Óli Björn Kárason

Í stjórnmálum – líkt og í lífinu sjálfu – þurfa menn að velja og hafna. Það er margt sem við viljum gera en getum ekki vegna þess að fjármunir eru takmarkaðir. Þess vegna þarf að forgangsraða og þar hlýtur gildismat hvers og eins að ráða för.Afkoma og tekjur RUV

Frá því að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag hafa skattgreiðendur lagt hinu ríkisrekna fjölmiðlafyrirtæki til tæplega 26 þúsund milljónir króna á verðlagi í september. Þrátt fyrir umfangsmikinn stuðning úr ríkissjóði á hverju einasta ári er ríkisfyrirtækið lítt greiðsluhæft. Í liðinni viku tilkynnti Ríkisútvarpið að það hefði þurft að semja um að fresta afborgun að fjárhæð 190 milljónir króna um nokkra mánuði. Stjórnarformaður Ríkisútvarpsins sagði í samtali við Morgunblaðið að ef »engar breytingar verða, mun félagið á endanum ekki geta greitt skuldir«.

Krónískur vandi í mörg ár

Ríkisútvarpið hefur lengi glímt við krónískan vanda í rekstri og sú glíma hafði staðið yfir í mörg ár áður en opinbert hlutafélag var stofnað um reksturinn árið 2007. Frá stofnun hefur Ríkisútvarpið ohf. tapað um 1.632 milljónum króna á föstu verðlagi.

Samanlagðar heildartekjur hafa hins vegar numið um 40.683 milljónum króna en þar af nemur ríkisframlag (nefskattur landsmanna sem Ríkisútvarpið kallar þjónustutekjur) 25.808 milljónum króna. Að meðaltali hefur Ríkisútvarpið því haft í hverjum mánuði tæpar 500 milljónir króna úr að spila allt frá því að hið opinbera hlutafélag tók til starfa í september 2007.

Á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi reikningsárs jukust skuldir Ríkisútvarpsins um 746 milljónir eða um 124 milljónir króna að meðaltali í hverjum mánuði. (Reikningsár Ríkisútvarpsins er frá september til ágúst.) Ríkisfyrirtækið tapaði um 219 milljónum króna á þessum sex mánuðum. Öllum má því vera ljóst að staða Ríkisútvarpsins er grafalvarleg.

Ekki sjálfgefið

Það er langt í frá sjálfgefið að ríkið standi í rekstri fjölmiðlafyrirtækis. Ríkisútvarpið hefur fyrir löngu fyrirgert öryggishlutverki sínu og hefur fremur ögrað eigendum sínum sem með nauðungargjöldum þurfa að leggja til því mikla fjármuni. Á sama tíma standa einkareknir fjölmiðlar höllum fæti gagnvart forréttindum ríkisfjölmiðilsins sem auk ríkisframlagsins hefur fengið liðlega 13 þúsund milljónir króna í tekjur af auglýsingum og kostun.

Með ofangreindar staðreyndir í huga hljóta þingmenn jafnt sem skattgreiðendur að spyrja: Hvað getum við gert fyrir tæplega 26 þúsund milljónir króna? Svarið við þessari spurningu er eðli máls háð gildismati en við gætum til dæmis:

  • Rekið Sjúkrahúsið á Akureyri í tæplega fimm ár.
  • Rekið heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í fimm ár.
  • Rekið Heilbrigðisstofnun Suðurlands í rúm sjö ár.
  • Lagt Háskólanum í Reykjavík til rekstrarfé í liðlega ellefu ár.
  • Rekið alla framhaldsskóla landsins í eitt ár.
  • Staðið við bakið á Sinfóníuhljómsveit Íslands í aldarfjórðung.
  • Lagt Kvikmyndamiðstöð Íslands fjármagn í 30 ár.

En svo gætum við einnig leyft skattgreiðendum að halda eftir þessum fjármunum og ráðstafa þeim eins og þeir telja best og skynsamlegast.

Svarið liggur fyrir

Önnur spurning sem vert er að spyrja: Hvað getum við gert fyrir tæplega 41 þúsund milljónir? Svarið virðist liggja skýrt fyrir: Mjög margt en við virðumst hins vegar vera ófær um að reka opinbert hlutafélag í fjölmiðlarekstri.

Ríkisendurskoðun hefur, af minna tilefni, verið beðin um að gera sérstaka stjórnsýsluúttekt á starfsemi stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Þegar opinbert hlutafélag stefnir í greiðsluþrot er það alvarlegra en svo að þingmenn geti setið aðgerðalausir hjá. Ekki verður séð að fjárlaganefnd geti komist hjá því – með stuðningi menntamálaráðherra – að óska eftir slíkri úttekt áður en Alþingi gengur frá fjárlögum 2015.

Uppskurður og nýtt skipulag

Á næstu vikum og mánuðum verða þingmenn og ráðherrar beittir miklum þrýstingi um að auka framlag ríkissjóðs (skattgreiðenda) til Ríkisútvarpsins. Því miður er ástæða til að hafa áhyggjur af því að margir muni láta undan, ekki síst þeir sem telja lausn flestra vandamála felast í því að ausa út frekari opinberum fjármunum þegar endar ná ekki saman í ríkisrekstri.

Lausnin getur hins vegar aldrei falist í því að hækka enn frekar »nauðungargjöld« skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins. Uppskurður og nýtt skipulag á öllum rekstri er eina raunhæfa leiðin ef það er á annað borð vilji meirihluta landsmanna að halda úti ríkisreknum fjölmiðli. Sá er þetta ritar hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir er miða fyrst og síðast að því að tryggja að langstærsti hluti þeirra fjármuna sem úr er að spila renni í innlenda dagskrárgerð. (Ekki er rúm til að rekja þær hugmyndir hér en rétt að benda meðal annars á ítarlega grein í Þjóðmálum í apríl 2010.)

Stjórn Ríkisútvarpsins, menntamálaráðherra og þingmenn standa frammi fyrir erfiðu verkefni. Verði haldið áfram á sömu braut í rekstri hins opinbera hlutafélags verður siglt í strand og ríkissjóður neyðist til að leggja fram hundruð milljóna króna í aukið eigið fé. Þetta gerðist síðast árið 2009 þegar ákveðið var að breyta 562 milljóna króna skuld Ríkisútvarpsins í hlutafé, en þá var félagið tæknilega gjaldþrota.

Varla getur það verið vilji þingmanna eða eigenda Ríkisútvarpsins – skattgreiðenda – að standa þannig að verki að á fimm til sex ára fresti þurfi að grípa til neyðarráðstafana til að tryggja rekstur ríkisfjölmiðils.

Er ekki peningum þá betur varið í að efla innlenda kvikmynda- og dagskrárgerð, í menntakerfið eða heilbrigðisþjónustu?