Óli Björn Kárason

Byrjum á nokkrum tölulegum staðreyndum um rekstur ríkisins:

Rekstrarkostnaður ríkisins (utan gjaldfærðra lífeyrisskuldbindinga) hækkaði að raunvirði um tæplega 113 þúsund milljónir króna frá árinu 2000 til 2013 eða um 58%. Hækkunin jafngildir tæplega 98% af tekjuskatti sem ríkissjóður lagði á einstaklinga árið 2013.

Gangi fjárlög yfirstandandi árs eftir mun rekstrarkostnaður ríkisins (utan lífeyrisskuldbindinga) verða yfir 140 þúsund milljónum króna hærri á föstu verðlagi en á aldamótaárinu. Þetta er hækkun um tæplega 72%.

Skuldaaukning ríkisins og hærri fjármagnskostnaður í kjölfar hruns bankanna skýrir ekki nema að litlu leyti gríðarlega hækkun á rekstrarkostnaði. Raunhækkun kostnaðar án fjármagns var 42% árið 2013 og verður 55% á þessu ári miðað við fjárlög.

Á sama tíma og rekstrarkostnaður hefur hækkað gríðarlega hefur stöðugt minna verið gjaldfært vegna lífeyrisskuldbindinga. Árið 2000 voru 52,6 þúsund milljónir gjaldfærðar á meðalverðlagi 2014. Árið 2013 var þessi fjárhæð meira en fimm sinnum lægri og hið sama á við á þessu ári. Þannig hefur vandanum verið ýtt á undan sér allt frá árinu 2009.

Árið 2013 var launakostnaður tæplega 25 þúsund milljónum króna hærri (22%) á föstu verðlagi en aldamótaárið. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs verður launakostnaðurinn nær 33 þúsund milljónum hærri en árið 2000. Þetta er hækkun um 29%.

Sértekjur stofnana ríkisins, sem skattgreiðendur standa undir, voru rúmlega 11 þúsund milljónum hærri árið 2013 en 2000.

Og skattar hækka

Árið 2013 voru skatttekjur ríkissjóðs nær 96 þúsund milljónum króna hærri að raunvirði en árið 2000.

Tryggingagjald var 71% hærra eða tæplega 30 þúsund milljónum króna. Þannig var skattheimta á vinnu (störf) aukin gríðarlega. Um mitt ár 2000 var almenna tryggingagjaldið 4,34% og atvinnutryggingagjald 0,8%. Árið 2013 var almenna tryggingagjaldið komið upp í 5,29% og atvinnutryggingagjald var 2,05%.

Tekjuskattur sem einstaklingar greiddu til ríkisins var 31 þúsund milljónum króna hærri árið 2013 en á aldamótaárinu sem er hækkun um 36% að raunvirði. Og hvernig má annað vera: Árið 2000 var skatthlutfallið 26,41% auk 11,96% meðalútsvars. Árið 2013 var tekjuskattur ríkisins í þrepum frá 22,9% í 31,8% og meðalútsvar var 14,42%. Þannig er stórum hópi landsmanna gert að greiða tæplega helming viðbótartekna í skatta eða 46,22%.

Á sama tíma og einstaklingar greiddu 31 þúsund milljónum króna meira í tekjuskatt árið 2013 en 2000 urðu þeir að greiða sveitarfélögum liðlega 54 þúsund milljónum meira að raunvirði í útsvar.

Er viðspyrna bönnuð?

Vinstri menn og aðrir talsmenn ríkisrekstrar þola illa að bent sé á ofangreindar staðreyndir. Hvað þá að spurt sé hvort almenningur – skattgreiðendur – fái betri þjónustu í samræmi við aukna skattheimtu og hærri rekstrarkostnað ríkisins. Rekstrarkostnaður ríkisins er ekki nema hluti af heildarútgjöldum sem hækkuðu um 120 þúsund milljarða á milli áranna 2000 og 2013 á mælikvarða vísitölu neysluverðs. Og ekki fóru aukin útgjöld í fjárfestingu og viðhald. Ríkissjóður dró saman seglin í þeim efnum um tæpar 12 þúsund milljónir.

