Óli Björn Kárason

Óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti Íslendinga vilji sýna Færeyingum meiri drengskap og vinarþel en flestum öðrum þjóðum. Þess vegna áttu margir erfitt með að skilja og sætta sig við þegar færeyska skipinu Nærabergi var synjað um vistir, vatn og olíu þegar það lagðist að bryggju í Reykjavík síðastliðinn föstudag með bilaða vél. Tilvísun í lagatexta var ósannfærandi. Neitunin gekk gegn samningum milli Íslands og Færeyja og var í hrópandi andstöðu við allar hugmyndir um samskipti frænd- og vinaþjóða.

Mál Nærabergs, sem var að lokum leyst með farsælum hætti eftir vandræðagang, hefur beint athyglinni að samskiptum fámennra frændþjóða sem byggjast á gömlum merg. Engin þjóð stendur okkur Íslendingum nær en Færeyingar og fáar þjóðir reyndust okkur betur í efnahagsþrengingunum í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008. Þá sýndu Færeyingar okkur meira trygglyndi en aðrir frændur. Þeir voru fyrstir til að bjóða fram aðstoð í formi 6,2 milljarða króna láns og það án skilyrða. Lánið jafngildir því að Íslendingar hefðu lánað annarri þjóð skilyrðislaust lán að fjárhæð liðlega 40 milljarða króna.

Árið 2005 undirrituðu Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, og og Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, fríverslunarsamning milli landanna – svokallaðan Hoyvíkur-samning sem kenndur er við samnefndan bæ í Færeyjum. Samningurinn tók gildi árið 2006 en með honum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði. Samningurinn tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar; samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Með samningnum var fríverslun með landbúnaðarvörur tryggð auk þess sem lagt er bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru innan efnislegs gildissviðs hans. Þannig njóta Íslendingar og íslensk fyrirtæki sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar – og gagnkvæmt. Á vef utanríkisráðuneytisins segir að færa megi „rök fyrir því að samningur þessi sé einn víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert“.

Grípum boltann á lofti

Reynslan af Hoyvíkur-samningnum hefur verið góð fyrir báðar þjóðir og því tímabært að útvíkka samninginn líkt og Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, vill að gert verði. Í samtali við Ríkisútvarpið lýsti lögmaðurinn því yfir að sér „þætti spennandi að Íslendingar og Færeyingar gerðu með sér nýjan fríverslunarsamning og byðu Grænlendingum að vera með“. Þannig horfa forystumenn Færeyinga fremur fram á veginn og dvelja ekki við vandræðalega uppákomu í Reykjavíkurhöfn.

Íslensk stjórnvöld eiga að grípa boltann á lofti enda eru hugmyndir lögmannsins í samræmi við samþykkt Vestnorræna ráðsins í janúar síðastliðnum þar sem ríkisstjórnir landanna þriggja sem mynda ráðið eru hvattar til nánara samstarfs:

„Vestnorræna ráðið hvetur ríkisstjórnirnar þrjár jafnframt til þess að gera með sér fríverslunarsamning svo að löndin þrjú myndi eitt efnahagssvæði. Þess vegna er æskilegt að framtíðarviðræður um endurnýjun alþjóðlegra viðskiptasamninga miðist við að innleiða fríverslun í vestnorrænu ríkjunum.“

Víðtækur fríverslunarsamningur Færeyja, Grænlands og Íslands í anda Hoyvíkur-samningsins mun án nokkurs vafa reynast þjóðunum farsæll, efla tengslin og samvinnuna enn frekar. Það ætti að vera tiltölulega einfalt að gera slíkan samning enda sitja 18 þingmenn í Vestnorræna ráðinu. Fyrir hönd Alþingis sitja sex þingmenn – þrír frá stjórnarflokkunum og þrír frá stjórnarandstöðu. Pólitísk andstaða við víðtækan fríverslunarsamning getur því vart verið fyrir hendi.

