Óli Björn Kárason

Forysta verkalýðshreyfingarinnar er farin að brýna kutana fyrir komandi kjarasamninga. Slíkt er eðlilegt og hefðbundið. Með sama hætti hafa talsmenn atvinnurekenda tekið til máls og undirstrikað mikilvægi þess að kjarasamningar taki mið af efnahagslegum veruleika og að stöðugleiki verði þannig tryggður.

Hér verður ekki efast um að komandi kjarasamningar geti orðið erfiðir. Þótt kröfur verkalýðsfélaganna liggi ekki fyrir með skýrum hætti er ljóst að mikið ber á milli hugmynda þeirra um sanngjarnar launahækkanir og þess sem atvinnurekendur telja að fyrirtækin og efnahagslífið þoli á komandi árum, án þess að hér verði enn ein kollsteypan. En þrátt fyrir ágreininginn verða aðilar vinnumarkaðarins hins vegar samstiga í einu: Þeir munu gera ýmsar kröfur á ríkissjóð til að liðka fyrir samningum. Reynslan sýnir að því miður muni kröfurnar fremur miða að því að auka ýmsar millifærslur í skattkerfinu í stað þess að lækka beinar álögur á launafólk og fyrirtæki. Með því verður skattkerfið flóknara og ógagnsærra með hærri jaðarsköttum.

Líkt og áður fá sveitarfélögin að mestu frítt spil sem er merkilegt þar sem fátt hefur meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks og þá ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa, en álagningarprósenta útsvars. Fyrir þá sem hafa lægstu launin skiptir álagning útsvars verulega miklu á sama tíma og skattprósenta tekjuskattsins skiptir litlu og jafnvel engu. Útsvarið leggst þungt á láglaunafólk enda er útsvarið reiknað af öllum tekjum en tekjuskatturinn aðeins af tekjum sem eru yfir tekjuskattsmörkum. Þess vegna eru tekjur sveitarfélaganna af útsvari um þriðjungi hærri en tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti. Sveitarfélögin taka því stærri sneið af launum landsmanna en ríkissjóður.

Regla ekki undantekning

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á liðnu ári vakti sá er þetta ritar athygli á þessari staðreynd og gagnrýndi um leið að lítil sem engin umræða ætti sér stað um skattheimtu sveitarfélaga. Flestir frambjóðendur komu sér fimlega hjá því að ræða álögur á íbúana. Í grein sem birtist hér í Morgunblaðinu 7. maí sagði jafnframt:

„Það er með öllu óskiljanlegt að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar skuli sjaldan beina sjónum sínum að útsvari og annarri skatt- og gjaldheimtu sveitarfélaga. Enn merkilegra er hvað íbúar háskattasveitarfélaga virðast kæra sig kollótta, jafnvel þó að álögur hækki og skuldir sveitarfélagsins einnig. Jafnvel óánægja með veitta þjónustu kveikir illa upp efasemdir um hátt útsvar.“

Því miður er það regla en ekki undantekning að sveitarfélög leggi hámarksútsvar á íbúana. Í 56 sveitarfélögum er útsvarsprósentan í hámarki, eða 14,52%, og í Reykjanesbæ er sérstakt álag sem innanríkisráðuneytið heimilaði að leggja á vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Þar greiða launamenn alls 15,05% tekna í útsvar.

Í tíu sveitarfélögum er útsvarið undir 14% og þar af nýta einungis þrjú þeirra lágmarksútsvarið; Skorradalshreppur, Ásahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur. Þar er útsvarið 12,44%.

Það vekur óneitanlega athygli að stærsta sveitarfélagið – Reykjavíkurborg – skuli telja nauðsynlegt að leggja hámarksálögur á íbúana á sama tíma og fámennari byggðir komast af með hófsamari skattheimtu. Engu er líkara en að hagkvæmni stærðarinnar sé engin hjá borginni – þvert á móti. (En sú staðreynd kemur ekki í veg fyrir að boðað sé til fundar um sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.)

