Óli Björn Kárason
Þeir kenna sig við víðsýni og frjálslyndi. Þeir segjast alþjóðasinnar og talsmenn frjálsra viðskipta. Þeir vilja fá viðurkenningu sem umburðarlyndir og umbótasinnaðir stjórnmálamenn. Þeir eru nútímanorrænir jafnaðarmenn.Þeir eru sannfærðir um nauðsyn þess og samkvæmt kröfum nútímans, að öllu sé pakkað inn í fallegar umbúðir orðaskrúðs og -flaums:

„Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng,“ skrifaði Árni Páll Árnason á heimasíðu sína 28. janúar 2013. Þá sóttist hann eftir og náði kjöri sem formaður Samfylkingarinnar. Árni Páll fullyrti að með þessari blöndu væri auðvelt „að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma,“ – hvorki meira né minna. Kaldhæðnari maður en sá er heldur hér um penna, gæti fært rök fyrir því að einu svörin sem formaður Samfylkingarinnar hefði fundið væru vel falin á göngum hins mikla skrifstofubákns Evrópusambandsins. Í kosningunum 2013 voru innan við 13% kjósenda á því að svörin væri að finna í orðahrærigraut sem borinn var á borð í nafni Samfylkingarinnar.

Umbúðastjórnmál

Þótt formaður Samfylkingarinnar sé upptekinn af umbúðum – safni fallegra orða og frasa – hefur það ekki komið í veg fyrir pólitíska tækifærismennsku. Oft er nauðsynlegt að breyta umbúðunum ekki síst þegar þær virðast ekki heilla almenning. Í stjórnarandstöðu er því leyfilegt að gagnrýna ríkisstjórn fyrir að leggja ekki á auðlegðarskatt, jafnvel þótt viðkomandi hafi sem stjórnarliði fyrri ríkisstjórnar tekið þátt í að ákveða með lögum, að slíkur skattur skyldi falla niður. Hentistefnumaðurinn gagnrýnir án hiks eða hiksta ríkisstjórn fyrir að fylgja lögum sem hann tók sjálfur þátt í að setja.Tækifærismennska er óaðskiljanlegur hluti af umbúðastjórnmálum. Formaður Samfylkingarinnar vildi ólmur efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2013 um veiðigjöld. Hann var sannfærður um að samþykkt yrði að taka „hraustlegt gjald“ af útgerðinni, hvað svo sem það þýddi. En sami stjórnmálamaður taldi fráleitt að bera það undir íslenska skattgreiðendur hvort þeir vildu taka að sér að greiða skuldir einkabanka. Tvisvar var reynt að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Þeir skuldabakkar hefðu orðið „hraustlegir“ svo ekki sé meira sagt.

Með sama hætti lögðust allir þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal Árni Páll Árnason, gegn því að leitað yrði eftir heimild hjá þjóðinni fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu árið 2009. Þá sýndu allar skoðanakannanir að góður meirihluti Íslendinga væri andvígur aðild. Þess vegna var komið í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til. Andstaða við þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið árið 2009 hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir að í stjórnarandstöðu krefjist samfylkingar kosninga um hvort slíta eigi viðræðum, sem hafnar voru án þess að almenningur hefði nokkuð um þær að segja og sigldu í pólitískt strand árið 2011.

Hentistefnan er í hróplegu ósamræmi við stefnuyfirlýsingu sem samþykkt var á stofnfundi Samfylkingarinnar í maí 2000 en þar sagði meðal annars:

„Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða. Einstaklingar, samtök á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt.“

Staðfesta og samkvæmni verða fórnarlömb stjórnmála sem snúast um umbúðir en ekki hugsjónir.

Gæta verður sanngirni

Auðvitað er það ekki fyllilega sanngjarnt að halda því fram að stjórnmálabarátta samfylkinga miðist eingöngu við umbúðir, frasa og orðmælgi. Til þess er of grunnt á gamla allaballanum – sósíalistanum sem tortryggir einkarekstur, setur traust sitt á ríkið og hefur meiri áhuga á að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en að baka stærri köku.Gamli allaballinn brýst því stundum í gegnum umbúðir víðsýni og frjálslyndis. Árni Páll var trúr uppruna sínum í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins, þegar hann ávarpaði ársþing ASÍ árið 2009. Þá var hann félagsmálaráðherra og ræddi um „óforskammaða kapítalista“ og „ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds“. Gamlir sósíalistar hefðu talið sig fullsæmda af slíkri ræðu líkt og þeir hljóta að hrósa öðrum þingmanni Samfylkingarinnar.

Þegar haft er í huga að pólitískar rætur Guðbjarts Hannessonar, þingmanns Samfylkingarinnar, liggja einnig í Alþýðubandalaginu, eiga hugmyndir hans um frelsi og ríkisrekstur ekki að koma á óvart. „Þetta mál er engan veginn tilbúið og þetta er mál sem bannar ríkisrekstur,“ svaraði Guðbjartur blaðamanni Viðskiptablaðsins þegar leitað var eftir áliti hans á áfengisfrumvarpi Vilhjálms Árnasonar og fleiri. Með samþykkt frumvarpsins verður áfengisverslun ríkisins lögð niður og einkaaðilar fá leyfi til að bjóða áfengi til kaups líkt og aðrar löglegar vörur í smásöluverslun. Guðbjartur bætti við:

„Það er nefnilega það að þegar menn eru að tala um aukið frelsi þá er það gert þegar er verið að banna ríkisrekstur.“

Í anda gamals allaballa heldur Guðbjartur því fram að varla sé hægt að tala um aukið frelsi þegar lagt sé til bann á aðkomu ríkisins að smásölunni á sama tíma. Það er aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur á sjónarmiðum Guðbjarts Hannessonar og forystumanns meðal ungliða Vinstri grænna sem lagði til „að á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og hún sé á vegum ríkisins“ og þar með verði engin samkeppni, „bara skýrar reglur og lýðræðisleg stjórnun“.

Vinstri grænir líkt og samfylkingar sækja í brunn Alþýðubandalagsins þótt margir hinna síðarnefndu vilji fremur láta kenna sig við Alþýðuflokkinn. Báðir gömlu flokkarnir sameinuðust árið 1985 í eindreginni andstöðu við að afnema einkarétt ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Það er skiljanlegt að þá sögu vilji menn ekki rifja upp a.m.k. ekki ótilneyddir. En eðlilega var tækifærið gripið í „norrænu velferðarstjórninni“ til að koma böndum á fjölmiðla með því að setja á fót sérstaka eftirlitsstofnun.

Þegar Árni Páll barðist fyrir formennsku í Samfylkingunni í samkeppni við Guðbjart Hannesson, sagðist hann vilja „auka vald fólks yfir eigin lífi“. Hér verður látið liggja á milli hluta hvernig Árna Páli hefur tekist til sem formanni í þeim efnum. Einn prófsteinninn verður þegar áfengisfrumvarpið kemur til lokaafgreiðslu á Alþingi. Því miður virðist sem ekki sé eins djúpt á allaballanum og margir vonuðust til.

Nútímajafnaðarmenn hafa sniðið víðsýni, frjálslyndi, umburðarlyndi og athafnafrelsi þröngan stakk. Á margan hátt var gamli allaballinn geðþekkari. Maður vissi oftast hvaðan sá gamli var að koma, hvert hann var að fara og fyrir hvað hann stóð.