Óli Björn Kárason

Það skal viðurkennt að ég var andvígur því að færa niður íbúðalán með þeim hætti sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sömdu um þegar ríkisstjórn flokkanna tók við völdum í maí á síðasta ári. Fyrir andstöðu minni voru margar ástæður, sem ekki verða raktar hér. Ég taldi skynsamlegra og sanngjarnara að beita skattalegum aðgerðum, jafnt með lækkun tekjuskatts og skattleysi séreignarsparnaðar, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í aðdraganda kosninga.

En þótt aðferðafræðin við að rétta við hlut heimilanna, sem ríkisstjórnin hefur nú hrint í framkvæmd, sé ekki nema að hluta eftir forskrift Sjálfstæðisflokksins, er niðurstaðan mun betri en undirritaður þorði að vona.

Skuldaaðgerðirnar sem koma til framkvæmda á næstu þremur árum nema alls 150 milljörðum króna en þar af eru 70 milljarðar vegna séreignarsparnaðar, en 80 milljarðar eru fjármagnaðir af ríkissjóði með sérstakri skattlagningu á fjármálafyrirtæki og þrotabú banka.

Greiðslubyrði allra sem njóta aðgerðanna lækkar strax og eiginfjárstaðan stórbatnar. Skuldahlutfall heimilanna lækkar um 11% og verður 94% af vergri landsframleiðslu. Heildargreiðslur fasteignaveðlána einstaklings/hjóna geta lækkað um margar milljónir yfir lánstímann – og jafnvel orðið ígildi góðrar tveggja herbergja íbúðar á höfuðborgarsvæðinu.

Forvitnileg kokhreysti

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar eru forvitnileg, ekki síst í ljósi sögunnar. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, varð sjálfviljugur varadekk vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Hann bendir réttilega á að hægt hefði verið að nota fjármunina í annað; lækkun skulda ríkissjóðs, í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða vegasamgöngur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir í samtali við Morgunblaðið að forgangsröðunin sé röng. Að hennar mati sé brýnna að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þetta segir fyrrverandi ráðherra í vinstri stjórninni sem ítrekað reyndi að koma skuldum einkabanka yfir á ríkissjóð og þar með á herðar skattgreiðenda!

„Þessi niðurstaða er afskaplega ósanngjörn og nýtist best þeim sem hafa mest á milli handanna,“ svarar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu. Í samtali við Fréttablaðið gerir formaðurinn enn betur:

„Við [Samfylkingin] lögðum til aðgerðir til að mæta þeim sem lentu í raunverulegu misgengi og keyptu á versta tíma fyrir hrun. Það fólk er núna skilið eftir í sínum skuldavanda en miklum peningum varið til að lækka skuldir hjá fólki sem er ekki í neinum skuldavanda og þekkir hann bara af afspurn.“

Það þarf nokkra kokhreysti til að tala með þeim hætti sem Katrín Jakobsdóttir en þó sérstaklega Árni Páll Árnason gera. Bæði sátu þau sem ráðherrar í ríkisstjórn sem aldrei sá til sólar í viðleitni sinni við að rétta við efnahag skuldugra heimila. Í stað markvissra almennra lausna greip ríkisstjórnin til sértækra aðgerða með endalausum flækjum, pappírsfargani og biðröðum. Skuldaaðgerðir skiluðu ekki því sem lofað var en dómstólar tóku verkefnið að mestu að sér og dæmdu gengislán ólögleg. Svokölluð 110%-leið ríkisstjórnarinnar reyndist torsótt og nýttist fremur þeim skulduðu mest og fæstir þeirra voru í hópi láglaunafólks.

Athyglisverður samanburður

Þeir 1.250 skuldarar sem fengu mesta niðurfellingu samkvæmt 110%-leið vinstri stjórnarinnar fengu að meðaltali 20,9 milljónir króna í eftirgjöf eða alls liðlega 26 þúsund milljónir króna. Með þetta í huga er því athyglisvert að bera saman aðferðafræði sem beitt var af þeim sem kenna sig við jafnaðarmennsku og skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru á mánudag:

