„Hér er eitt dæmi af mörgum um þjónustuna sem við „upplifum að sé verri en hún er vegna streitu“:
Ung stúlka með þroskahömlun og einhverfu fór með Ferðaþjónustu fatlaðra í skólann sinn klukkan átta að morgni. Í stað þess að keyra hana í skólann er henni ekið að Hæfingarstöðinni við Háaleitisbraut. Þar er allt lokað og læst og það er skítakuldi og niðamyrkur. Þar er stúlkunni vísað út úr bílnum og hún skilin þar eftir!”

Þannig skrifar Ásta Kristrún Ólafsdóttir, móðir fatlaðs barns sem þarf á þjónustu Strætó að halda. Tilefni skrifanna, sem birtust í Fréttablaðinu, er að forráðamenn Strætó beri sig illa undan „óvæginni og ósanngjarnri umræðu” um Ferðaþjónustu fatlaðra. Í viðtali við Fréttablaðið 17. janúar sagði sviðsstjóri Strætó meðal annars:

„Einstaka viðskiptavinir Ferðaþjónustu fatlaðra eru stressaðir og upplifa þjónustuna verri en hún raunverulega er.
Meðalbiðtíminn í síma hefur hins vegar verið rúmlega tvær mínútur. Það mæddi mest á 5. og 6. janúar en símtölum hefur fækkað síðan þá.“

Ásta Kristrún segir að „einstakir viðskiptavinir“ séu venjulegt og dagfarsprútt fólk og seinþreytt til vandræða:

„Ég er móðir fatlaðs unglings og einn af þessum „einstöku viðskiptavinum“ en Strætó fær enga samúð hjá mér og þar held ég að ég tali fyrir munn margra foreldra fatlaðra barna.”

Og síðar bætir hún við:

„Við foreldrar viljum gjarnan geta treyst því að ferðaþjónustan keyri börn okkar á rétta staði og við verðum að geta treyst því að öryggi þeirra sé ekki stefnt í voða.”