Skilanefndir, slitastjórnir og æðstu stjórnendur slitabúa föllnu bankanna hafa fengið meira en 5.170 milljónir króna í þóknanir. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að meðlimir slitastjórna hafi haft að meðaltali um 5,5 til 10,6 milljónir króna á mánuði frá því að þeir tóku til starfa.

Rekstur slitabúa Glitnis, Kaupþings og LBI hf. hefur frá árinu 2009 kostað meira en 95 milljarða króna, að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu. Þó er ekki allt talið þar sem fjárhagsupplýsingar fyrir árin 2009 og 2010 eru ekki aðgengilegar hjá Kaupþingi og árið 2009 er ekki aðgengilegt hjá LBI. „Slitabúin hafa bæði neitað að veita Viðskiptablaðinu upplýsingarnar. Rekstrarkostnaður er því meiri en hér er tiltekinn,” segir Viðskitpablaðið:

„Meðlimir slitastjórna hafa að meðaltali haft þóknanir sem nema á bilinu 5,5 til 10,6 milljóna króna á mánuði frá því að þeir tóku sæti í stjórnunum. Þannig nam þóknun Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar sem dæmi rúmum 255 milljónum árið 2011 fyrir störf í þágu slitabús Glitnis.”