Óli Björn Kárason

Framhaldsskóli í heimabyggð er ein skynsamlegasta og ódýrasta byggðastefna sem hægt er að reka í fámennu en dreifbýlu landi. Menntun, góðar samgöngur og öflugt fjarskiptanet gera landið byggilegt og renna sameiginlega styrkari stoðum undir atvinnulífið.

Fyrir lítið byggðarlag er augljóst hve miklu það skiptir að starfræktur sé öflugur og framsækinn framhaldsskóli. Auðveldara aðgengi að menntun hækkar menntunarstig í sveitarfélaginu enda eiga fleiri möguleika á að stunda nám án þess mikla kostnaðar sem fylgir löngum fjarvistum frá heimili. En það sem skiptir ekki síður miklu eru þau áhrif sem framhaldsskóli hefur á daglegt líf íbúanna. Í stað þess að ungt fólk flytjist að heiman til að afla sér menntunar að loknum grunnskóla festir það enn betur rætur í heimabyggð sinni, auðgar samfélagið með sínum hætti og eykur fjölbreytni með nýjum tilbrigðum við mannlífið sem ungmenni kunna ein að gera.

Öflugur framsækinn framhaldsskóli er ekki aðeins leið til að hækka menntunarstig þjóðar og gefa fleirum kost á námi í samræmi við löngun og hæfileika – óháð búsetu og efnahag. Framhaldsskóli styrkir heimabyggð sína og gerir hana eftirsóknarverðari til búsetu. Um leið verður auðveldara að byggja upp aðra grunnþjónustu, ekki síst á sviði heilbrigðismála. Allt hangir þetta saman; menntun, atvinna, samgöngur, fjarskipti og blómlegar byggðir.

Kraftur frumkvöðla

Ég átti þess kost að heimsækja Fjölbrautaskóla Snæfellinga fyrir nokkrum dögum. Þar svífur yfir kraftur frumkvöðla sem brjóta sér nýjar leiðir – eldmóður einstaklinga sem vilja bjóða ungu fólki tækifæri til náms og auka þar með möguleika þess í framtíðinni.

Allt frá stofnun skólans árið 2004 hefur upplýsingatækni verið nýtt með fjölbreytilegum hætti. Kennslurými eru opin, lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð, samvinnu nemenda og kennara. Markmiðið er að gera nemandann virkari og ábyrgari í eigin námi. Fjölbrautaskólinn rekur einnig framhaldsdeild á Patreksfirði með aðferðum dreifmenntunar. Þannig er fjarskiptatækni nútímans nýtt til að auka enn frekar möguleika ungs fólks í fámennum byggðum til að afla sér menntunar.

Fyrirfram hefði mátt búast við því að stjórnvöld og fjárveitingarvaldið – Alþingi – styddi dyggilega við uppbyggingu ungrar menntastofnunar úti á landi, sem leitast við að þróa nýjar leiðir. Svo er ekki. Þvert á móti verður framlag til Fjölbrautaskóla Snæfellinga skorið niður á þessu ári. Afleiðingin er sú að skólinn þarf að fækka verulega nemendum í fjarnámi. Þessi fækkun hefur svo aftur áhrif á námsframboð og möguleika skólans til að ráða kennara til starfa.

Velja og hafna

Alþingismenn hafa tekið að sér það vandasama hlutverk að taka ákvarðanir um hvernig ráðstafa skuli sameiginlegum fjármunum borgaranna. Þeir fjármunir eru og verða alltaf takmarkaðir þótt til séu þeir stjórnmálamenn sem virðast trúa því að um nær ótakmarkaða auðlind sé að ræða. Í hugarheimi slíkra stjórnmálamanna er alltaf hægt að finna nýjar tekjulindir hjá fyrirtækjum og sæmilega efnuðum einstaklingum.

Í útópísku þjóðfélagi þorna skattabrunnar ríkisins aldrei upp en í raunheimum eru fjármunir takmarkaðir og því þurfa stjórnmálamenn að velja og hafna. Þeir verða að forgangsraða og sú forgangsröðun getur ekki byggst á öðru en gildismati þeirra.

