Óli Björn Kárason

Kvöldið fyrir kosningarnar 2009 var Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, afdráttarlaus þegar hann var spurður í kosningaþætti Ríkisútvarpsins hvort það kæmi til greina að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu strax eftir kosningar: „Nei.“

Þegar gengið var á Steingrím J. tók hann af allan vafa:

„Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstri grænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“

Niðurstaða kosninganna var stærsti kosningasigur í sögu VG – 40.581 atkvæði, eða 21,7% og 14 þingmenn. Fjölmennur þingflokkur var með skýrt loforð í farteskinu: Við munum ekki styðja umsókn Íslands að Evrópusambandinu enda höfum við „ekkert umboð til slíks“.

Innan þriggja mánaða samþykkti meirihluti þingflokksins hins vegar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Meirihlutinn gekk enn lengra og tók þátt í að fella tillögu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina.

Skollaleikur

Í nóvember 1999 var Steingrímur J. Sigfússon harður andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu, líkt og hann var daginn fyrir kjördag vorið 2009. Þá talaði hann um „skollaleik“ sem hefði verið aðdragandi þess að koma löndum inn í Evrópusambandið. Í umræðum um skýrslu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um utanríkismál var Steingrímur tæpitungulaus eins og oft áður. Hann gagnrýndi meintar gælur ráðherrans við Evrópusambandið:

„Við þekkjum þennan skollaleik sem hefur í raun verið aðdragandi þess að þeir hafa verið að vinna sínum markmiðum framgang sem vilja fara með sín lönd inn í Evrópusambandið. Hvernig gerðist þetta í tilviki Finnlands og Svíþjóðar og átti að gerast í tilviki Noregs? Það gerðist þannig að menn sögðu nákvæmlega sömu hlutina og hér. Við verðum að skoða þetta. Við verðum að vera með opinn hugann. Þetta var fyrsta skrefið. Næsta skrefið var: Við skulum gera könnun. Við skulum fara í úttekt á þessu. Það var skref númer tvö. Skref númer þrjú: Sækjum um aðild og látum reyna á það hvað okkur bjóðist, bara svona alveg hlutlaust, bara látum reyna á það. Skref númer fjögur: Í miðjum þeim könnunarviðræðum breyta þær um eðli yfir í harðsvíraðar samningaviðræður um aðild og menn koma heim með nestið og segja: „Það er bara inn, já.“ Þannig gerðist þetta. Síðan var sett upp rúlletta eða hringekja. Það var vitað að Finnar voru jákvæðastir í garð Evrópusambandsins þannig að atkvæðagreiðslan var látin byrja þar. Síðan komu Svíar og þeir rétt mörðu það og þá var meiningin að Norðmenn þyrðu ekki annað en segja já líka.“

Niðurstaða formanns VG var að menn eigi ekki „hér uppi á Íslandi að reyna að leika slíka skollaleiki“ enda liggur það í „öllum aðalatriðum allt fyrir sem liggja þarf fyrir um það hvað því er samfara að fara inn í Evrópusambandið“. Málflutningur Steingríms J. í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra var í góðu samræmi við ræðu sem hann hafði flutt nokkru áður á landsfundi VG þar sem hann skilgreindi sjálfstæði með því „að við varðveitum sjálfstæði okkar, frelsi og fullveldi til að ráða sjálf áfram fyrir okkar málum og bera sjálf ábyrgð á okkur í heiminum“.

Hitasótt og vírusar

Líkt og margir var Steingrímur á því að sitjandi utanríkisráðherra gerði sér of dælt við Evrópusambandið. „Er það þannig að menn verða svo mjúkir í hnjáliðunum eftir nokkrar ferðir til Brussel að þetta slær út eins og sjúkdómur með hitasótt,“ spurði formaður VG og velti því fyrir sér hvort það væri rétt „að íslenskir utanríkisráðherrar fái bara þennan vírus eins og sendiliðið í Brussel yfirleitt“.

En þrátt fyrir allt tal um umboðsleysi, „skollaleiki“, „rúllettu“, „vírusa“ og „hitasóttir“ var gengið frá samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Þar var tilkynnt að utanríkisráðherra muni „leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi“. Þetta var 15 dögum eftir kjördag.

Nei formanns VG lifði því tvær vikur og rúmum sólarhring betur.

Alþingi samþykkti að óska eftir aðild að Evrópusambandinu 16. júlí 2009. Formaður VG taldi nauðsynlegt að gefa út sérstaka yfirlýsingu við atkvæðagreiðslu þingsins. Þar áréttaði hann þá „grundvallarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili“. Þá lýsti Steingrímur J. því yfir að allir þingmenn VG áskildu sér „rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu“.

