Óli Björn Kárason

Eitt hefur verið ánægjulegt í umræðum um fjárlög fyrir komandi ár. Vinstrimenn eru gengnir til liðs við okkur sem höfum alla tíð barist fyrir lægri sköttum. Að vísu er liðsinni þeirra aðeins pólitískt stundargaman en eðlisleg viðleiti vinstrimanna til að nýta sér mál sem þeir telja til vinsælda er sterk. En er á meðan er.

Vinstrimenn hafa auðvitað ekki lagt til hliðar hugmyndir um aukna skattheimtu. Fyrrverandi fjármálaráðherra vill að áfram verði innheimtur „auðlegðarskattur“, sem kemur þyngst niður á eldra fólki og sjálfstæðum atvinnurekendum. Loforð um að skatturinn væri tímabundinn skiptir auðvitað engu.

Samhliða fjárlagafrumvarpi komandi árs hefur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lagt fram tillögur er miða að því að einfalda virðisaukaskattskerfið, auka jafnræði milli atvinnugreina og fækka undanþágum. Efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% en lægra þrepið sem nú er 7% hækkar í 12%. Með þessu hækkar t.d. virðisaukaskattur á matvæli. Stjórnarandstæðingar telja sig hafa himin höndum tekið enda ekki á hverjum degi sem þeir telja rétt að berjast gegn skattahækkunum.

Hluti kerfisbreytinga

Vandi stjórnarandstæðinga er sá að breytingar á virðisaukaskattinum eru aðeins hluti af þeim kerfisbreytingum sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í. Almenn vörugjöld verða afnumin, sem einfaldar verðmyndum og eykur samkeppni að öðru óbreyttu. Samhliða á að hækka barnabætur um 13% og beina þeim af auknum þunga til tekjulægri foreldra.

Sérfræðingar fjármálaráðuneytisins telja að ráðstöfunartekjur landsmanna muni hækka um 0,5% með þessum breytingum. Með öðrum orðum: Hagur heimilanna mun batna.

Hitt er svo annað að það eru efnisleg rök fyrir því að fella niður virðisauka af helstu matvælum; landbúnaðarvörum og fiski, auk virðisaukaskatts af barnafötum. Lægra þrep virðisauka gæti hækkað í 13% á móti. Með sama hætti væri rétt að afnema barnabætur og taka þess í stað upp persónuafslátt barna (t.d. sem hlutfall af almennum persónuafslætti). Slík breyting væri skynsamlegt fyrsta skerf í að minnka flókið kerfi millifærslna og bóta. Um leið hættum við að líta á börnin sem bagga sem greiða þurfi sérstakar bætur fyrir. Vinstrimenn eru ekki tilbúnir í slíkar breytingar.

Vildu hækka matarskattinn

Andstaða þeirra við hækkun virðisaukaskatts á matvæli er pólitísk. Þeir sjá tækifæri til að koma höggi á forsætisráðherra og láta sig einnig dreyma um að reka fleyg milli stjórnarflokkanna. Forsætisráðherra er sakaður um að vera ómerkingur orða sinna, vegna þess að hann barðist, í stjórnarandstöðu, gegn hugmyndum ríkisstjórnar hinnar „norrænu velferðar“ um að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Þá – ólíkt nú – lét ríkisstjórn vinstrimanna sig dreyma um að hækka matarskatt án þess að grípa til annarra ráðstafana til mótvægis.

Hugmyndin um hækkun matarskatts var undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu ríkisins í júní 2011 að verið væri að skoða að taka upp eitt virðisaukaskattsþrep. Haft var eftir ráðherranum að ábendingar AGS hefðu hingað til verið gagnlegar.

Rúmu ári síðar taldi Oddný G. Harðardóttir, sem var tekin við sem fjármálaráðherra, rétt að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst 2012 sagði ráðherrann meðal annars:

„Ég myndi vilja skoða það að lækka efra þrepið þegar fram í sækir. Mér líst betur á það að vera bara með eitt þrep, þannig að við getum lækkað það sem nú er í efra þrepi og endurskoðað það sem er á undanþágunni. Við þurfum að endurskoða þetta reglulega. Allir borga virðisaukaskatt en við stýrum síðan ráðstöfunartekjunum og jöfnuði í gegnum tekjuskattinn.“

Í sama viðtali lýsti fjármálaráðherrann því yfir að auðlegðarskatturinn yrði ekki endurnýjaður.

