Undirbúningur að framboði Jóns Gnarr til embættis forseta er kominn á fullt. Kjarninn greinir frá því að Ólafur Ragnar Grímsson hefði „ekki roð“ í borgarstjórann fyrrverandi og vitnar til einhvers sem kallað er „stjórnmálagreining“ sem ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækið Verdicta hefur unnið en Hallgrímur Óskarsson stýrir fyrirtækinu.

Frétt Kjarnans leiðir hugann að síðustu forsetakosningum. Þá var sótt að sitjandi forseta og skoðanakannanir bentu eindregið til að hann næði ekki endurkjöri. Í apríl 2012 sýndi könnun Félagsvísindastofnunar að Þóra Arnórsdóttir hefði góðan sigur á Ólafi Ragnari Grímssyni. Þóra var með stuðning 49% landsmanna en aðeins 34,8% ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar.

Niðurstaðan var hins vegar afgerandi því Ólafur Ragnar var endurkjörinn. Þóra fékk 33% atkvæða, Ari Trausti 8,6%, Herdís Þorgeirsdóttir 2,6%, Andrea Ólafsdóttir 1,8% og Hannes Bjarnason 1%.

Kjarninn vitnar í greiningu Verdicta þar sem segir:

„Ef Jón Gnarr býður sig fram verður hann sterkur valkostur. Ólafur Ragnar hefði væntanlega ekki roð við honum því hann hefur á síðasta kjörtímabili talað svo gagnstætt sumum gildum þjóðarinnar, þó að margt fólk sé enn að þakka honum fyrir framgöngu sína í Icesave-málinu.“

Því er haldið fram að Ólafur Ragnar þyki tala fyrir of  „gamaldags sjónarmiðum á kjörtímabilinu“.

Ekki er ljóst hvaða aðferðafræði beitt er við greiningu Verdicta en augljóst er að þar vegur reynsla, klókindi og skilningur sitjandi forseta á „þjóðarsálinni“ ekki þungt.

Nú liggur ekkert fyrir um hvort Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri og raunar gaf hann til kynna fyrir síðustu kosningar að yfirstandandi kjörtímabil væri hans síðasta. En það verður örugglega þrýst á forsetann að halda áfram.

Ákveði Ólafur Ragnar að taka enn einn slaginn ættu hugsanlegir mótframbjóðendur að leiða hugann að því hvernig fór í kosningunum 2012. Þá var talið að Ólafur Ragnar ætti „ekki roð“ í andstæðinga sína.