Óli Björn Kárason

Sjaldan ef nokkru sinni hefur starfsstétt í verkfallsaðgerðum notið meiri samúðar og stuðnings meðal almennings og íslenskir læknar. Þ
að kemur ekki á óvart enda hafa Íslendingar metið lækna meira og betur en flesta aðra.

Um það verður ekki deilt að íslenskir læknar hafa dregist aftur úr starfsbræðrum sínum í nágrannalöndunum, bæði hvað varðar kjör og allan aðbúnað. En það á við um fleiri stéttir og ekki aðeins innan heilbrigðiskerfisins.

Deilan virðist í vítahring og út úr honum verði ekki brotist nema með sameiginlegu átaki lækna og ríkisins. Himinn og haf er á milli þess sem ríkið hefur boðið og kröfugerðar lækna. Til skamms tíma blasir sá vandi við að fjárhagslegt bolmagn ríkissjóðs til að bæta kjör lækna er takmarkað. Verkefnið er enn flóknara og erfiðara þegar reynsla umliðinna áratuga er höfð í huga. Aðrar stéttir innan heilbrigðiskerfisins munu illa sætta sig við lakari bót á kjörum en þá er læknar ná fram. Þannig fer boltinn af stað. Undiralda á almennum vinnumarkaði eykur ekki svigrúmið.

Útgjöldoggrunnhlutverk

 

 

 

Þjóðarsáttmáli

Til lengri tíma litið er nauðsynlegt að mörkuð verði sú stefna í heilbrigðismálum að Ísland verði samkeppnisfært við önnur lönd um heilbrigðisstarfsfólk – hvort heldur það eru læknar, hjúkrunarfræðingar eða aðrir sérmenntaðir starfsmenn. Slík stefna verður ekki mótuð né verður henni hrint í framkvæmd nema að um hana ríki sátt og að hún njóti víðtæks stuðnings almennings.

Flest bendir til að góður jarðvegur sé fyrir einskonar þjóðarsáttmála um að tryggja samkeppnisfærni þjóðarinnar á sviði heilbrigðismála, hvort heldur er varðar kjör eða aðbúnað. Þetta er í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem undirstrikað er að íslenskt heilbrigðiskerfi verði „að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna“.

Hvatar og breytt fjármögnun

Samkeppnisstaðan um starfskrafta lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna verður aðeins bætt til frambúðar ef hægt verður að innleiða skynsamlega hvata inn í kerfið, auka framleiðni enn meira og meta árangur og ávinning af þjónustunni með nýjum hætti. Nauðsynlegt er að gjörbreyta fjármögnun sjúkrahúsa og þá ekki síst Landspítalans, beita forskrift og greiða fyrir unnin skilgreind verk. Þannig verði horfið að mestu af braut fastra fjárframlaga. Með sama hætti verður að ákveða framlög til rekstrar einstakra heilbrigðisstofnana út frá íbúafjölda, ýmsum lýðræði- og félagslegum þáttum og tryggja jafnræði milli landshluta og heilbrigðisumdæma.

Með þessu opnast nýir og auknir möguleikar á að gera þjónustusamninga við lækna um einstaka þætti líkt og þekkist vel í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Takist samhliða að innleiða greiðsluþáttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu gjörbreytist staðan jafnt fyrir sjúklinga sem starfsmenn.

Breytingar af þessu tagi gerast ekki á einni nóttu og verða ekki afgreiddar eða ákveðnar við samningaborð ríkissáttasemjara og lækna. En breytingarnar eru nauðsynlegar með sama hætti og uppbygging Landspítalans er lífsnauðsynleg.

Skyldur ríkisins

Kjaradeila lækna og umræðan um uppbyggingu Landspítalans undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að rétt sé staðið að ákvörðun um hvernig takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs er varið. Þó að sitjandi ríkisstjórn hafi rétt kúrsinn erum við enn á villigötum.

Fyrir réttu ári hélt undirritaður því fram, hér á þessum stað, að á Íslandi væri almenn sátt um grunnhlutverk ríkisins þótt deilt væri um hversu langt skyldi ganga.

Grunnhlutverk (-skyldur) ríkisins:

  • Tryggir heilbrigðisþjónustu.
  • Tryggir menntun.
  • Ver mannlega reisn, aðstoðar þá sem standa höllum fæti og hjálpar fólki til sjálfshjálpar.
  • Tryggir innra og ytra öryggi landsmanna – dómstólar, lögregla, landhelgisgæsla.
  • Setur lög og reglur.
  • Sinnir samskiptum við önnur lönd.
  • Tryggir innviði samgöngukerfisins.