„Það eru…ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Kokhreysti þrátt fyrir söguna

En sagan þvælist ekki fyrir. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er gagnrýnd harðlega fyrir að fella niður auðlegðarskatt – sem „norræna velferðarstjórnin“ setti á og ákvað að skyldi renna sitt skeið um komandi áramót. Engu skiptir þótt fyrrverandi fjármálaráðherra Samfylkingarinnar hafi lagt áherslu á að afnema skattinn. Gagnrýna skal ríkisstjórnina fyrir að lækka skatta á efnafólk.

Með sama hætti deila vinstrimenn harðlega á ríkisstjórnina fyrir að hækka virðisaukaskatt á matvæli – nokkuð sem þeir létu sig þó dreyma um að gera þegar þeir sátu við völd.

Það þarf nokkra kokhreysti til að skrifa í þeim anda sem Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingar og utanríkisráðherra, gerir í Morgunblaðsgrein fyrir skömmu:

„Framsóknar- og jafnaðarmenn hafa oftast borið gæfu til að standa saman um að verja matvæli og menningu fyrir óhóflegri skattlagningu. Það eigum við líka að gera núna.“

Auðvitað er Össur búinn að gleyma yfirlýsingum flokkssystur sinnar þegar hún sat í ráðuneyti fjármála. Líklega kemur það ekki á óvart en þó má vera víst að gömlum læriföður og samherja Össurar sárni mjög að hann skuli nú gleymdur og grafinn í huga þeirra sem kenna sig við jafnaðarmennsku.

Sjá ekki skóginn

Árið 1988 mælti Jón Baldvin Hannibalsson fjármálaráðherra fyrir frumvarpi um innleiðingu virðisaukaskatts (22%), sem kæmi í stað gamla söluskattsins. Stjórnarandstæðingar og þá ekki síst þingmenn Alþýðubandalagsins gagnrýndu frumvarpið harðlega einkum vegna matarskattsins svokallaða.

Jón Baldvin svaraði gagnrýninni með sínum hætti:

„Óvinsamlegasti hluti þessara breytinga í munni stjórnarandstæðinga hefur án efa verið skattlagning á matvörur. Af einhverjum ástæðum tókst þeim ekki að koma auga á skóginn fyrir trjánum eða vildu ekki gera það. Þeir neituðu hreinlega að horfast í augu við einfaldar staðreyndir um heildaráhrif skattkerfisbreytingarinnar en einblíndu á þann eina þátt þeirra sem þeir ætluðu trúlega að mundi veita þeim stundarvinsældir þótt árangur af þeirri viðleitni hafi verið misjafn.“

Síðar færði Jón Baldvin rök fyrir því, með einföldu dæmi, að lækkun eða afnám matarskatts væri fremur til hagsbóta fyrir hina tekjuhærri en þá sem lökust hefðu kjörin. Lærifaðir Össurar var harðorður í garð þeirra sem mótmæltu frumvarpinu:

„Ég tel mig hafa sýnt fram á það með veigamiklum rökum að sú skattkerfisbreyting sem gerð var í upphafi þessa árs og er undanfari þeirrar breytingar, sem hér er til umræðu, var ekki matarskattur, eins og lýðskrumarar hafa nefnt hana, heldur meiri háttar tekjujöfnun, einhver hin mesta sem gerð hefur verið af opinberri hálfu hér á landi.“

Hvort sem rök Jóns Baldvins standast eða ekki, er hitt ljóst að fullyrðing Össurar Skarphéðinssonar um að jafnaðarmenn hafi staðið gegn „óhóflegri“ skattlagningu á matvæli er röng, nema því aðeins að 22% virðisaukaskattur árið 1988 teljist hóflegur og 12% skattur árið 2015 óhóflegur.

Glerhús vinstrimanna gefur þeim sérstaka sýn á söguna og staðreyndir. Ef það veitir þeim hugarró að stunda þaðan steinkast er lítið við því að segja en þó er rétt að halda sögunni til haga.