Fyrsta skrefið

Þegar vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lagði af stað í Brussel-för var allt annað lagt til hliðar í íslenskum utanríkismálum eða látið mæta afgangi. Fríverslunarsamningur við Kína var settur til hliðar og ekki frá honum gengið fyrr en samfylkingar neyddust til að horfast í augu við að samningaviðræður við Evrópusambandið væru komnar í strand. Öryggis- og varnarmálum landsins var illa sinnt enda enginn pólitískur vilji til þess hjá vinstristjórn með liðsmenn sem alla tíð hafa barist gegn vestrænni samvinnu.

ESB-einstefna Samfylkingar og Vinstri grænna kom í veg fyrir að samvinna við aðrar þjóðir – frænd- og vinaþjóðir – væri þróuð og útvíkkuð. En nú er tækifærið og augljóst að pólitískur vilji er til þess jafnt á Grænlandi, í Færeyjum og hér á Íslandi. Fulltrúar Alþingis í Vestnorræna ráðinu hljóta í samvinnu við utanríkismálanefnd og utanríkisráðherra að beita sér fyrir því að gengið verði þegar til samninga um fríverslun landanna þriggja þar sem byggt er á Hoyvíkur-samningnum. Og það á ekki að láta þar við sitja heldur eiga löndin að útvíkka samstarf sitt til flesta sviða, allt frá heilbrigðisþjónustu (þar sem við höfum góða reynslu), til mennta- og menningarmála, til náttúruverndar og -nýtingar, til rannsókna og vísinda.

Samvinna af þessu tagi getur orðið fyrsta skrefið til þess að mynda fríverslun í norðurhöfum með þátttöku Bandaríkjanna, Kanada og Noregs, líkt og undirritaður hefur áður lagt til. Með fríverslunarsamningi opnast fullur aðgangur að yfir 340 milljóna manna markaðssvæði. Löndin sex eiga einnig sameiginlega hagsmuni í umhverfis- og öryggismálum, umfram flest önnur lönd ekki síst með hliðsjón af þeim breytingum sem virðast framundan vegna loftlagsbreytinga.

Sterk pólitísk staða

Tryggvi Hjaltason, öryggismála- og greiningarfræðingur, hefur bent á mikilvægi þess að þær þjóðir sem ætli að færa sér þær breytingar í nyt sem eiga sér stað á norðurslóðum, hefji þegar undirbúning. Í Morgunblaðsgrein 14. júlí 2010 skrifaði hann meðal annars:

„Undirbúa og styrkja þarf hagkerfi, burðarvirki, lagaumhverfi, einkafyrirtæki, öryggismál, langtímaáætlanir og getu ríkisins til þess að bregðast við þessum breytingum, enda kann ágóðinn að verða mikill. Það er mat bandarísku jarðfræðistofnunarinnar, að norðurskautið kunni að geyma 30-35% af þekktum olíulindum jarðarinnar og 13% af jarðgasi heimsins. Þá gæti íslaus norðvesturleiðin yfir Kanada stytt siglingaleiðir milli Asíu og Evrópu um 3-4 þúsund mílur. Siglingaleiðin til Yokohama í Japan frá Rotterdam í Hollandi myndi sem dæmi styttast um 4.450 mílur, skv. útreikningum rússneska ferðamálaráðuneytisins. Þá er einnig talið að gífurlegt magn af ýmsum öðrum náttúruauðlindum leynist á sjávarbotninum á norðurskautinu, t.d. málmar. Að lokum má einnig nefna breytt aðgengi að hinum ýmsu fiskistofnum á svæðinu.“

Tækifærin eru því til staðar og möguleikarnir til að nýta þau eru enn meiri ef okkur auðnast að efla samstarfið við Færeyinga og Grænlendinga. Sameiginlega standa þjóðirnar sterkt að vígi og geta leikið lykilhlutverk í norðurhöfum á sviði viðskipta, náttúrunýtingar og -verndar. Vestnorrænu löndin verða ekki aðeins öfundsverð sjálfstæð ríki heldur eftirsótt sem samstarfsríki stórþjóða jafnt í vestri sem austri. Sé rétt á málum haldið verður pólitísk staða smáþjóðanna (430 þúsund einstaklinga) allt önnur og meiri – staða sem enginn getur litið framhjá – ekki Evrópusambandið, Bandaríkin, Rússland, Kína eða önnur viðskiptaveldi heimsins.