Óli Björn Kárason
Síðustu daga hafa eftirfarandi spurningar verið að vefjast fyrir mér:
Hvenær var það ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn tæki að sér að verja ríkisfyrirtæki á samkeppnismarkaði sérstaklega? Hvenær var tekin ákvörðun um að styrkja stöðu ríkisfyrirtækis á sama tíma og dreginn er máttur úr einkafyrirtækjum? Er það orðið hlutverk sjálfstæðismanna í ríkisstjórn að auka enn frekar á ójafnræðið og óréttlætið sem ríkir á innlendum fjölmiðlamarkaði?Einu svörin við þessum spurningum er að finna í samþykktum landsfunda Sjálfstæðisflokksins en þar segir meðal annars að flokkurinn muni snúa „Íslandi af þeirri braut sem núverandi stjórn (ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, innsk. höf.) hefur markað og einkennist af tortryggni í garð frjáls framtaks og atvinnulífsins í heild“. Ítrekað er að grundvallarstefnan sé „að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum“.

Orð hafa litla þýðingu ef …

Eyjólfur Konráð Jónsson (Eykon) skilgreindi stefnu Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum ágætlega í ræðu árið 1977. Þá líkt og nú sátu sjálfstæðismenn í ríkisstjórn með Framsóknarflokki:

„Inntakið er meira frjálsræði, minni ríkisafskipti, öflugra einkaframtak, minni ríkisumsvif.“

Eykon taldi ástæðu til að bæta við:

„En þótt það sé rétt, að orð séu til alls fyrst, þá er hitt líka rétt, að þau hafa litla þýðingu, ef á framkvæmdunum stendur. Það hlýtur þess vegna að vera hlutverk okkar, sem til trúnaðarstarfa höfum valist fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það fólk sem hann fyllir, að leitast við að mjaka stefnumálum áleiðis. Okkur er kannski ekki hægt að draga til ábyrgðar, þótt okkur mistakist, en það er hægt að gera okkur ábyrg fyrir því að hafa ekki gert það, sem í okkar valdi stendur til að ná árangri.“

Ádrepa Eykons varð mér hugleikinn þegar greint var frá því að ákveðið hefði verið að framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins skyldu hækka um 182 milljónir króna á komandi ári frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Á sama tíma og tekjur ríkismiðilsins eru auknar er höggvið í knérunn einkarekinna fjölmiðla með því að hækka virðisaukaskatt á áskrifendur.

Dýpra í vasa skattgreiðenda

Ætlunin er að framlag skattgreiðenda til ríkisfjölmiðilsins verði um 485 milljónum króna hærra á komandi ári en á því síðasta. Þessi fjárhæð er litlu lægri en samanlagðar fjárveitingar til sýslumannsembætta á Suðurlandi, Suðurnesjum og á Vesturlandi. (Þó má ætla að lögreglan sinni öryggishlutverki sínu betur en ríkisfjölmiðillinn hefur gert undanfarin ár.)Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarp komandi árs er dregin fram sú staðreynd að rekstrarvandi Ríkisútvarpsins er krónískur. Eins og svo oft áður er farið dýpra í vasa skattgreiðenda til að greiða fyrir það sem miður fer. Í stað þess að takast á við vandann og leysa hann til frambúðar er gamalkunnug leiðin valin: Að setja meiri fjármuni á bálið.

Alls hefur ríkissjóður afskrifað skuldir ríkisfjölmiðilsins fyrir liðlega tvö þúsund milljónir króna frá árinu 2006. Afskriftirnar áttu sér stað á fjórum árum frá 2006 til 2009. Auk þess fékk ríkismiðillinn 570 milljóna króna aukafjárveitingu árið 2009 (um 716 milljónir á verðlagi fjárlaga næsta árs) enda eigið fé uppurið.