Vinstrimenn og varðmenn ríkisrekstrar – kerfisins – bregðast alltaf hart við þegar einhver reynir að spyrna við fótum. Í baráttu sinni fyrir ríkisafskiptum og gegn hagræðingu í ríkisrekstri og lægri sköttum forðast þeir efnisatriði, velja fremur að fara í manninn en boltann, beita orðskrúði og jafnvel villurökum um að vegið sé að lýðræðinu.

Þegar formaður fjárlaganefndar heldur því fram að erfiðlega gangi að ná sparnaði í ríkisrekstri er engu líkara en að verið sé að ráðast á helg vé. Í samtali við Morgunblaðið 29. desember síðastliðinn hélt Vigdís Hauksdóttir því fram að „kerfið“ gripi til varna:

„Það hefur reynst torvelt að fara í niðurskurð á ýmsum sviðum vegna þess að kerfið ver sig. Við höfum reynt að skera niður en reynslan hefur verið sú að undirstofnanir ríkisins verja sig með kjafti og klóm.“

Vigdís er á því að í vörninni notaði „kerfið“ fjölmiðla óspart „til að mynda samúð með viðkomandi stofnun“. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, tók í sama streng en hann hefur lengi kallað eftir bandamönnum í baráttunni við að forgangsraða í ríkisrekstrinum.

Villuljós

Það bíður betri tíma að fjalla um hlut fjölmiðla þegar kemur að því að veita ríkinu og fjárveitingavaldinu aðhald. Því miður er það svo að meirihluti fjölmiðlunga er hallur undir ríkisrekstur, hærri ríkisútgjöld og þar með hærri skatta. Gagnrýni þeirra á meðferð almannafjár virðist einskorðast við ráðherrabíla og dagpeninga.

Verst er þegar fræðimenn taka villuljós sér í hönd og taka til máls. Þannig hélt prófessor í stjórnmálafræði því fram að fullyrðing Vigdísar Hauksdóttur um að kerfið væri að verja sig sé dæmi um umræðuna um að „opinberar stofnanir eigi að vera stjórnvöldum þægar“. Slíkt gangi „þvert á lýðræðishefð Vesturlanda og þar með líka Íslands,“ skrifaði prófessorinn á fésbókarsíðu sína.

Mér er það hulin ráðgáta hvernig prófessor í stjórnmálafræði getur komist að þeirri niðurstöðu að kjörnir fulltrúar á Alþingi, sem fara með fjárveitingarvaldið, gangi gegn „lýðræðishefð“ með því að reyna að koma böndum á útgjöld „kerfisins“. Samkvæmt röksemd fræðimannsins eru það stofnanir og stjórnendur þeirra – kerfið sjálft – sem taka eiga ákvarðanir um umsvif, rekstur og kostnað en ekki kjörnir fulltrúar.

Undir villuljósi prófessorsins er kerfið heilagt. Kjörnir fulltrúar á Alþingi skulu – líklega í samræmi við „lýðræðishefð“ – fyrst og síðast þjóna hagsmunum kerfisins sem andlitslausir kerfiskarlar skilgreina á hverjum tíma. Skoðanabræður prófessorsins saka þá sem ekki gangast undir vilja kerfisins um óbilgjarna öfgamennsku.

Kerfið lifir því ágætu lífi eins og sést á hækkun rekstrarkostnaðar á síðustu 14 árum. Kerfinu tókst að éta upp allan tekjuskatt sem einstaklingar greiða í raunhækkun kostnaðar. Talsmenn ríkisrekstrar eru ánægðir. Allir hinir eiga bara að halda áfram að borga og hætta öllu öfgakenndu nöldri.