Óli Björn Kárason

Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að gera sérstaka ívilnunarsamninga við fyrirtæki er það ekki merki um jákvætt viðhorf til uppbyggingar eða skynsamlega langtímastefnu í atvinnumálum. Ívilnunarsamningar, hvort heldur er um skattamál eða aðra þætti sem marka umgjörð atvinnulífsins, eru birtingarmynd úreltrar hugmyndafræði fyrirgreiðslu og forréttinda sem eru óskilgetin afkvæmi klíkukapítalismans.

Árið 2008 var tekjuskattur fyrirtækja 15% en vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna hækkaði skattinn strax í 18% árið 2009. Ekki þótti það nægilega mikil hækkun því árið 2010 var skatturinn hækkaður í 20%. Þetta var í takt við aðrar umfangsmiklar skattahækkanir jafnt á atvinnulífið sem á óbreytta launamenn.

Undir lok maí 2013 tók ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við völdum. Í september 2014 undirrituðu stjórnvöld ívilnunarsamning við fyrirtæki sem hyggst reisa verksmiðju til að framleiða sólarkísil. Í tíu ár mun fyrirtækið njóta skattalegra sérréttinda. Tekjuskattur verður 15% (það sama og hann var fyrir fall fjármálakerfisins), veittur verður 50% afsláttur af tryggingagjöldum og 50% afsláttur af fasteignasköttum. Fleiri samkynja forréttindasamningar hafa verið gerðir á undanförnum árum og ekki skal efast um góðan vilja sem að baki þeim liggur; að örva fjárfestingu og atvinnusköpun.

Merki um sjúkt ástand

Með því að undirrita skattalega ívilnunarsamninga eru stjórnvöld í raun að viðurkenna að sú umgjörð sem íslenskt skattkerfi sníður atvinnulífinu sé óhagstætt. Kerfið örvi ekki frumkvæði einstaklinganna og hamli fjárfestingum og dragi þar með þróttinn úr efnahagslífinu almennt. Forréttindasamningar væru óþarfir ef skattaleg umgjörð og annað regluverk væri hagfellt og með jákvæðum hvötum til efnahagslegra framkvæmda.

Ívilnunarsamningar við útvalin fyrirtæki eru því merki um sjúkt ástand. Fyrir utan óréttlætið sem er innbyggt í forréttindasamninga opinberra aðila við fáeina útvalda er sú hætta fyrir hendi að stjórnmálamenn komi sér undan því að skera upp kerfi sem þeir telja þó sjálfir nauðsynlegt að gera göt á til að ný fyrirtæki taki til starfa.

Hugmyndafræðinni sem liggur að baki ívilnunarsamningum – forréttindum – er hægt að lýsa ágætlega með því að fara í smiðju Ronalds Reagans, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem sagði:

„Ef það hreyfist, skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“

Á Íslandi starfa þúsundir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Á hverjum einasta degi velta eigendur þessara fyrirtækja fyrir sér hvort og þá hvernig skynsamlegt kunni að vera að ráðast í fjárfestingar; í nýjum tækjum, nýjum tölvum og öðrum búnaði, í húsnæði og ekki síst að ráða nýja starfsmenn. Ekkert þessara fyrirtækja nýtur forréttinda. Öll þurfa þau að sætta sig það skattalega umhverfi sem vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms bjó til. Mörg þeirra eru enn að berjast í ójafnri samkeppni við fyrirtækjasamsteypur sem lögðu undir sig markaðinn. Litli atvinnurekandinn sem áður glímdi við stórfyrirtæki, sem virtust hafa ótakmarkaðan aðgang að láns- og áhættufé, glímir við sömu aðila, sem hafa fengið milljarða afskrifaða og nýtt áhættufé.

Ágæt forskrift

Ef einhverjir eiga rétt á skattalegum ívilnunarsamningum eru það sjálfstæðir atvinnurekendur sem hafa byggt upp glæsileg fyrirtæki, staðið við sínar skuldbindingar og veita tugum þúsunda atvinnu. Það eru litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru burðarásar í íslensku efnahagslífi. Þess vegna er það eitt helsta verkefni ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að skera upp skattkerfið, lækka tekjuskatta á fyrirtæki og launafólk, lækka tryggingagjald, tolla og óbeina skatta samhliða því að einfalda allt regluverk. Fyrstu skrefin hafa verið tekin en það þarf að ganga rösklegar fram.

Ívilnunarsamningar eiga að tilheyra fortíðinni, líkt og áætlunarbúskapur og forræðishyggja teknókrata sem telja að hægt sé að skipuleggja efnahagslífið og umsvif atvinnulífsins á teikniborðum stjórnarráðsins. En hitt er svo annað að sérréttindasamningurinn sem undirritaður var í september síðastliðnum er ágæt forskrift að þeim breytingum sem á að gera á skattaumhverfi atvinnulífsins: 15% tekjuskattur og 50% lækkun tryggingagjalds.

Á kostnað fjöldans

Þannig getur ríkisstjórnin rutt brautina til aukinnar hagsældar með almennum aðgerðum. Snjöllum og útsjónarsömum einstaklingum verður gert kleift að njóta ávaxtanna án sérréttinda sem aðrir greiða fyrir beint eða óbeint. Í stað klíkukapítalisma – sem sameinar allt hið versta úr áætlunarbúskap sósíalismans og markaðshyggju kapítalismans – verður til lifandi og heilbrigt atvinnulíf undir aga samkeppni og einfalds gagnsæs reglu- og skattaverks.

Markaðurinn verður dómarinn þar sem allir eru jafnir fyrir lögum og reglum. Engum er tryggð velgengni en allir hafa möguleika á að leita hennar á grunni hæfileika og útsjónarsemi.

Hægrimenn hafa lengi haldið því fram að þeir vilji móta þjóðfélag þar sem hin sanna dyggð mannanna er hæfileikinn til þess að geta lifað saman sem jafningjar, þannig að hver einstaklingur krefst eigi annars fyrir sjálfan sig en þess, sem hann veitir öðrum af frjálsum vilja, svo vitnað sé í John Stuart Mill.

Skattkerfi og allt regluverk hins opinbera yrði heilbrigðara og réttlátara ef unnið yrði eftir þessari forskrift. Við Íslendingar eigum a.m.k. að vita af biturri reynslu að sérréttindi fárra eru alltaf á kostnað fjöldans.