Þegar sveitarstjórnir taka ákvörðun um álagningu útsvars hafa þær veruleg áhrif á afkomu íbúanna.

Hjón með meðalheildarlaun, sem vinna bæði úti, eru með rúmlega 260 þúsund krónum hærri ráðstöfunartekjur á ári ef þau búa í sveitarfélagi sem leggur á lágmarksútsvar en ef þau ættu heimili í Reykjavík eða í öðru sveitarfélagi sem leggur á hæsta mögulega útsvar.

Við getum orðað þetta með öðrum hætti: Hjónin væru viku lengur að vinna fyrir útsvari í Reykjavík en í Skorradalshreppi, Ásahreppi eða í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ef borgarstjórn Reykjavíkur tæki upp stefnu þessara þriggja hreppa við álagningu útsvars myndu ráðstöfunartekjur borgarbúa hækka um liðlega 2%.

Munurinn fyrir hjónin á að búa í Garðabæ eða á Seltjarnarnesi og í Reykjavík er liðlega 100 þúsund krónur á ári. Ráðstöfunartekjur Garðbæinga og Seltirninga eru tæplega 1% hærri en borgarbúans.

Af þessu sést hve mikilvægt það er fyrir launafólk að sveitarstjórnir gangi fram af hófsemd við skattheimtu. Forystumenn verkalýðsfélaganna gerðu vel ef þeir tækju upp baráttu fyrir lægra útsvari.

Ekki horft á sömu tölur

Líkt og sveitarfélögin getur ríkið lagt þung lóð á vogarskálarnar skynsamlegra kjarasamninga. Fyrir millistéttina skiptir miklu að draga úr áhrifum jaðarskatta og lagfæra þau skemmdarverk sem gerð voru á tekjuskattskerfinu á síðasta kjörtímabili. En fleira skiptir máli.

Vandi þeirra sem sitja við borðið, þar sem samið er um kaup og kjör, er sá að þeir horfa ekki á sömu tölurnar – forsendur þeirra eru mismunandi. Atvinnurekandinn lítur til heildarlaunakostnaðar á sama tíma og launamaðurinn horfir fyrst og síðast á ráðstöfunartekjur. Þar á milli er himinn og haf.

Í nýlegri úttekt Hagstofunnar kemur fram að á árunum 2008 til 2012 breyttist samsetning launakostnaðar þannig að hlutfall annars launakostnaðar en launa jókst úr 18% í 20,2%. Þannig breikkaði gjáin milli launamannsins og atvinnurekandans. (Mikil hækkun staðgreiðslu á síðasta kjörtímabili – tekjuskatts og útvarps – skekkti dæmið enn meira.)

Mikil hækkun tryggingagjalds, sem leggst á öll greidd laun, skýrir öðru fremur hærra hlutfall annars launakostnaðar. Árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var komið upp í 7,79% árið 2012. (Tryggingagjaldið er nú 7,49%.)

Til framtíðar er nauðsynlegt að brúa gjána sem er á milli launamannsins og atvinnurekandans þannig að þeir geti horft á svipaðar tölur þegar samið er um kaup og kjör. Það verður annars vegar gert með því að lækka tryggingagjaldið og hins vegar að færa ráðstöfunartekjur nær greiddum launum með lækkun útsvars og tekjuskatts. Brúarsmíði af þessu tagi er sameiginlegt hagsmunamál allra aðila á vinnumarkaði.

Það eru allar forsendur fyrir því að byggja upp lífskjör hér á landi á traustum grunni á komandi árum og auka kaupmátt ráðstöfunartekna almenns launafólks verulega. Þar skiptir mestu að tryggja skynsamlegt samspil milli hærri launa, framleiðniaukningar, skatta á launafólk og þeirra gjalda sem lögð eru á fyrirtæki.

Engin ástæða er til að ætla annað en að aðilar vinnumarkaðarins leggist á eitt í þeim efnum.