Það er því með engum réttmætum rökum hægt að halda því fram að gengið hafi verið nærri rekstri Ríkisútvarpsins frá því að opinbert hlutafélag tók yfir reksturinn. Þvert á móti. Fáar ef nokkrar opinberar stofnanir eða ríkisfyrirtæki hafa notið meiri velvilja og góðmennsku fjárveitingavaldsins en Ríkisútvarpið. Ekkert ríkisfyrirtæki í samkeppnisrekstri hefur notið þess að skattgreiðendur hlaupi ítrekað undir bagga. Um leið er samkeppnisstaða á fjölmiðlamarkaði skekkt með alvarlegum hætti.

Leysir lítinn vanda

Eitt er víst: Aukin framlög til Ríkisútvarpsins á komandi ári leysa lítinn vanda. Erfiðleikarnar eru miklu djúpstæðari. Á síðasta rekstrarári, sem lauk í ágúst síðastliðnum, tapaði félagið nær 340 milljónum króna, rekstrarkostnaður hækkaði um rúmlega 400 milljónir á milli ára og handbært fé frá rekstri var neikvætt um 174 milljónir. En það er ekki mikill taprekstur á síðasta rekstrarári sem veldur mestum áhyggjum. Eigna- og skuldastaða fyrirtækisins er með þeim hætti að veruleg hætta er á að Ríkisútvarpið eigi í raun ekki fyrir skuldum.Frá 1. apríl 2007, þegar opinbert hlutafélag tók til starfa, hefur eigið fé Ríkisútvarpsins rýrnað um 497 milljónir króna, þrátt fyrir áðurnefndar afskriftir skulda. Þessu til viðbótar hefur bókfært verð óefnislegra eigna (sýningarréttur að mestu) hækkað um 1.056 milljónir. Í lok ágúst voru óefnislegar eignir bókfærðar fyrir 1.607 milljónir króna eða rúmlega fjórfalt eigið fé. Til þess að hægt sé að réttlæta slíka eiginfærslu verður að liggja fyrir að eignirnar muni skila tekjum sem nema eignfærslunni að viðbættum breytilegum kostnaði s.s. útsendingarkostnaði. Að öðrum kosti ber að afskrifa eignirnar. Án óefnislegra eigna er eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins neikvæð um 1.226 milljónir króna. Hvert raunverulegt verðmæti eignanna reynist ræður því hvort eigið fé er ofmetið eða ekki.

Saga til næsta bæjar

Einkaaðilum er ætlað að keppa við ríkisfjölmiðilinn jafnt á markaði auglýsinga sem og um hylli áhorfenda og hlustenda. Það hefur lengi verið ójafnt gefið og ætlun meirihluta Alþingis er að auka óréttlætið enn frekar á komandi ári. Það keppir enginn við ríkisfyrirtæki sem fær stærsta hluta tekna með lögþvinguðum hætti og fær síðan reglulega afskrifaðar skuldir og aukafjárveitingar. En þannig vilja talsmenn ríkisfjölmiðlunar hafa hlutina og þeir virðast eiga öfluga samherja jafnt innan ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu.„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla,“ segir meðal annars í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Eykon sagði að orð væru til alls fyrst en benti á að þau hefðu litla þýðingu ef þeim væri ekki hrint í framkvæmd þegar tækifæri gefst. Mínum gamla vini hefði hins vegar aldrei komið til hugar að gengið yrði þvert á orðin og gefin fyrirheit.

Í liðinni viku benti ég á að ríkisstjórnin gæti ákveðið að „þvinga okkur öll til að greiða meira“ til Ríkisútvarpsins og bætti síðan við: „Og það yrði saga til næsta bæjar.“

Þessi orð voru skrifuð í þeirri bjargföstu trú að brýning Eykons um að gera það sem í „okkar valdi stendur til að ná árangri“ væri ofarlega í huga allra sem hafa aðstöðu til vinna að framgangi stefnumála Sjálfstæðisflokksins.

Sagan til næsta bæjar reyndist því miður eiga við rök að styðjast.