Þegar ákveðið er að auka fjárveitingar til Ríkisútvarpsins um 182 milljónir króna við afgreiðslu fjárlaga (og þar með um 486 milljónir í tíð sitjandi ríkisstjórnar) á sama tíma og menntastofnunum víðsvegar um landið er skorinn þröngur stakkur er það yfirlýsing um forgangsröðun. Stjórnmálamenn útópíunnar vildu „forgangsraða“ enn betur með því að auka framlag til ríkisfjölmiðilsins um 712 milljónir á þessu ári.

Ég er nokkuð viss um að Snæfellingar og íbúar Vesturbyggðar eru ósammála því að láta ríkisrekinn fjölmiðil sitja í fyrirrúmi en menntun mæta afgangi. Það eru fleiri ósammála slíkri forgangsröðun – miklu fleiri.

Markmiðið er fjölbreytni

Á undanförnum áratugum höfum við Íslendingar borið gæfu til að byggja upp framhaldsskóla byggða á ólíkri hugmyndafræði. Rótgrónir skólar fylgja bekkjakerfi á meðan aðrir bjóða nemendum meiri sveigjanleika með áfangakerfi. Sumir skólar leggja áherslu á klassískar námsgreinar, allt frá stærðfræði til latínu, en aðrir sinna nýjum greinum. Nemendum stendur til boða að sækja skóla þar sem hægt er að ljúka stúdentsprófi á þremur árum. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins og Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra tókst að hleypa nýju lífi í háskóla með aukinni samkeppni og einkarekstri. Með réttu má halda því fram að með breytingunum hafi orðið vakning hér á landi á sviði menntunar, rannsókna og vísinda.

En margt bendir til að bakslag hafi komið í seglin eftir hrun fjármálakerfisins. Stundum er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að skipulega sé verið að afmá öll sérkenni – verið sé að fletja allt út í stað þess að ýta undir fjölbreytileika. Ég óttast að þetta sé meðal annars reyndin í skipulagi menntakerfisins. „Kerfið“ er að steypa alla í sama mótið.

Í stað þess að styrkja starfsemi skóla sem vilja ryðja nýjar brautir eru þeir settir í spennitreyju. Í stað þess að gefa einkaaðilum raunverulegt tækifæri til að reka framhaldsskóla eru settir steinar í götu þeirra eða þeir jafnvel knésettir.

Lausnarorðið er að stytta framhaldsnám – gera stúdentspróf að þriggja ára námi. Þótt markmiðið sé að auka skilvirkni menntakerfisins er vandséð að með því verði menntunarstig þjóðarinnar aukið. Hvorki bók- né verkþekking mun eflast. Það kallast að fara úr öskunni í eldinn.

Auðvitað er æskilegt að ungt fólk geti lokið góðu námi í framhaldsskóla á færri árum en nú. En þá þarf að huga að skólakerfinu í heild. Á þetta lagði þáverandi menntamálaráðherra áherslu í erindi á ráðstefnu SUS í febrúar 2004. „Ég tel mikilvægt að við skoðum skólagönguna sem eina heild frá leikskóla að lokum framhaldsskólans og miðum aðgerðir næstu ára við þá meginsýn að þetta sé allt ein heild,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir meðal annars.

Mestu skiptir að ungt fólk fái tækifæri til að njóta góðrar menntunar á forsendum sem henta því best. Að það geti valið á milli ólíkra skóla, með mismunandi áherslur og aðferðir, hvort heldur er í sinni heimabyggð eða í öðrum landshlutum. Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi bæjarstjóri í Garðabæ, benti á hið augljósa á umræddri ráðstefnu:

„Það skiptir langmestu máli að þarfir einstaklinganna séu hafðar að leiðarljósi en ekki þarfir kerfisins.“

Heimsóknin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sannfærði mig enn betur en áður um að „kerfið“ sé því miður við stýrið í menntakerfinu eins og svo víða annars staðar.