Óli Björn Kárason

Hægt, bítandi en ákveðið er reynt að grafa undan tiltrú á það sem er íslenskt. Flest er talið neikvætt, hallærislegt eða jafnvel ömurlegt. Ýmist er lagt til að Íslendingar afsali sér sjálfstæði og gangi Noregskonungi á hönd að nýju eða leiti skjóls í heitum faðmi Brussel-valdsins.

Ísland er sagt of fámennt og ekki þess megnugt, sem sjálfstæð þjóð, að halda úti nauðsynlegum stofnunum – stjórnkerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi eða samgöngum. Því er haldið fram að Íslendingar þjáist af „menningarlegri einangrunarhyggju“ og hræðist „það sem er öðruvísi“ svo vitnað sé til rithöfundar.

Fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og formaður stjórnmálaflokks skrifar um samanburðinn „milli bandaríska réttarríkisins og íslenska bananalýðveldisins“. Dugmikill verkalýðsleiðtogi, á árum áður, heldur því fram að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vinni „markvisst að að færa lýðveldið Ísland áratugi aftur í tímann og það að bananalýðveldi í heimshluta þar sem eru mestu lýðræðisríki þessa heims“.

Annar fyrrverandi flokksleiðtogi sakar Íslendinga um skort á þjóðernislegum metnaði og stolti: „Fulltrúar okkar vafra um sem vælandi aular og betla jólatré og notuð vopn.“

Ungur rithöfundur kveður upp þann dóm að Ísland sé „ónýtt“ og segir síðan nafngreindum einstaklingum að „éta skít“. Áhrifamiklir álitsgjafar hamra á því að íslenskir kjósendur séu „fávitar“ og „asnar“. Þeir sem vilja draga fram hið jákvæða eru óðar sakaðir um þjóðrembu og hroka.

Grafið undan tiltrú

„Sífellt fleiri sjá ekki framtíð í þessu landi,“ sagði stjórnmálaleiðtogi í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í haust. Hann hefur verið í sérstakri herferð gegn íslensku krónunni og grípur hvert tækifæri sem gefst til að grafa undan tiltrú almennings og atvinnulífsins á sjálfstæðum gjaldmiðli. Krónan er bölvaldurinn og til að losna undan þeirri óáran sem hún á að hafa leitt yfir þjóðina skal flúið á náðir Brussel og evran tekin upp. Þó búa flestar þjóðir evrulands við lakari – sum mun lakari – lífskjör en Íslendingar.

Því er í engu svarað hvernig Íslendingum tókst að brjótast úr því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í upphafi 20. aldar og komast í hóp mestu velferðarríkja heims með ónýtan gjaldmiðil í farteskinu.

Óvíða er jafnrétti kynjanna meira. Atvinnuþátttaka kvenna er hvergi meiri og er ein ástæða góðra lífskjara. Að meðaltali er atvinnuþátttaka kvenna hér á landi 40% meiri en í evrulöndum.

Á Íslandi starfa hlutfallslega fleiri við rannsóknir en í nokkru ríki Evrópusambandsins og fleiri en í „draumaríkinu“ Noregi. Þótt kjósendur séu taldir „fávitar“ og „asnar“ er Ísland í þriðja sæti á lista The Economist Intelligence Unit yfir stöðu lýðræðis í heiminum. Aðeins Noregur og Svíþjóð eru ofar og Danmörk er sæti fyrir neðan. Ísland er í sjötta sæti yfir lönd þar sem frelsi fjölmiðla er mest og er þar í hópi með Sviss, Lúxemborg og Danmörku.

Snúið á haus

Þrátt fyrir krónuna hefur tekist að byggja upp einhvern hagkvæmasta sjávarútveg heims, sem er skattlagður sérstaklega á sama tíma og flestar þjóðir, þar á meðal Evrópusambandið, Noregur og Bandaríkin, halda úti umfangsmikilli opinberri aðstoð. Íslenskur sjávarútvegur hefur staðist ríkisstyrkta samkeppni á erlendum mörkuðum. Þessu vilja úrtölumennirnir breyta – kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða og draga úr samkeppnishæfni með ofursköttum.

Þrátt fyrir að glímt sé við vanda í heilbrigðiskerfinu er Ísland í hópi þeirra þjóða þar sem heilbrigðisþjónustan er hvað best. En umræðunni er snúið á haus. Jafnvel forystumenn verkalýðshreyfingarinnar kynda undir ranghugmyndum um að verið sé að auka greiðsluþátttöku sjúklinga, þegar staðreyndir sýna að sitjandi ríkisstjórn hefur snúið við blaðinu. Greiðsluþátttaka sjúklinga í sérfræðikostnaði hefur þannig lækkað úr 42% í tíð vinstri stjórnar „norrænnar velferðar“ í 32-33% á þessu ári.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar halda því fram að nú standi yfir aðför að heilbrigðiskerfinu. Staðreyndir sýna annað. Þannig verða t.d. framlög til Landspítalans á komandi ári sex milljörðum króna hærri á föstu verðlagi en árið 2013. Og það sem meira er: Það er loks raunhæft að hefja uppbyggingu Landspítalans á kjörtímabilinu, án þess að skuldsetja ríkissjóð upp á von og óvon.

Vantraust

Nýleg könnun MMR leiðir sem betur fer í ljós að traust á helstu stofnunum samfélagsins er að aukast að nýju en engin stofnun nýtur meira trausts en lögreglan. En Alþingi hefur því miður ekki tekist að endurvinna traustið. Aðeins 12,8% landsmanna segjast treysta þinginu.

Auðvitað eru ástæður vantraustsins margvíslegar og sumar djúpstæðar. Orðræðan í samfélaginu er ekki til að skapa andrúmsloft traustleika og þar eiga fjölmiðlar og áhrifamiklir álitsgjafar hlut að máli, en stærsta hluta ábyrgðarinnar bera stjórnmálamennirnir sjálfir.

Það eykur ekki tiltrú á stétt stjórnmálamanna þegar kjósendur verða vitni að því ár eftir ár að fjármunum er varið úr sameiginlegum sjóði í verkefni sem litlu skipta á sama tíma og velferðar- og menntakerfið glímir við fjárskort. Fjárveitingarvaldið – Alþingi – öðlast seint traust skattgreiðenda ef þeir eru sannfærðir um að peningum sé ekki varið af skynsemi.

Með sama hætti getur sjálfstæði atvinnurekandinn ekki stutt stjórnmálamann sem lofar að ryðja braut frjálsra og sanngjarna viðskipta, en gerir síðan lítið til að efna slíkt loforð. Ekki frekar en eldri borgarinn sem bíður endalaust eftir að staðið sé við gefin fyrirheit í lífeyrismálum eða launamaðurinn sem batt vonir við að hófsemd fengi að ríkja í skattheimtu.

Ekki bætir úr skák að búið er að ríkisvæða stjórnmálastarfsemina á Íslandi. Í stað frjálsra framlaga eru stjórnmálaflokkarnir nú að mestu reknir á kostnað skattgreiðenda í gegnum ríkissjóð og sveitarsjóði. Hundruð milljóna króna renna úr sameiginlegum sjóðum til flokkanna á hverju ári.

Það yrði ágætt skref í að endurheimta traust á Alþingi að hætta ríkisrekstri stjórnmálaflokkanna og verja peningunum í þarfari málefni. Annað skref gæti verið að breyta orðræðunni – verða jákvæðari um framtíð landsins og jafnvel halda sig að mestu við staðreyndir, hvort heldur menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.