Óli Björn Kárason

Með skipulegum hætti er unnið að því að afla forréttinda eða fyrirgreiðslu fyrir einstaka hópa frá ríki og sveitarfélögum. Atvinnurekendur hafa stofnað félög til að vinna að sérhagsmunum sínum. Launamenn hafa með sér verkalýðsfélög til að tryggja sína stöðu. Sveitarstjórnarmenn hafa samvinnu í sérhagsmunagæslu fyrir byggðalög um allt land. Listamenn standa sameiginlega vörð um hagsmuni sína og það gera íþróttamenn einnig. Öryrkjar eiga sín samtök til að berjast fyrir bættum hag, líkt og eldri borgarar og námsmenn.

Sérhagsmunabandalögin eru fjölmörg og fleiri en flestir gera sér grein fyrir. Skattgreiðendur eru hins vegar sundurlaus hjörð. Hagsmunabandalög eru hluti af frjálsu samfélagi en eftir því sem umsvif hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – eru meiri því nauðsynlegra er talið að mynda félög eða samtök til að tryggja hag einstakra hópa, atvinnugreina eða fyrirtækja. Jafnvel íbúar einstakra hverfa taka sig saman til að tryggja hagsmuni hverfisins þegar sveitarstjórnarmenn setjast niður og útdeila fjármunum og gæðum. Í kapphlaupinu við úthlutun gæða standa öflugir þrýstihópar vel að vígi en einstaklingurinn á litla eða enga möguleika.

Skara eld að eigin köku

Eðli máls samkvæmt horfa baráttumenn sérhagsmuna lítið sem ekkert til annarra. Markmiðið er að skara eld að eigin köku með einum eða öðrum hætti. Sífellt flóknara regluverk hefur knúið á öflugri hagsmunagæslu, þar sem reynt er með skipulegum hætti að hafa áhrif á lagasetningu og samningu reglugerða sem geta ráðið miklu um afkomu einstakra hópa og atvinnugreina.

Í grein sem undirritaður skrifaði í Viðskiptablaðið fyrir tuttugu árum var því haldið fram að mikilvægt væri að átta sig á áhrifum hagsmunahópa. Auðveldara er að mynda fámennan sérhagsmunahóp en fjölmennan. Það er einfaldara fyrir bændur að taka höndum saman til að tryggja sinn hag en fyrir neytendur að standa vörð um hagsmuni sína. Hið sama á við um umsvifamiklar matvörukeðjur. Þannig má lengi telja. Neytendur (líkt og skattgreiðendur) er tvístraður hópur með misjafna hagsmuni.

Auðveldara, þægilegra og tryggara

Á síðustu áratugum hafa völd og áhrif ýmissa sérhagsmunahópa aukist enda hafa margir yfir meiri fjármunum að ráða en áður og lögbundin staða þeirra verið tryggð. Með verkfallsrétti hafa ríkisstarfsmenn orðið öflugur þrýstihópur og með fjölgun opinberra starfsmanna hafa samtök þeirra náð að ganga harðar fram í hagsmunabaráttunni. Það er því engin tilviljun að stjórnmálamenn taki aukið tillit til hagsmuna ríkisstarfsmanna ekki síst þeir sem hafa þar pólitískt bakland.

Hið sama á við um aðra þrýstihópa sem margir hafa fengið lögverndaða sérstöðu. Þing- og sveitarstjórnarmenn taka meira tillit til þeirra og hlusta síður á raddir úr sundurlausri hjörð skattgreiðenda.

Með öðrum orðum; það er oft auðveldara, þægilegra og tryggara fyrir stjórnmálamenn að standa vörð um ákveðna hagsmuni en að taka málstað skattgreiðenda, sem á endanum bera kostnaðinn.

Hagsmunasamtök hafa launaða starfsmenn á sínum snærum til að afla upplýsinga, túlka þær og matreiða fyrir stjórnmálamenn, fjölmiðla og almenning. Eftir því sem lög og reglur eru flóknari aukast áhrif þrýstihópa enda búa þeir yfir sérþekkingu sem annaðhvort er útilokað fyrir stjórnmálamenn að afla sér eða það er of kostnaðarsamt og of tímafrekt.

Hagsmunahópar tryggja sumir stöðuna sína með því að styðja við bakið á stjórnmálamönnum eða -flokkum beint með peningum eða óbeint með því að auglýsa og koma á framfæri stjórnarmiðum viðkomandi eða berjast fyrir sömu málefnum og sett eru á oddinn.

Oft velja stjórnmálamenn málefnin eftir því hvað viðkomandi hagsmunahópur telur að sé af hinu góða. Eftir því sem það verður dýrara fyrir stjórnmálaflokka að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, því meiri líkur eru á því að hagsmunahópum takist að „múta“ stjórnmálamanninum óbeint með þessum hætti.

Ekki til vinsælda

Stjórnmálamaður sem vinnur gegn sérhagsmunum fárra á kostnað almennings vinnur sér ekki vinsældir meðal þrýstihópa. Sá sem leggur til að lífeyriskerfið verði stokkað upp og sjóðsfélögum fengin völdin, mun seint fá stuðning þeirra atvinnurekenda og verkalýðsfrömuða, sem stjórna lífeyrissjóðunum sem gegna lykilhlutverki í valdakerfi atvinnulífsins. Gegn slíkum hugmyndum er barist af hörku.

Með sama hætti er ólíklegt að frambjóðandi sem vill koma á jafnræði í lífeyrisréttindum fái mikinn hljómgrunn hjá opinberum starfsmönnum, að öðru óbreyttu. Stjórnmálamaður sem berst fyrir því að draga ríkið út úr fjölmiðlarekstri nýtur ekki sömu velvildar í Efstaleiti og sá sem berst fyrir hærri afnotagjöldum (sköttum á almenning) til að styrkja ríkisrekstur í samkeppni við einkaaðila. (Hvor skyldi hafa greiðari aðgang að hljóðnemanum og myndavélinni?)

Líkt og í öllum lýðfrjálsum löndum er samþætting hagsmunahópa og stjórnmála staðreynd hér á landi. Slík samþætting er óhjákvæmileg en standi vilji kjósenda til þess að draga úr áhrifum þrýstihópa eiga þeir aðeins einn kost:

Draga úr umsvifum hins opinbera og einfalda allt regluverk. Að öðrum kosti heldur hin sundurlausa hjörð skattgreiðenda áfram að borga reikninginn.