Hafi ég efast um að fréttastofa ríkisins við Efstaleiti sé neikvæð í garð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hefur sá efi horfið líkt og dögg fyrir sólu síðustu vikur og mánuði. Hið sama á við um flesta aðra fjölmiðla, með fáum undantekningum, hvort heldur ljósvakamiðla, net- eða prentmiðla.RÚV-áhrofréttgraf

Það er gömul saga og ný að vinstrisinnað fólk laðast fremur að fjölmiðlum en þeir sem eru til hægri. Þessi staðreynd endurspeglast í efnisvali og efnistökum fjölmiðla, jafnvel þótt reynt sé að sýna sanngirni og gæta óhlutdrægni.

Flestir áhrifamestu álitsgjafar, snjöllustu eða afkastamestu pennar landsins eru leynt og ljóst andstæðingar ríkisstjórnarflokkanna. Í stuttum netspistli sumarið 2011 hélt undirritaður því fram að það andaði köldu frá fréttastofu ríkisins í garð sjálfstæðismanna. Svo virðist sem talsmenn Framsóknarflokksins eigi heldur ekki upp á pallborðið hjá þeim sem ráða húsum í Efstaleiti. Engu er líkara en að fréttastofa Stöðvar 2 hafi ákveðið að fylgja fordæmi ríkisfjölmiðilsins.

Þjónar litlum tilgangi

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna geta látið pólitíska slagsíðu fjölmiðla fara í taugarnar á sér, en það þjónar litlum tilgangi og mun engu breyta. Í sjálfu sér skiptir það litlu hvort staðhæfingar um hlutdrægni fjölmiðla eru réttar eða rangar. Það fer of mikil orka í að hafa áhyggjur af hugsanlegu andstreymi – orka sem væri betur nýtt í að taka þátt í opinberri umræðu í ræðu og riti.

Telji ráðherrar eða þingmenn að hallað sé á þá í umfjöllum fjölmiðla eiga þeir að taka til máls og benda á hið rétta. Aldrei hefur verið auðveldara, einfaldara og ódýrara að koma sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri við almenning. Möguleikarnir sem eru til staðar eru hins vegar illa nýttir. Á meðan þeir möguleikar sem tæknin bíður upp á eru ekki virkjaðir er borin von til þess að umfjöllun fjölmiðla breytist.

Í stað þess að eyða tíma og orku í að hafa áhyggjur af mótlæti gætu ríkisstjórnarflokkarnir undirbúið og plægt jarðveginn fyrir fjölbreyttari flóru fjölmiðla. Það er fjölbreytni sem tryggir best að réttar upplýsingar séu dregnar fram og að ólík sjónarmið fái að heyrast. Þess vegna ætti það að vera sérstakt áhugamál stjórnarliða að ryðja braut fleiri einkaaðila á sviði fjölmiðlunar; prent- og netmiðlunar en ekki síst ljósvaka. Fyrsta skrefið gæti verið að hrinda í framkvæmd samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári þar sem segir meðal annars:

„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“

Grefur sína eigin gröf

Hægrimenn og stuðningsmenn ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins geta – a.m.k. á meðan þeir sýna ekki meiri dugnað í opinberri umræðu – huggað sig við að fréttastofa ríkisins er að grafa sína eigin gröf.

Áhrifa- og dagskrárgerðarvalið sem hefur verið í höndum örfárra einstaklinga í Efstaleiti er því hægt og bítandi að minnka.

Í Efstaleiti hafa menn sérstaka skilgreiningu á því hvað felst í að reka útvarp og sjónvarp í almannaþágu. Svo virðist sem æ sjaldnar sé tilgangur sjónvarpsmanna að fá viðmælendur til sín til að leiða hið rétta fram, upplýsa og fræða áhorfendur. Þetta kom ágætlega í ljós daginn sem skuldaleiðréttingin svokallaða var kynnt. Þá var forsætisráðherra fenginn í Kastljós. Þar sat spyrillinn vígbúinn – tilbúinn í hanaslag við ráðherrann. Markmiðið var ekki að fræða almenning um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum, leita skýringa á ákvörðunum (sem voru og eru umdeildar) og láta forsætisráðherra svara. Markmiðið var miklu fremur að finna höggstað á viðmælandanum, reyna að koma honum í bobba eða óþægileg vandræði.

Skattgreiðendur þurfa að greiða þúsundir milljóna á hverju ári hvort sem þeim líkar betur eða verr og óháð því hvort þeir eru sammála skilgreiningu þeirra sem raunverulega ráða í Efstaleiti á hlutverki Ríkisútvarpsins. Enginn getur lýst óánægju sinni með því að segja upp áskriftinni. Í skjóli þvingunar fer valdastéttin sínu fram.

Í frjálsu falli

Það eina sem almenningur getur gert er að hætta að horfa eða hlusta á það sem ríkismiðillinn heldur að landsmönnum. Fjölmiðlamælingar Capacent benda til að æ fleiri velji þann kost að slökkva á tækjunum eða stilla á aðra miðla.

Þannig hefur áhorf á fréttir Ríkissjónvarpsins hrapað á undanförnum árum – verið í frjálsu falli. Sé miðað við sex vikna meðaltal (vikur 41 til 46) hefur áhorf á fréttir dregist saman um 27,5% frá 2009. Nú er svo komið að rétt liðlega 18% horfa á fréttirnar. Á sama tíma hefur þeim sem setjast niður til að horfa á Kastljós fækkað um 16,4%. Til að standa undir fréttastofu ríkisins og Kastljóss leggja skattgreiðendur fram upp undir 900 milljónir króna á ári og fæstir þeirra horfa. Fjárframlögin til ríkismiðilsins lækka ekki í takt við fækkun áhorfenda.

Hvorki fréttir né Kastljós komast á lista yfir 10 vinsælustu þætti Ríkissjónvarpsins. Hraðfréttir eru mun vinsælli og meira að segja Andri á Færeyjaflandri hefur gott forskot á fréttir og Kastljós ásamt átta öðrum þáttum.

Auðvitað geta hægrimenn haldið áfram að sitja með hendur í skauti og látið aðra um dagskrárvaldið sem og mótun þjóðmálaumræðunnar. Þá hafa þeir engan rétt til að kvarta yfir hugsanlegri slagsíðu eða hlutdrægni – ekki frekar en þeir geta amast yfir dugmiklum og snjöllum vinstrisinnuðum pennum og álitsgjöfum.

En svo getur ríkisstjórnin ákveðið að reyna að vinna upp minnkandi áhorf á ríkismiðilinn með því að þvinga okkur öll til að greiða meira. Og það yrði saga til næsta bæjar.