  • 75% af fjárhæðinni renna til einstaklinga með 7 milljónir króna eða minna í árstekjur og til hjóna sem hafa minna en 16 milljónir í tekjur á ári.
  • Einstaklingur með 330 þúsund krónur í mánaðartekjur er tíðasta gildið í leiðréttingunni en meðaltal heildarlauna er um 520 þúsund krónur.
  • Einstaklingar með heildartekjur undir lágmarkslaunum fá um 22% af fjárhæðinni.
  • Fólk sem var yngra en 50 ára árið 2009 fær 68% fjárhæðarinnar.
  • Stærsti hluti leiðréttingarinnar fer til einstaklinga sem skulda á bilinu 10-20 milljónir og hjóna sem skulda 20-30 milljónir króna.
  • 55% fjárhæðarinnar renna til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir í eigin fé og hjóna sem eiga minna en 13 milljónir króna.
  • Neikvæðri eiginfjárstöðu 4.000 aðila verður snúið við og verður jákvæð. Eiginfjárstaða allra styrkist.

Þeir sem skulda íbúðalán geta náð að lækka höfuðstól láns um allt að 20% og lækka greiðslubyrði um ríflega 15%. Samkvæmt úttekt ráðgjafafyrirtækisins Analytica munu afborganir og vextir heimilanna lækka um 22% til ársins 2017. Á sama tíma aukast ráðstöfunartekjur þeirra sem nýta sér úrræðin sem eru í boði um 17%. Analytica telur að ráðstöfunartekjur aukist árlega um 130-200 þúsund árin 2015-2017.

Að þessu leyti virka skuldaaðgerðirnar líkt og skattalækkanir. Launamenn fá að halda meiru eftir til frjálsrar ráðstöfunar og efnahagslífið allt nýtur góðs af.

Náist að tryggja stöðugleikann til framtíðar samhliða aðhaldssemi í fjármálum hins opinbera og frekari lækkun skatta, mun hagur allra batna verulega. Í fyrsta skipti frá því að núverandi verðbólgumarkmið var tekið upp með nýjum lögum um Seðlabanka Íslands hefur verðbólga haldist innan markmiða þrjá ársfjórðunga í röð. Allt frá febrúar síðastliðnum hefur verðbólga verið undir 2,5%.

Þessi einföldu sannindi náði ríkisstjórn „norrænnar velferðar“ aldrei að skilja. Samhengið sem er á milli fjárhagsstöðu heimilanna og velgengni atvinnulífsins var líkt og lokuð bók. Þess vegna voru skattar og gjöld hækkuð um leið og lagt var til atlögu við mikilvægar atvinnugreinar. Aðgerðir í skuldamálum voru étnar upp ekki síst með hækkun tekjuskatts einstaklinga. Árið 2008 var staðgreiðsla 35,7% en hækkaði í 37,32% til 46,22%. Allir urðu að greiða hærri skatta, jafnt þeir sem hafa lægstu launin sem þeir sem eru hærra launaðir. Ráðstöfunartekjur sem höfðu lækkað vegna minni vinnu og lægri launa voru lækkaðar enn frekar með auknum álögum. Þannig var þrengt að heimilum og þeim gert erfiðara fyrir að standa undir skuldum.

Stærri verkefni bíða

Menn geta deilt um hugmyndafræðina sem býr að baki aðgerðum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í skuldamálum. Eitt er þó ljóst: Þær eru markvissari en nokkuð annað sem gert hefur verið til að styrkja eignastöðu heimilanna frá hruni fjármálakerfisins. En þar með er björninn ekki unninn.

Ef ekki tekst að byggja upp góðan hagvöxt og auka kaupmátt heimilanna munu skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar litlu skipta. Framundan er því stórt verkefni við að leiðrétta annan og jafnvel meiri forsendubrest en hækkun verðtryggðra skulda.

Lífskjör almennings – ekki síst þeirra sem lægst hafa launin – versnuðu verulega í kjölfar falls viðskiptabankanna vegna gríðarlegrar hækkunar skatta, minni atvinnu og lægri launa.

Það er verkefni ríkisstjórnarinnar á komandi mánuðum að leiðrétta þennan forsendubrest samhliða því að skjóta styrkum stoðum undir velferðarkerfið. Þá skiptir mestu að allur almenningur finni á eigin skinni að lífskjörin séu að batna líkt og opinberar hagtölur gefa til kynna en margir hafa því miður ekki fengið að njóta.