Þegar fyrirhuguð útgjöld ríkissjóðs, samkvæmt fjárlagafrumvarpi komandi árs, eru skoðuð út frá ofangreindri skilgreiningu kemur í ljós að nær 120 milljarðar króna falla utan við grunnskyldur og að auki renna rúmir 84 milljarðar í fjármagnskostnað. Þannig fer um þriðja hver króna í annað en standa undir grunnskyldum ríkisins.

Breytt vinnubrögð

Til þess að ná árangri í rekstri ríkisins, hvort heldur þegar kemur að uppbyggingu velferðarkerfisins eða jafnvægi í ríkisbúskapnum og niðurgreiðslu skulda, er nauðsynlegt að breyta vinnubrögðum við fjárlagagerðina og fella úr gildi fjölda laga sem binda hendur fjármálaráðherra og Alþingis.

Með nokkurri einföldun á að skipta fjárlagagerðinni upp í þrennt:

  1. Fjármögnun á grunnskyldum ríkisins
  2. Fjármagnskostnað
  3. Fjármögnun á öðrum verkefnum.

Fyrsta verkefni fjárveitingavaldsins – Alþingis – er að tryggja fjármögnun á öllum grunnskyldum ríkisins. Að því loknu þarf þingið að tryggja fjármuni til að greiða fjármagnskostnað en um leið leggja grunn að róttækri lækkun skulda. Þá standa eftir önnur verkefni sem mörg hver eru mikilvæg, önnur síður og enn önnur eru hrein sóun fjármuna. Um fjárveitingar til þessara verkefna geta þingmenn tekist á, en þó aldrei fyrr en þeir hafa tryggt fulla fjármögnun á grunnverkefnum.

Með vinnubrögðum af þessu tagi verður betur tryggt en áður að fjármunum sé forgangsraðað með þeim hætti sem almenningur – skattgreiðendur – telur nauðsynlegt. Þá hefði sérstök umræða á Alþingi um Ríkisútvarpið, að ósk formanns Samfylkingarinnar, verið látin bíða en þingmenn þess í stað einbeitt sé að málefnum heilbrigðiskerfisins. En pólitískir tækifærisinnar reyna alltaf að slá keilur. Þess vegna var krafist að árlega yrðu sett hundruð milljóna króna til viðbótar í rekstur ríkisfjölmiðils auk þess sem ríkissjóður yfirtæki milljarða skuldir.

Fjórum dögum síðar fóru læknar í fyrsta skipti í verkfall.

Hvorki málshefjanda né öðrum þingmönnum sem kröfðust aukinna fjármuna til ríkisrekstrar fjölmiðils, kom til hugar að hugsanlega mætti nýta peningana með öðrum hætti. Sama dag og umræðan um Ríkisútvarpið fór fram birtist áhugaverð ábending í Viðskiptablaðinu.

113 milljarðar króna

Skattgreiðendur munu samkvæmt fjárlagafrumvarpi greiða nær þrjá milljarða til Ríkisútvarpsins á komandi ári. Ef framlag skattgreiðenda helst óbreytt um ókomna tíð, er núvirði framlagsins til Ríkisútvarpsins, m.v. við ávöxtunarkröfu lengstu skuldabréf ríkissjóðs, um 113 milljarðar króna. Það liggur fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu Landspítala geti orðið allt að 80 milljarðar.

Með öðrum orðum: Ef ríkið seldi Ríkisútvarpið eða hreinlega gæfi það starfsmönnum eða öðrum sem hafa áhuga á, gæti ríkið hafist handa við að reisa nýjan og fullkominn Landspítala og jafnframt skuldbundið sig til styrkja innlenda dagskrárgerð um einn milljarð króna á hverju einasta ári, án þess að auka skuldbindingar eða skuldir ríkisins.

Forgangsröðun af þessu tagi má varla ræða enda líkt og guðlast í hugum þeirra sem telja ríkisrekna fjölmiðlun heilaga. Verst er að milljarðarnir sem renna úr vasa skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins eru langt í frá eina dæmið um hvernig vitlaust er gefið úr sameiginlegum sjóði landsmanna.