Siglt í strand

Um það verður vart deilt að viðræðurnar við Evrópusambandið skiluðu engu – sigldu í strand þegar árið 2011. Þá lauk svokölluðu rýniferli vegna sjávarútvegsmála og í framhaldinu áttu báðir aðilar að skila rýniskýrslum. Evrópusambandið hefur aldrei skilað slíkri skýrslu og íslensk stjórnvöld hafa ekki kynnt samningsmarkmið sín.
Skýrsla Evrópuþingsins í mars 2011 gefur innsýn í þá erfiðleika sem glímt var við í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Þar segir að nokkur ljón séu á veginum fyrir aðild Íslands: Icesave, hvalveiðar (sem eru bannaðar af ESB) og löngun Íslendinga til að verja sjávarútveg og landbúnað. Íslendingar eru hvattir til að aðlaga lög um fiskveiðar að reglum innri markaðar Evrópusambandsins, meðal annars á sviði fjárfestinga. Jafnframt er bent á að Ísland hafi farið fram á að halda „hluta“ (some control) af stjórnun fiskveiða.

Hér skal ekki öðru haldið fram en að þingmenn Evrópuþingsins hafi misskilið eindregna stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum (og þar með raunar aðildarumsóknina og forsendur hennar). Þeir hafi staðið í þeirri trú að íslensk stjórnvöld væru tilbúin, sem aðildarríki að Evrópusambandinu, að afsala sér stærstum hluta sjávarútvegsmála og færa undir sameiginlega stjórn í Brussel. Varla hefur slíkt hvarflað að nokkrum manni í sitjandi ríkisstjórn!

Ranghugmyndir sem komu fram í skýrslu Evrópuþingsins hefðu átt að kveikja á viðvörunarbjöllum hjá þeim þingmönnum VG sem lögðu blessun sína yfir aðildarumsóknina. Þegar ljóst varð að Evrópusambandið ætlaði ekki að leggja fram rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál, var ríkt tilefni til þess að formaðurinn nýtti réttinn sem hann áskildi sér og öðrum þingmönnum VG; að slíta viðræðunum „á hvaða stigi sem er“ ef þær væru „ekki að skila fullnægjandi árangri“. Um leið hefði sú krafa verið eðlileg að utanríkisráðherra og samninganefnd Íslands legðu öll spil á borðið.

Þess í stað lýsti Steingrímur J. því yfir á þingi í desember 2011 að hann væri á móti því að aðildarviðræðum væri frestað. Það þurfi að láta reyna á „eitthvað af grundvallarhagsmunum okkar í viðræðum þannig að við séum einhverju nær“. Nokkrum dögum síðar var Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bolað út úr ríkisstjórninni. Hann hafði reynst óþægur ljár í þúfu ESB-sinna.

68 mánuðir án árangurs

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti aðildarumsókn Íslands nokkrum dögum eftir afgreiðslu Alþingis í júlí 2009. „Það er diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga,“ lýsti utanríkisráðherra yfir hróðugur. Almenningi hafði verið talin trú um að brautin væri bein og breið enda höfðu frambjóðendur Samfylkingarinnar talað fjálglega í aðdraganda kosninga um að ferlið yrði stutt og hægt yrði að kjósa um aðildarsamning árið 2012 og jafnvel 2011 (árið sem viðræðurnar strönduðu). Í stað aðildarsamnings neyddist ríkisstjórnin í janúar 2013 til að tilkynna að hlé hefði verið gert á viðræðum við Evrópusambandið.
Uppskeran var rýr. Í stað hraðferðar hafði allt verið á hraða snigilsins: Aðeins hafði tekist að ljúka viðræðum um ellefu kafla í löggjöf Evrópusambandsins af 33. Viðræður höfðu hafist um 16 kafla, en þeim ekki lokið. Ekkert hafði verið rætt um sex, þ.ám. um landbúnað, sjávarútveg og frjálsa fjármagnsflutninga.

Nú eru tæpir 68 mánuðir frá því að lagt var upp í Brussel-leiðangurinn sem reyndist ferð án fyrirheits. Sumir hefðu kallað slíkan leiðangur „skollaleik“.

Með hliðsjón af stefnu sem mótuð var í upphafi, ræðum fyrrverandi formanns, skýru loforði fyrir kosningar 2009, yfirlýsingu við atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn og árangursleysi í viðræðum við Evrópusambandið, væri eðlilegt og pólitískt skynsamlegt að þingflokkur VG legði fram tillögu á Alþingi um að slíta viðræðum formlega. En líklega er þess ekki að vænta. Nei þýðir ekki alltaf nei. Fáir vita það betur en kjósendur vinstri grænna vorið 2009.