ráðherra telur nauðsynlegt að ræða er stofnun þjóðaröryggisdeildar líkt og erlendir sérfræðingar lögðu til árið 2006. Þá var ekki hægt að ræða málið eða ná pólitískri samstöðu vegna upphrópana og útúrsnúninga. Vonandi hafa þau voðaverk sem framin hafa verið í vinalöndum okkar síðustu ár, kennt hvernig ekki á að ræða um öryggismál þjóðar.

Í tengslum við hugsanlega stofnun þjóðaröryggisdeildar er nauðsynlegt að smíða löggjöf um varðveislu gagna sem stenst alþjóðlegar kröfur. Íslensk lögregluyfirvöld hafa ekki aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum vegna þess að regluverkið stenst ekki þær kröfur sem öryggisstofnanir annarra landa gera. Íslendingar eru því berskjaldaðri en ella fyrir ógnunum hvort heldur er vegna hugsanlegra hryðjuverka eða skipulagðrar glæpastarfsemi.

Með sama hætti verður ekki undan því vikist að móta stefnu varðandi forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Löggjafinn kemst ekki lengur hjá því að svara hvort og þá með hvaða takmörkunum slíkar heimildir verði veittar.

Enginn sem hlustaði á erindi Ólafar Nordal fer í grafgötur um að ráðherrann mun beita sé af festu í að marka nýja stefnu og löggjöf. Opinská og hreinskiptin umræða er nauðsynleg en gamalkunnur pólitískur skotgrafahernaður mun engu skila.

Allt kostar peninga

Samhliða stefnumótun og nýrri lagaumgjörð verður að tryggja að lögreglan hafi allan nauðsynlegan búnað til að sinna skyldum sínum – allt frá skotheldum vestum til skotvopna, sérútbúinna bifreiða og þjálfunar. En jafnvel þetta allt er ekki nægjanlegt.

Það er barnaskapur að telja að hægt sé að komast hjá því að fjölga lögreglumönnum og efla löggæslu verulega um allt land á sama tíma og landsmönnum fjölgar og fjöldi ferðamanna margfaldast. Samkvæmt ársskýrslu Ríkislögreglustjóra voru 678 lögreglumenn starfandi á landinu árið 2001. Þá voru Íslendingar liðlega 283 þúsund og innan við 250 þúsund ferðamenn sóttu landið heim. Árið 2013 voru fimm fleiri lögreglumenn að störfum en Íslendingar voru nær 322 þúsund og ferðamennirnir yfir 780 þúsund. Til að halda í við mannfjöldaþróunina ættu lögreglumenn að vera a.m.k. 90 fleiri en þeir eru og til að mæta ferðamannasprengjunni enn fleiri.

Ef við Íslendingar ætlumst til að lögreglan tryggi öryggi okkar verðum við að gefa henni nauðsynleg verkfæri. Slíkt kostar peninga eins og annað. Þegar haft er í huga að við Íslendingar verjum aðeins um 0,03% af landsframleiðslu til varnarmála – margfalt minna en nágrannaþjóðirnar – ætti svigrúmið að vera til staðar.

Sá er þetta ritar getur a.m.k. bent á feitar matarholur sem má nýta í grunnskyldu ríkisins; að tryggja öryggi borgaranna. Að öðrum kosti verðum við bara fámenn berskjölduð þjóð.